fbpx
Sunnudagur 21.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Sigríður höfð að háð og spotti fyrir að gagnrýna ónæði frá Októberfest – „Á mörkum neteineltis og alveg fáránlegt“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 10. september 2018 11:40

Snærós Sindradóttur, verkefnastjóri hjá RÚV, líkti hávaðanum við andakvak.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á laugardaginn gagnrýndi Sigríður Ásta Árnadóttir Októberfest Stúdentaráðs Háskóla Íslands innan hóps Vesturbæinga á Facebook. Hún benti þar á að lögbundin næturró væri ekki virt með þeim afleiðingum að sumir Vesturbæingar, þar á meðal hún, væru orðnir svefnvana.

Viðbrögð innan hópsins voru að mestu á þá leið að hún var höfð að háð og spotti fyrir innlegg sitt. Í samtali við DV segir Sigríður Ásta að viðbrögð sumra nágranna hennar séu á lágu plani og líkist einna helst neteinelti.

„Októberfest Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur enn eitt árið truflað næturró mikið í hverfinu okkar og Þingholtunum að auki. Þrátt fyrir fögur fyrirheit formanns SHÍ í Vesturbæjarhópnum í gær um sátt og samlyndi og aðgerðir til að draga úr látunum – og skaplegri hávaða fram eftir gærkvöldinu, reyndar – var hávaðinn eftir miðnætti orðinn sá sami og á fimmtudagskvöldinu. Og við eigum þriðja kvöldið inni,“ skrifaði Sigríður og benti hún svo á ýmis ráð til að stemma stigum við hávaðanum, svo sem að hafa samband við Stúdentaráð og lögreglu.

Þrátt fyrir að nokkrir hafi tekið undir með Sigríði þá voru fleiri sem gerðu grín að þessu. Þar á meðal má nefna Snærós Sindradóttur, verkefnastjóra hjá RÚV og áður blaðamanns, sem líkti hávaðanum við kvak anda.

„Þegar ég bjó á Laufásvegi var stöðug truflun frá Hringbraut til suðurs og öndunum á tjörninni í norður. Fuglarnir voru sérstaklega hvimleiðir en samt lét ég það alveg vera að senda borgarstjóra bréf. Þær gefa jú miðbænum lit og eru uppspretta mikillar gleði hjá þúsundum barna sem leggja leið sína að Tjörninni. Ég held það fari best á því að sleppa því að trufla lögregluna með hringingum í 112 vegna skemmtanahalds fjarri íbúabyggð í Vatnsmýri. Stundum þarf bara að horfast í augu við að Reykjavík er orðin borg og í borgum heyrist í borgarlífi; skemmtanahaldi, umferð og gæsagaggi,“ skrifar Snærós og bætir við að íbúar ættu ekki að skemma skemmtanahald háskólanema.

Eiginmaður Snærósar, Freyr Rögnvaldsson, blaðamaður Stundarinnar, líkir svo hávaðanum við breimandi kött í þræðinum: „Það var breima kattarkvikindi að garga í bakgarðinum hjá mér í síðustu viku. Hver ætlar að bera ábyrgð á því?“

Þau tvö voru fjarri lagi þau einu sem gerðu grín að innlegginu. „Ég ætlaði líka að leggja mig um daginn í kringum hádegið en þá hringdi síminn. Fólk sýnir bara ENGA virðingu!,“ skrifaði Björn nokkur. Annar Vesturbæingur líkti henni við Indriða úr Fóstbræðrum: „Vá ég hló alveg mörgum sinnum gegnum þennan þráð. Mæli með því að við bönnum tónlist, kirkjuklukkur, ketti, túrista, rútur, bíla, dyrabjöllur, nágranna, fugla, vindinn, almennt spjall, hlátur, börn, bjölluna í Melaskóla, lokum Reykjavíkurflugvelli og bönnum svo okkar innri rödd sem er háværust af öllu. Kveðja, Indriði.“

Rétt er að taka fram að sumir voru sammála Sigríði Ástu. „Ég bý úti á Granda, og þetta glumdi hér yfir, get varla ímyndað mér hvernig hefur verið hjá ykkur sem eruð nær,“ skrifaði ein kona meðan karlmaður nokkur vildi ekki leyfa hátíðina: „Við heyrðum þetta á Ránargötu 45 hjá Drafnarborg. Ég legg til að þetta verði ekki leyft héðan í frá. Hvar má ég kjósa?“

Sigríður Ásta segir í samtali við DV að innan hópsins hafi umræðan verði afvegaleidd. Málið snúist ekki um að skemma skemmtanahald háskólanema alfarið heldur að hávaðamengun innan íbúahverfa sé haldið í lágmarki að nóttu til.

„Mér finnst umræðan fara mjög fljótt á ofboðslega skrýtið plan og jafnvel svolítið lágt plan, af því að þetta sem ég er að skrifa er í rauninni bara um lögbundin réttindi fólks, að það ríki næturfriður í þéttbýli á ákveðum tímum sólarhringsins. Þetta snýst engan veginn um það, í mínum huga, að ég vilji að þessi hátíð sé lögð niður eða að stúdentar geti ekki skemmt sér. Það er einhvern veginn verið að afvegaleiða umræðuna með því,“ segir Sigríður Ásta.

Hún segist einfaldlega hafa verið að hvetja nágranna sína sem hafi verið ósáttir til að bregðast við. „Það er fjöldinn allur fólks óánægðir með þetta, þó fólk hafi vissulega lent misilla í þessu. Húsin eru staðsett mismunandi og vindur breytilegur þannig að það næðir mismunandi í sumum götum. En umræðan hefur farið mjög fljótt í það að þetta snúist um að stúdentar megi ekki skemmta sér og fólk verði að umbera ýmislegt eina helgi á ári. En þetta eru þrjár nætur, langt inn í nóttina. Ég held að Vesturbæingum vilji ekki loka þessari hátíð, en hún er orðin mjög stór, mjög hávær og allt of langt inn í helgina,“ segir Sigríður Ásta.

Hún segir að viðbrögðin líkist eina helst neteinelti. „Umræður um endurnar á Tjörninni kvaki of hátt, umræða um að ég eigi að flytja í önnur hverfi, umræður um að köttur hafi breimað í bakgarðinum í gær, er á mörkum einhverskonar neteineltis og alveg fáránlegt. Því miður,“ segir Sigríður Ásta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Harðar fjölskyldudeilur milli Brynjars og Gústafs: „Eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn“

Harðar fjölskyldudeilur milli Brynjars og Gústafs: „Eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn“
Fréttir
Í gær

Smári: Steiktu Kóreumenn upp úr lýsi? – „Gæti nú allt eins talist stríðsglæpur“

Smári: Steiktu Kóreumenn upp úr lýsi? – „Gæti nú allt eins talist stríðsglæpur“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Frábær saga af Guðna forseta: „Sumt í lífinu er of fallegt til að deila því ekki“

Frábær saga af Guðna forseta: „Sumt í lífinu er of fallegt til að deila því ekki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ísólfur bendir á gallað heilbrigðiskerfi: „Fyrir alla muni frestið þriðja orkupakkanum“

Ísólfur bendir á gallað heilbrigðiskerfi: „Fyrir alla muni frestið þriðja orkupakkanum“