Klukkan 8.15 að morgni 8. nóvember 1986 var lítill ljóshærður drengur brosandi á leið í bakaríið á Husarvej í Randers á Jótlandi. Hann var stoltur yfir að vera að fara aleinn í bakaríið í fyrsta sinn og þrammaði glaðbeittur í bláu gúmmístígvélunum sínum með hálfsítt ljóst hárið flaksandi eftir gangstéttinni. Hann hafði gengið þessa leið áður með föður sínum og rataði því. Hann var með buddu með 100 krónum og innkaupaseðli sem hann átti að láta afgreiðslukonuna fá. Hann vissi ekki að í buddunni var glaðningur til hans. Á innkaupaseðilinn hafði móðir hans skrifað skilaboð til afgreiðslukonunnar um að drengurinn mætti kaupa sér nammi fyrir 10 krónur af því að hann væri svo duglegur að fara einn í bakaríið í fyrsta sinn. Úr glugganum á íbúð fjölskyldunnar fylgdist móðir hans grannt með ferðum hans. Hún sá hann ganga eftir götunni og síðan hverfa bak við framhlið húss í átt að Garnisonsvej. Þetta var í síðasta sinn sem hún sá hann á lífi.
Drengurinn hét Joachim Gisle Larsson og var sex ára. Hann kom aldrei í bakaríið og vissi aldrei af glaðningnum sem hann átti að fá þar.
Lögreglunni var fljótlega gert viðvart um hvarf hans. Fjölmiðlar fjölluðu um málið og danska þjóðin fylgdist grannt með enda er afar sjaldgæft að börn hverfi í Danmörku. Sérþjálfaðir leitarhundar lögreglunnar leituðu að Joachim, þyrlur voru notaðar við leitina og sjálfboðaliðar lögðu lögreglunni lið dögum saman. En Joachim var horfinn, gjörsamlega sporlaust. Það eina sem fannst var buddan með 100 krónunum og innkaupaseðlinum. Hún fannst á Garnisonsvej, þar sem hann hafði horfið sjónum móður sinnar.
Málið var í alla staði skelfilegt og ekki hægt að setja sig í spor foreldranna. Sonur þeirra virtist hafa gufað upp og ekkert var vitað um hvað af honum hafði orðið eða hvort hann væri á lífi. Málið hafði einnig mikil áhrif á lögreglumennina sem komu að rannsókn þess enda margir þeirra feður og mál sem þetta lætur engan ósnortinn. Það er staðreynd í málum sem þessum að líkurnar á að finna barn á lífi minnka með hverri klukkustund sem líður. Þegar klukkustundirnar urðu að dögum án þess að Joachim fyndist voru lögreglumennirnir sannfærðir um að hann myndi varla finnast á lífi. En enginn gafst upp og menn lögðu nótt við dag í leitinni að Joachim og vonuðu það besta.
Vonin brast
Þremur dögum eftir að Joachim hvarf brast vonin um að hann fyndist á lífi. Í gróðurþykkni nærri Fladbro, sem er um sex kílómetra frá heimili Joachims, fundu lögreglumenn lík hans. Trjágreinar höfðu verið lagðar yfir hann. Hann var enn í bláu stígvélunum sínum. Hann hafði verið myrtur. Drepinn með hnífsstungum og höggum. Leitin að morðingjanum hófst strax en rannsókn málsins tók miklu lengri tíma en nokkur hefði getað ímyndað sér og morðinginn var alls ekki hættur. Sérfræðingar lögreglunnar gerðu ítarlega vettvangsrannsókn á fundarstað líksins. Þeir fundu ýmislegt, þar á meðal hjólför í mjúkri moldinni. Þau voru eftir skellinöðru. Við hlið hjólfaranna fundu þeir fótspor eftir stígvél Joachims. Joachim var krufinn og var niðurstaða krufningarinnar að hann hefði verið drepinn með 22 hnífsstungum. Lögreglan var jafn einbeitt í að finna morðingja litla drengsins og hún hafði verið í að finna hann á lífi. Morðinginn skyldi ekki komast upp með þetta hryllingsverk. Ekkert benti til að Joachim hefði verið misnotaður kynferðislega en nokkrar vísbendingar leiddu hugann að því hvort morðið gæti samt sem áður hafa verið af kynferðislegum toga. Í nærbuxum hans fundust leifar af þremur mismunandi plöntum sem ekki uxu á staðnum þar sem líkið fannst. Joachim hafði sem sé verið buxnalaus áður en hann var myrtur. Af hverju? Hvar?
Lögreglan lagði enn meiri kraft í rannsóknina. Fjöldi manna, sem þóttu líklegir til að geta framið voðaverk sem þetta, var tekinn til yfirheyrslu. Í morðmálum er það oft svo að það er einhver náinn fórnarlambinu sem ræður því bana. Foreldrar Joachims voru því yfirheyrðir margoft en fljótlega var lögreglan sannfærð um að þeir hefðu ekki komið neitt nálægt morðinu. Um 2.500 manns voru yfirheyrð, en lögreglunni miðaði nánast ekkert áfram við rannsóknina. Garðyrkjufræðingur var fenginn til aðstoðar við að bera kennsl á plöntutegundirnar þrjár og finna staðinn þar sem þær yxu. En þrátt fyrir mikla og ítarlega leit fundu lögreglan og garðyrkjusérfræðingurinn ekki stað þar sem þessar þrjár plöntu uxu allar. Það vantaði því mikilvægar upplýsingar í málið. Hvert hafði morðinginn farið með Joachim áður en hann myrti hann? Fimm mánuðum eftir morðið var lögreglan í algjörri blindgötu og rannsóknin skilaði engum árangri. Þá var ráðist á annað barn í Randers.
Ráðist á blaðberann
Snemma morguns á apríldegi 1987 var Pia Schou, 10 ára, að bera út dagblöð í norðurhluta Randers. Hún vann sig hægt og rólega í gegnum hverfið. Þegar hún kom að gula húsinu í hverfinu gerði hún eins og alltaf: Lagði töskuna frá sér, tók blað úr henni og hljóp með það að húsinu. En þegar hún kom aftur til baka var taskan horfin. Hún skimaði eftir henni en sá hana ekki. Skyndilega sá hún mann sem stóð niðri í kjallaratröppum og horfði á hana. Hann hélt töskunni hennar upp og gaf henni merki um að koma og sækja hana. Hún þorði eiginlega ekki að sækja hana en vissi ekki hvað hún átti að gera, blöðin voru öll í töskunni. Hún beið og gekk um. Þegar hún sneri aftur að tröppunum var maðurinn horfinn og taskan lá í tröppunum. Hún gekk niður til að sækja hana en þá fann hún að einhver var fyrir aftan hana. Hönd var sett fyrir munn hennar. Hún var síðan dregin aftur á bak inn í skot neðan við tröppurnar. Hún öskraði en maðurinn sagðist vera með hníf og þorði hún þá ekki annað en þegja. Hún vissi ekki hvað hann ætlaði að gera en hún fann að hann var illmenni. Síðan opnaði hann buxurnar og sagði: „Pissaðu í buxurnar.“
Hún var í áfalli, hún var hrædd. Hún vildi gjarnan pissa í buxurnar til að hann yrði ekki reiður en hún var svo skelfingu lostin að hún gat það ekki. Í staðinn spurði hún hvort hún mætti fá smá ferskt loft. Maðurinn gaf sig og losaði tökin á henni. Hún stökk þá af stað en komst ekki langt áður en hann náði henni aftur. Nú tók hann um háls hennar og átti hún erfitt með að ná andanum. Hann dró hana aftur niður í myrkrið í tröppunum. Maðurinn lét hana leggjast niður og tók hana úr buxunum og sleikti síðan kynfæri hennar. Þegar hann hafði lokið sér af lét hann hana fá buxurnar aftur og sagði henni að standa upp. Pia var fullviss um að hún myndi ekki sleppa lifandi frá honum og alls ekki þegar hann sagði henni að snúa baki í hann og ganga á brott. Hún var viss um að hann myndi drepa hana.
Skelfileg mistök lögreglunnar
Skömmu síðar sat hún á lögreglustöðinni ásamt foreldrum sínum og sagði lögreglumönnum hvað hefði gerst. Hún var látin skoða albúm með myndum af afbrotamönnum. Hún þekkti manninn strax aftur á augum hans. Hún sagði lögreglumönnunum það og að hann hefði sagst heita Søren. Maðurinn sem hún benti á hét Peder Dinesen Fur. Hann var þekktur sem Peder Fut í Randers. Hann þótti ansi sérstakur og hafði mikinn áhuga á lestum. Hann var vel þekktur hjá lögreglunni vegna smáafbrota en lögreglumennirnir trúðu ekki að Pia hefði rétt fyrir sér. Gat verið að minni hennar hefði brugðist? Maðurinn sem hún benti á var jú ansi sérstakur en prófíllinn hans passaði ekki við prófíl kynferðisbrotamanna. Lögreglan taldi hann hættulausan. Móðir hans veitti honum fjarvistarsönnun þennan dag og lögreglan sleppti honum. En hún vissi ekki að hún hafði sleppt morðingja Joachims, sama manninum og réðst á Piu.
Næstu tvö árin gerðist lítið í rannsókn á málunum. Lögreglan fylgdi mörgum vísbendingum en án árangurs, en 12 menn játuðu morðið á sig en allt voru það falskar játningar. Allar vísbendingarnar enduðu í blindgötu. Lögreglan ákvað því að opinbera upplýsingar um morðið sem hafði verið haldið leyndum fram að þessu. Þetta var gert í þeirri von að nýjar vísbendingar myndu berast. En allt kom fyrir ekki. Það leit því út fyrir að morðingi Joachims Gisle Larsson myndi aldrei finnast. En þá komst hreyfing á málið á nýjan leik.
Morðinginn fór aftur á kreik
Í lok mars 1989 komu mörg hundruð þjóðdansarar til Randers til að taka þátt í árlegri þjóðdansahátíð. Þá voru tvö og hálft ár liðið síðan Joachim litli var myrtur og tvö ár síðan ráðist var á Piu. En nú vaknaði aftur hvöt hjá Peder Fur til að gera eitthvað. Hann hafði drukkið áfengi og sat framan við hátíðarstaðinn, sem var í íþróttahöll, með bjór. Tvær litlar stúlkur, 7 og 10 ára, gengu framhjá honum. Hann lokkaði þær að íþróttahöllinni og síðan að engi. Þar reyndi hann að fá þá 7 ára til að pissa í buxurnar en það vildi hún ekki. Þá varð hann reiður og skammaði hana og sagði henni að hafa sig á brott, hún væri hvort sem er of ung. Þegar hún hljóp á brott sneri hann sér að eldri stúlkunni, þreif í hana og kastaði í jörðina. Hann tók beltið af sér og ætlaði að binda stúlkuna en hún sparkaði og barðist um svo hann komst ekki að henni. Síðar sagði hann lögreglunni hvernig hann hefði fundið reiðina blossa upp í sér. Hann þreif í stúlkuna og tók um háls hennar og þrengdi að. Hann horfði á hana og sagði henni að hún gæti valið hvort hann kyrkti hana eða hún pissaði á höfuð hans. Stúlkan beit hann í höndina og honum brá svo mikið að hann sleppti henni. Hún náði að hlaupa á brott til fólksins á þjóðdansahátíðinni.
Árásin á stúlkurnar kom lögreglunni á sporið. Atburðarásin minnti á mál Piu og stúlkurnar sögðu að maðurinn hefði kallað sig Søren eins og Pia hafði sagt tveimur árum áður. Nú fóru púslin að raðast saman. Peder Fur var handtekinn þennan sama dag. Hann játaði strax að hafa ráðist á stúlkurnar tvær og Piu og mörg önnur kynferðisbrot gegn börnum í bænum. Nokkrum dögum síðar sagði Peder Fur svolítið sem lögreglan hafði lengi beðið eftir að heyra. Hann lýsti þá atburðarásinni daginn sem hann myrti Joachim. Hann sagðist hafa stolið skellinöðru til að fara að leita að stúlku. Hann sá Joachim og taldi að hann væri stúlka vegna síða ljósa hársins. Hann sagðist myndu aka Joachim til bakarans og fékk hann til að setjast aftan á skellinöðruna. Hann ók síðan með hann á afvikinn stað þar sem hann bað hann að pissa í buxurnar. Það var fyrst þá sem Peder Fur áttaði sig á að hann hafði tekið strák en ekki stúlku. Fyrir dómi sagði hann að Joachim hafi viljað sýna honum að hann væri strákur en ekki stelpa og því farið úr buxunum og lagt þær á jörðina. Þannig enduðu plöntutegundirnar þrjár í nærbuxum hans. Hann vissi ekki hvað hann átti til bragðs að taka og ók um með hann í smá tíma áður en hann kom til Fladbro. Þar settist Peder Fur niður og drakk bjór en Joachim varð leiður og vildi fara heim en það fór á annan veg. Peder Fur hefur aldrei skýrt frá af hverju hann myrti Joachim.
Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi og er enn í fangelsi og mun líklegast aldrei fá reynslulausn.