fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Anna var flutt hreppaflutningum 64 ára: Neitaði að fara á elliheimili og endaði í Stykkishólmi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 11. október 2018 09:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ein þeirra sem flutt voru hreppaflutningum,“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir, blaðamaður og rithöfundur, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Anna hefur glímt við veikindi síðustu ár og af þeim sökum þurft að dvelja á spítölum reglulega.

Anna skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir yfirskriftinni Hreppaflutningar. Í greininni segir hún að á síðustu þremur og hálfu ári hafi hún þurft að vera í einangrun þegar hún leggst inn á spítala vegna ónæmrar bakteríu sem „spítalinn gaf mér í mars 2015“ eins og hún orðar það. Því næst beinir hún orðum sínum að orði sem heyrist stundum, hinum svokölluðu hreppaflutningum.

Flutt hreppaflutningum

„Samkvæmt íslenskri orðabók þýðir hreppaflutningur fátækraflutningur. Ég hef ekki tölu á því hversu margir aðstandendur vina minna og ættingja hafa verið fluttir hreppaflutningum af LSH, enda þarf stöðugt að losa þar rúm og stofur. Í sumum tilvikanna komust ættingjar að því fyrir tilviljun að senda ætti ástvini út á land. Engu máli virðist skipta að sá sem flytja á hreppaflutningi er yfirleitt mikið veikur sjúklingur. Þessi sem er of veikur til að fara heim, en engin úrræði eru til hjá LSH. Ég er ein þeirra sem flutt voru hreppaflutningum,“ segir hún og bætir við að hún geri sér grein fyrir að á síðustu árum hafi hún teppt rúm sem þurfi að losa.

„Það séu „fleiri sjúklingar en ég þarna“ og talað við mig eins og fullhrausta manneskju sem gerði sér það að leik að taka rúm á einangrunarstofu á Landspítalanum til að hvíla sig í. Út átti ég að fara. Ég var sem sé of veik til að fara heim og mér leið eins og ég væri ekki lengur sjálfráða.“

Boðið að fara á elliheimili, til Grindavíkur og á Reykhóla

Anna segir að tilboðin hafi komið á nokkurra daga fresti. „Dvalarheimilið í Grindavík í hvíldarinnlögn?“ Nei, takk, sama og þegið. Nokkru síðar: „Elliheimilið Grund?“ Ég benti á að ég væri 64 ára og fyndist ég ekki eiga heima á Grund. Þriðja tilboðið hljómaði upp á dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum. Mér finnst að í öllum þessum tilboðum hafi andlega hliðin algjörlega gleymst. Að flytja fólk hreppaflutningum hlýtur beinlínis að vera hættulegt fyrir sálina. Sálin læknast mest og best þegar maður er með sínu fólki. Hefur sitt stuðningsnet,“ segir Anna og bætir við að allt síðasta ár og meira og minna þetta ár hafi hún verið inn og út af spítölum.

Að lokum fór svo að Anna Kristine samþykkti að fara til Stykkishólms, nánar tiltekið á St. Franciskusspítalann. Anna segir að hún kunni ákaflega vel við sig í Stykkishólmi og það hafi verið eins og að koma í annan heim að fara þangað.

Fann fyrir virðingu í Stykkishólmi

„Þar og aðeins þar fann ég virðingu gagnvart sjúklingnum mér, sem eftir margra vikna erfiða innlögn í einangrun var orðin afar döpur. Auðvitað er alls staðar gott fólk að vinna erfið störf á LSH, en það er alltof mikið álag á því og það bitnar á sjúklingunum. Af öllum spítölum sem ég hef legið inni á, var Landakot alltaf númer eitt, en nú ber St. Franciskusspítalinn í Stykkishólmi af. Hæfileikar, hógværð, væntumþykja, samvinna. Ég sagði já við Stykkishólmi því þangað á ég ættir að rekja og var þar mikið sem barn. Ég sagði já við Stykkishólmi því þar höfðu nunnur rekið spítalann líkt og Landakot áður fyrr, og langafabróðir minn, Ágúst Þórarinsson, kom að byggingu spítalans. Þarna var hver einasti starfsmaður starfi sínu vaxinn og vel það. Þar er hugsað um líkamlega heilsu, þarna er mjög góð endurhæfing og síðast en ekki síst var það að andlega álagið sem ég hafði verið undir, lokuð inni í litlu herbergi, hvarf algjörlega,“ segir Anna sem veltir upp þeirri spurningu hvers vegna St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði hafi ekki verið starfræktur áfram sem og Landakotsspítali.

Gengur ekki lengur

„Hvernig á að leysa þennan vanda sem langtímasjúklingar eru? Og eitt er alveg víst, það vilja allir komast heim. Ég gat tekist á við þetta enda tiltölulega ungur langtímasjúklingur, en hvað með alla hina? Gamla fólkið sem er sent á staði sem það hefur aldrei komið á og eru oft í svo mikilli fjarlægð frá heimabyggð að það fær sjaldnar heimsóknir, ef þá nokkrar?,“ spyr Anna og bætir við að hana langi til að gera eitthvað til að efla sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Hvetur hún þá sem hafa einhverjar hugmyndir að koma þeim til hennar.

„Einnig má leggja inn á Vináttu- og stuðningsfélag St. Franciskus spítala sem systurnar sem störfuðu þar stofnuðu áður en þær fóru af landi brott. Þær gáfu 5 milljónir árið 2010 og hægt er að leggja inn á reikninginn og gefa til dæmis í afmælisgjafir eða senda minningarkort. Skiptiborðsstúlkan sér um að koma gjöfunum til þeirra sem þær eiga að fá. Reikningurinn er 0309- 22-350 og kennitalan 441213 0260. Ég hvet yfirmenn heilbrigðiskerfisins, ráðherra, stjórnendur og bæjarfélög til að taka höndum saman og laga ástandið. Svona getur þetta ekki gengið lengur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi