„Ég var alveg tilbúin að vaða út og æpa á þessa menn hvað þá vantaði eiginlega, ég missti bara alltaf af þeim. Börnin mín voru ekki alveg viss um að það væri góð hugmynd,“ segir Margrét Örnólfsdóttir, tónlistarkona og handritshöfundur, í samtali við DV.is en hún varð fyrir nokkuð óhugnalegri reynslu aðfaranótt 19. ágúst síðastliðinn, þegar hún var vör við ókunnuga menn sniglast í kringum heimili hennar og fjölskyldunnar í Kársneshverfi.
Margrét greinir frá þessu atviki inni á Facebook-hópi fyrir íbúa í Kárneshverfi en hún er búsett ásamt fjölskyldu sinni á Þinghólsbraut. Um hálf eitt leytið um nóttina varð hún fyrst vör við að ókunnugur náungi var á vappi í kringum húsið.
„Fyrst var maður í kringum tvítugt, klæddur ljósgrárri hettupeysu, sem virðist hafa verið að kíka á glugga en faldi sig þegar ég fór út og kallaði og leitaði kringum húsið, síðan sá ég hann á harðaspani út götuna.
Um hálftíma síðar birtist annar maður sem tók sér stöðu á gangstéttinni við endann að heimtröðinni, beint á móti útidyrunum, og stóð þar um stund og horfði á húsið. Þessi var eldri og þreknari (með væna ýstru), klæddur rauðum stuttermabol og frekar stuttum buxum.
Hann lét sig svo hverfa en birtist aftur 20 mín. síðar og stóð á sama stað og starði í átt að húsinu. Kannski sá hann mig í glugganum með símann við eyrað, sem var þriðja símtal til löggunnar, lagði á flótta og hljóp sömu leið og sá fyrri – út götuna, niður göngustíginn sem liggur niður á hafnarsvæðið og beygði þar inn á bílastæði þar sem ég missti sjónar á honum.
Löggan mætti á milli heimsóknar 2 og 3 og leitaði hér um kring en ekkert kom út úr því. Það er ekki gott að segja hvað þessum mönnum gekk til, en þeim tókst í það minnsta að hræða líftóruna úr börnunum og ræna mig nætursvefni,“ skrifaði Margrét og varpaði um leið fyrirspurn til annarra íbúa hverfisins varðandi grunsamlegar mannaferðir.
Hefur færsla Margrétar vakið töluverð viðbrögð meðal meðlima hópsins. Í athugasemdum undir færslunni deila alls sjö einstaklingar frásögn af nýlegum innbrotum í bíla og gengur einn svo langt að spyrja „hvað sé í gangi í hverfinu.“
Í samtali við DV.is hefur Margrét sömu sögu að segja. „Það hefur líka nokkrum sinnum verið farið inn í bílana okkar, ólæsta, þarna fyrir utan, sem virðist vera algengt í hverfinu.
Það gerðist svosem ekkert meira í þessu máli og ég er farin að hallast að því að þetta hafi verið eitthvert undarlegt fyllerísruglVerst fyrir þá sem stunda þetta að það er ekkert nema tómar drykkjarfernur og fleira ónothæft í okkar bílum.“
Í desember síðastliðnum sagði DV frá því að íbúar Kársneshverfis í Kópavogi væru uggandi vegna þess sem sumir vildu meina að væri innbrotahrina eða faraldur. Fjölmargir íbúar hverfisins sögðu frá innbrotum og lýstu yfir áhyggjum af ástandinu í hverfinu á spjallsíðu íbúa hverfisins. Vildu sumir íbúar meina að um skipulagðar innbrotsferðir væri að ræða og þjófarnir kæmu ekki frá Kársneshverfi.
DV ræddi á sínum tíma við Birgi Örn Guðjónsson, varðstjóra í Kópavogi sem sagði að yfirleitt væri um að ræða tímabundið ástand þegar einhverjir einstaklingar væru að venja komur sínar á ákveðin svæði.
„Ekki er hægt að kalla þetta neina innbrotsöldu. Samfélagið er bara orðið svo miklu meðvitaðra um það þegar eitthvað gerist. Samfélagsmiðlarnir og svona hverfasíður leika þar stórt hlutverk.“
Þá tók hann fyrir það að um faraldur eða skipulagað brotastarfsemi væri að ræða.
„Þarna komu upp nokkur atvik á stuttum tíma sem tengdust að mestu sama einstaklingnum. Það þarf oft ekki meira til. Þetta var hvorki faraldur né skipulögð brotastarfsemi. Mig minnir að í þessum tilvikum hafi verið farið inn í ólæst hús eða bíla. Það er alltaf góð regla að hafa húsið læst á nóttunni eða þegar enginn er heima og að sjálfsögðu að læsa alltaf bílnum.“
Þá benti hann fólki á að hringja strax í neyðarnúmerið 112.
„Við bregðumst mjög hratt við ef slíkt atvik kemur upp. Fólk þarf svo að meta það sjálft hvort það treysti sér til að mæta viðkomandi úti eða hvort það vilji bíða eftir lögreglu. Fólk er misjafnt og aðstæðurnar einnig.“
Er algengara en ekki að innbrotsþjófar séu ölvaðir eða í eiturlyfjavímu heldur en allsgáðir?
„Ég held nú að ef einhverjir villist inn í hús þar sem einhver er heima þá séu líkurnar oft meiri á því að viðkomandi sé undir einhverjum áhrifum. Þetta er gjarnan gert til að fjármagna einhverja neyslu.“ Hann segir að langalgengustu viðbrögð þeirra séu að flýja ef þeir mæta fólki. „Þá er líka hægt að færa viðkomandi þær fréttir að lögreglan sé á leiðinni. Það eru fréttir sem þeir vilja ekki heyra.“