Brynjar Karl Birgisson, ungur drengur sem vakti heimsathygli fyrir hæfileika sína við að byggja úr Lego-kubbum, sendir kennurum og nemendum mikilvæg skilaboð. Brynjar er einhverfur en hann vakti sem fyrr segir mikla athygli þegar hann smíðaði ógnarstóra eftirlíkingu af Titanic úr Lego-kubbum.
Skólarnir eru byrjaðir og er tilefni skrifa Brynjar einmitt sú staðreynd.
„Mig langar að senda öllum krökkum og kennurum góða kveðju og smá skilaboð. Núna þegar skólinn er byrjaður þá skulum við muna að það eru sumir glaðir að mæta í skólann aftur en líka sumir með kvíða. Það eru oft krakkar sem eru „öðruvísi“ og eru ekki flínk í samskiptum,“ segir Brynjar á Facebook-síðu sinni í pistli, sem bæði er skrifaður á íslensku og ensku.
„Mig langar að skora á ykkur að verja krakkana sem eru öðruvísi vegna þess að það gera cool krakkar. Ég á vini í dag sem verja og samþykkja mig eins og ég er og þess vegna er ég jákvæður og glaður að mæta aftur í skólann. Einkunnirnar mínar hækkuðu og ég fór að æfa fótbolta sem engin hélt að ég gæti gert. Það er svo gott að vera samþykktur og fá að vera eins og maður er í friði þá gengur allt miklu betur. Verum cool.“
Brynjar hefur vaki mikla athygli undanfarin misseri og meðal annars haldið fyrirlestur hjá TED um einhverfu. Þá var Brynjar gerður að heiðursborgara Tennessee en þar var Titanic-líkanið til sýnis á safni sem er tileinkað þessu sögufræga skipi.
Frábært hjá þessum unga dreng en skilaboðin sem hann sendir kennurum og nemendum eiga svo sannarlega vel við nú þegar skólarnir eru að fara af stað.