Jósef Ólason, hinn eini og sanni sendiboði Elvis Presley á Íslandi, sló í gegn þegar aðdáendaklúbbur Elvis hér á landi hélt minningarkvöld um kónginn á Gullöldinni. Jósef hefur dáð Elvis frá átta ára aldri eða frá því að hann sá hann fyrst í kanasjónvarpinu. Jósef sem missti neðan af fæti eftir læknamistök steig á svið og segir lítið mál að taka sporin þrátt fyrir fötlun sína.
„Ég var í miklum Elvis-ham,“ segir Jósef í samtali við DV um frammistöðu sína þetta kvöld. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort hinn íslenski Elvis njóti stuðnings fjölskyldunnar þegar kemur að þessu áhugamáli. „Elvis er ekki einn,“ segir Jósef og bætir við: „Fjölskylda mín, íslenski aðdáendaklúbburinn og Gullöldin styðja við bakið á mér.“ Jósef kveðst ekki vilja leggjast undir hnífinn til að líkjast Elvis. Þess í stað hefur hann safnað þykkum og myndarlegum börtum. Þá á hann sérsaumaða Elvisgalla. Jósef er einnig sannfærður um að Elvis sé á lífi og eigi heima á búgarði nálægt Graceland.
Jósef á eina dóttur sem verður átján ára á næsta ári. Jósef er hálfhneykslaður þegar blaðamaður spyr hvaða nafn hann hafi valið henni. „Hún heitir auðvitað Lísa María og heitir í höfuðið á dóttur Presley. Lísa María hans Elvisar á afmæli 1. febrúar en dóttir mín á afmæli 5. febrúar.“
Áður hefur verið greint frá því að Jósef hafi lent í slysi þegar hann var að skemmta í heimahúsi. Í samtali við Vísi lýsti Jósef slysinu á þessa leið: „Það var bleyta á gólfinu og ég var að taka karatespark eins og Elvis gerir stundum. Tók ekki eftir bleytunni og flaug á hausinn. Hafði ekki hugmynd um að eitthvað hafði gerst. Daginn eftir var fóturinn bólginn, konan fór með mig á bráðamóttökuna og þar var þetta var myndað.“ Jósef hafði brotnað og var settur í gifs. Þegar það var tekið kom í ljós að mikill bjúgur hafði myndast og að lokum fékk Jósef sýkingu og neyddist til að leggjast undir hnífinn. Jósef gerði lítið úr þessu og benti á að margir hefðu það verra en hann.
En hvernig gengur að dansa og syngja eftir að hafa misst neðan af fæti?
„Ég er mjög sprækur,“ svarar Jósef.
Hvernig gengur að dansa á einum fæti?
„Það er ekki hægt. Ég er með gervifót. Ég dansa á báðum og tek taktana hans líka, mjaðmahnykkina ef ég er í stuði,“ segir Jósef og bætir við: „En það er rétt að taka fram að ég er samt bara Elvis á efri árunum.“