Valur Lýðsson, sem ákærður er fyrir að hafa valdið dauða bróður síns, Ragnars Lýðssonar, segist lítið muna frá kvöldinu sem bróðir hans dó. Í ákæru er honum gefið að sök að hafa slegið Ragnar ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama. Það síðasta sem hann man er óljós mynd af andliti. Hann útilokar ekki að það sé andlit Ragnars bróður hans. Það er Rúv sem greinir frá þessu en aðalmeðferð málsins sem hófst í morgun.
Ragnar fannst látinn að Gýgjarhóli II að morgni laugardagsins 31. mars síðastliðinn. Þeir bræður höfðu þá kvöldið áður setið að sumbli, ásamt Erni þriðja bróðurnum. Hann hefur ákveðið að gefa ekki skýrslu vegna náinna tengsla við ákærða.
Að sögn Vals ræddu þeir bræður margt kvöldið örlagaríka, meðal annars drauma Vals um að færa bæjarstæðið að Gýgjarhóli. „Þegar við fórum að ræða það kom eitthvað ólundargeð í hann,” sagði Valur við skýrslutöku í morgun, að því er fram kemur á vef Rúv. Eftir það kveðst Valur ekki muna neitt.
Aðspurður um hvort hann hafi áður verið árásargjarn undir áhrifum áfengis sagði Valur svo vera. Hann kvaðst þó aldrei hafa lagt hendur á Ragnar bróðir sinn. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari spurði Val einnig út í blóð sem fannst undir fæti hans. Hann skýrði það út á þann hátt að það hlyti að hafa komið þegar hann kom að bróður sínum um morguninn.