Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út í vikunni eftir að fjórir drengir á aldrinum 11-12 ára fundu torkennilegan hlut. Eftir athugun sprengjusérfræðinga kom í ljós að um virka sprengjukúlu væri að ræða. Kúlunni var í kjölfarið eytt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem send var fjölmiðlum.
Mikil mildi þykir að sprengjan hafi ekki sprungið í höndum drengjanna en þeir höfðu leikið sér með sprengjukúluna og kastað henni á milli sín áður en þeir gerðu foreldrum sínum viðvart. Talið er að sprengjukúlan komi úr loftvarnabyssu breska olíuskipsins El Grillo, sem liggur á botni Seyðisfjarðar, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Landhelgisgæslan vill því brýna fyrir fólki að láta lögreglu eða Landhelgisgæsluna vita tafarlaust ef það finnur torkennilega hluti og snerta þá ekki. Ef vafi leikur á um hvort um sprengju sé að ræða er mikilvægt að sprengjusérfræðingar skeri úr um slíkt,“ segir í tilkynningunni.