fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Nemanda í Kvikmyndaskólanum varð óglatt við lestur bréfs frá Darren

Darren Foreman, sem var nýverið rekinn úr Kvikmyndaskóla Íslands, óskar eftir aðstoð nemenda

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 10. janúar 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski leikarinn Darren Foreman, sem var nýlega rekinn úr Kvikmyndaskóla Íslands eftir að nemendur sökuðu hann um kynferðislega áreitni, sendi fyrrverandi nemendum sínum bréf á dögunum þar sem hann óskaði eftir aðstoð þeirra til að hreinsa sig sökum. Einn núverandi kvenkyns nemandi í skólanum segist í samtali við DV hafa orðið óglatt við lestur bréfsins.

Tvær sögur í #metoo

Í bréfinu, sem er á ensku, óskar Darren eftir því að nemendur skrifi nokkur orð um hann þar sem samstarfi við hann sé lýst. Hann segir að hann myndi nota slíkar nafnlausar yfirlýsingar til að hjálpa málstað sínum í framtíðinni. „Þetta er að hluta til gert til þess að styrkja málið mitt, en líka til að komast að því hvort minningar mínar séu réttar eða hvort ég sé einfaldlega orðinn geðveikur,“ segir Darren í bréfinu. Hann óskar eftir því að slíkar yfirlýsingar verði sendar á sig og Sigrúnu Gylfadóttur, deildarforseta leiklistardeildar skólans. Í bréfinu endurtekur hann svipuð orð og hann sagði í samtali við DV á dögunum: „Það er engin leið að berjast gegn þessu, þær segja bara það sem þær vilja.“

Í það minnsta tvær sögur kvenna úr sviðslistum og kvikmyndagerð undir formerkjum #metoo fjölluðu um Darren. Hann var í kjölfarið rekinn úr skólanum beinlínis vegna þeirra ásakana. Friðrik Þór Friðriksson, leikstjóri og rektor skólans, sagði á dögunum í samtali við DV að hann teldi að ekki hafi verið tekið rétt á máli Darrens en nemendur hefðu kvartað undan honum áður en #metoo kom til sögunnar. „Ég held að hann hafi verið rekinn bara um leið og metoo byrjaði, áður en Stundin fjallaði um málið. Líkt og kom fram í yfirlýsingunni þá teljum við að þetta hafi ekki verið höndlað rétt þegar það kom upp. Við reyndum að láta fólk sættast. Skólinn brást við um leið og þetta gerðist. Þetta er voðalega leiðinlegt mál,“ sagði Friðrik Þór.

Viðurkennir að hafa sofið hjá nemanda

Í bréfinu sem Darren sendi fyrrverandi nemendum sínum greinir hann frá því að hann hafi verið sakaður um einelti, að hvetja nemendur til að leika naktir eða fáklæddir. Darren segir í bréfinu:

„ … hef verið sakaður um að snerta nemendur á óviðeigandi hátt, tala á kynferðislegum nótum í samkvæmum og hvetja kvenkyns nemendur til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum gegn verðlaunum og guð má vita hvað. Enginn vill þó segja mér hvað það er nákvæmlega sem ég á að hafa gert af mér svo ég á ekki möguleika á að verja mig. Eins og þú getur ímyndað þér, þá held ég fram að ekkert af þessu er satt. Það er ein ásökun sem fótur er fyrir og hún er sú að ég hafi stundað kynlíf með nemanda. Ég stundaði kynlíf með fullorðinni manneskju sem hafði engin áhrif á það sem átti sér stað í bekknum.“

Þá heldur Darren því fram að hann hafi stundað starf sitt af fagmennsku en gengst við því að hafa verið strangur og haldið uppi aga.

„Um þetta eru ekki allir sammála. Ég ákvað að tjá mig ekki og bíða umræðuna af mér þrátt fyrir að vita að um var að ræða hefnd sem beindist að mér. En síðan birti DV mynd af mér og nafnið mitt svo nú verð ég að verja mig […] Svo nú bið ég þig um greiða. Ég yrði mjög þakklátur ef þú gætir sent mér yfirlýsingu sem lýsir sýn þinni á kennsluhætti mína.

Ég myndi vilja nota sumar yfirlýsingarnar í framtíðinni en ég sver að ég mun aldrei greina frá höfundi þeirra. Þetta yrði aðeins til að styðja mitt mál en einnig til að finna út úr hvort minningar mínar eru réttar eða hvort ég sé hreinlega brjálaður. […] Ef ég skipti þig einhverju máli sem kennari, þá bið ég þig að taka þér tíma eins fljótt og þú hefur tök á. Takk fyrir að hlusta.“

Óþægilegt að fá bréf

Í umfjöllun Stundarinnar um Kvikmyndaskólann á dögunum var að finna grófari ásakanir en er að finna hér að framan. Þar var haft eftir fyrrverandi kvenkynsnemanda að Darren hefði leitt hann upp í rúm til sín eftir samkvæmi. „Ég var mjög skelkuð og ákvað að sofa í öllum fötunum. Hann fór samt að káfa á mér, en ég ýtti honum frá og hann hætti. Næsta morgun reyndi hann aftur en ég neitaði og hann skutlaði mér heim,“ var haft eftir fyrrverandi nemanda hans.

Núverandi nemandi við skólann segir í samtali við DV að sér hafi liðið mjög óþægilega við að fá þetta bréf Darrens: „Af hverju er hann að biðja okkur um að senda Sigrúnu afrit af umfjöllun um hann? Er skólinn með honum í liði? Ég hugsaði bara „oj“. Svo segir hann eitthvað á þá leið að hann vilji komast að því hvort minni hans sé að bresta eða hann einfaldlega bara klikkaður. Mér fannst mjög óþægilegt að fá þetta bréf, kennari sem er ekki að kenna við skólann er að senda mér svona skilaboð. Ég vil ekkert með þennan mann hafa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“