Þann 31 ágúst 1978 opnaði Hlemmur formlega og verður hann því fjörutíu ára gamall á föstudaginn. Gunnar Hansson, arkitekt, hannaði Hlemm og var hans upprunalega hlutverk að þjónusta farþega Strætisvagna Reykjavíkur sem biðstöð. Á sínum tíma var mikið kallað eftir betri aðstöðu og var því samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur að byggja Hlemm. Árið 2016 breyttist svo hlutverk hússins og var byggð þar Mathöll með fjölda veitingastaða. Alls kostaði 308 milljónir að breyta hlutverki staðarins en upprunalega var áætlað að kostnaðurinn yrði 107 milljónir.
Haldið verður upp á afmælið á morgun og hafa Hlemmur Mathöll, Reykjavíkurborg og Strætó BS tekið saman höndum til að fagna 40 ára afmælinu og hefst dagskráin klukkan 16:00 með ávarpi borgarstjóra Reykjavíkur. Gestir geta meðal annars farið í ferð með gömlum strætisvagni þar sem Unnur María Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur, ferðast um söguna og segir frá menningunni sem skapast hefur í kringum Hlemm.