Hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu árið 1986, leiddi lið sitt til sigurs í Stanley-bikarnum og raðaði inn mörkunum. Joe Murphy var í hópi bestu leikmanna bandarísku NHL-deildarinnar í íshokkí og hann fékk líka vel borgað. Talið er að á fimmtán ára ferli sínum hafi hann fengið um tvo milljarða króna.
En þrátt fyrir alla velgengnina er Joe Murphy heimilislaus í dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í athyglisverðri heimildarmynd um kappann, Finding Murph, sem sýnd verður á TSN í Kanada á miðvikudag. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar myndin um leitina að Murphy sem skoraði 233 mörk á ferli sínum.
Murphy, sem í dag er fimmtugur, er heimilislaus sem fyrr segir og býr á götum Kenora í Ontario. Hann spilaði fimmtán tímabil í NHL með liðum eins og Chicago Blackhawks, Edmonton Oilers og Detroit Red Wings.
Árið 1991 fékk Murphy þungt og mikið högg þegar Sawn Burr, leikmaður Detroit Red Wings, skautaði á hann á miklum hraða. Fyrrverandi eiginkona hans, Julie, og systir hans, Cathy, lýsa því í myndinni að höggið hafi verið ákveðinn vendipunktur, hegðun hans og framkoma hefði tekið stakkaskiptum.
Hokkííþróttin nýtur mikilla vinsælda í Bandaríkjunum rétt eins og NFL. Um er að ræða líkamlegar íþróttir þar sem snertingar og pústrar á milli manna eru algengir. Aðstandendur Murphy telja að höfuðhöggin sem Murphy fékk á ferli sínum hafi breytt hegðun hans og átt sinn þátt í því að hann kom sér í vandræði á síðari stigum feril síns sem leikmaður í NHL. Og einnig átt sinn þátt í því að hann missti nær allar eigur sínar.
Rick Westhead, framleiðandi og höfundur myndarinnar, segir við TSN að Murphy viðurkenni sjálfur að hann hefði átt að hugsa betur um peningana sína. Þá opni hann sig um lyfjamisnotkun sína í myndinni. „Hann fékk ógrynni af lyfseðilsskyldum lyfjum frá liðum og læknum í deildinni svo hann missti ekki af leikjum,“ segir hann.
Murphy segist hafa leitað á náðir NHL-deildarinnar eftir aðstoð á sínum tíma en komið að lokuðum dyrum. Hann var ekki lengur á samningi hjá liði og því ekki hægt að aðstoða hann. „Það hafði mikil áhrif á mig. Ég gat ekki unnið en ég hefði þurft að gera það. Þetta var ógnvekjandi, eins og alvarlegt þunglyndi.“
Murphy var í hópi fyrrverandi leikmanna NHL-deildarinnar sem freistuðu þess að höfða mál vegna höfuðmeiðsla sem þeir hlutu sem leikmenn. Málinu var vísað frá fyrir skemmstu en Murphy útilokar ekki að höfða einkamál gegn deildinni í þeirri von um að fá bætur.
Í heimildarmyndinni er ljósi varpað á þær aðstæður sem Murphy býr við í dag en einnig afleiðingar höfuðmeiðsla sem margir fyrrverandi leikmenn deildarinnar glíma við enn þann dag í dag. Margir geta ekki unnið, eru hreinlega öryrkjar eftir íþróttaferilinn. Rick Westhead segir að Joe sé fjarri því eini fyrrverandi leikmaðurinn sem er í þessum sporum þó eflaust séu fáir heimilislausir. „Ef þeir eru ekki heimilislausir þá lifa þeir undir fátæktarmörkum. Það er það sem ég heyri,“ segir hann.