Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Í samtali við blaðið gantaðist Guðmundur með að hann hafi verið að hugsa um að fara beint niður í Fangelsismálastofnun og krefjast þess að vera látinn laus eins og skot. Guðmundur hefur búið á áfangaheimilinu Vernd frá í apríl og á eftir að vera þar í 11 mánuði áður en hann lýkur afplánun sinni undir rafrænu eftirliti.
Það er því ekki að furða að Guðmundi hafi brugðið í brún þegar hann fékk sakavottorðið afhent og á því stóð: „Ekkert brot“.
Hann vakti sjálfur athygli á þessu á Facebooksíðu sinni. Ljóst er að eitthvað hefur farið úrskeiðis við skráningar í sakaskrána því samkvæmt reglum ríkissaksóknara á að færa brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni á sakaskrá fólks. Ef meira en fimm ár eru liðin frá dómsuppkvaðningu eða frá því að dómþoli var látinn laus á ekki að tilgreina dóma. Guðmundur ætti því ekki að vera með hreint sakavottorð.