Brasilíumenn eru margir hverjir í sárum eftir að Þjóðminjasafn landsins brann til kaldra kola í nótt. Um er að ræða gríðarlegt áfall og er talið að mest allt sem var í húsinu sé ónýtt.
Byggingin sem um ræðir var tvö hundruð ára gömul og safnið það stærsta sinnar tegundar í Suður-Ameríku. Á því var að finna þúsundir muna, ævaforna steingervinga sem fundist hafa í landinu, forna gripi frá Egyptalandi, tólf þúsund ára beinagrind, steingerð risaeðlubein og loftstein sem fannst árið 1784 svo örfá dæmi séu tekin.
„Þetta er ólýsanlegt áfall. 200 ára menningararfur er horfinn,“ segir Luiz Duarte, framkvæmdastjóri safnsins, við TV Globo.
Eldsupptök liggja ekki fyrir en málið er í rannsókn.