„Við erum búnir að skrifa undir samning um að opna framleiðslufyrirtæki í London á næstunni. Það verður í samstarfi við þekktan aðila í þessum bransa. Ég hef verið að kynna mér og læra allt í kringum framleiðslu á klámi undanfarin misseri og hlakka til þess að takast á við þetta verkefni. Fólk myndi aldrei trúa því hvað það er í ótrúlega mörg horn að líta í þessum rekstri,“ segir Stefan Octavian Gheorghe í samtali við DV.
Það vakti mikla athygli fyrir rúmu ári þegar Stefan, sem er aðeins 21 árs gamall, steig fram opinberlega sem fyrsta klámstjarna Íslands. Kemur hann fram undir sviðsnafninu Charlie Keller en upphaflega var ætlun hans að halda starfinu leyndu, að minnsta kosti fyrst um sinn. Fiskisagan flýgur hins vegar hratt á litla Íslandi og þegar Stefan komst á snoðir um að íslenskur fjölmiðill ætlaði að fjalla um starfsvettvang hans sá hann sig knúinn til þess að láta ástvini sína vita og opna umræðuna.
„Það var svo sem ekkert mál og mér var almennt vel tekið. Flestir í þessum bransa nota einmitt ekki sitt raunverulega nafn til, þess að verja sig, enda eru fordómarnir gagnvart þessu starfi miklir. Þú þarft að vera viðbúinn því að efnið sem þú tekur upp verði alltaf aðgengilegt á netinu. Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir frá áhugasömum Íslendingum um verkefni í klámbransanum en þegar ég bendi þeim á þetta þá hætta allir við. Ég er því búinn að stoppa allmarga Íslendinga í að leggja fyrir sig leik í klámmyndum,“ segir Stefan og hlær.
Hann segist verða var við mikinn áhuga aðdáenda sinna og sumir hafi kannski gengið of langt. „Ég lenti í því að fá heimsókn frá einum hressum aðdáanda eftir að hann hafði fundið út á samskiptamiðlum hvar ég var í Bandaríkjunum. Það var sárasaklaust en ég taldi vissara að breyta stillingunum til þess að koma í veg fyrir frekari uppákomur,“ segir Stefán.
Hann og unnusti hans, Devin Dickinson, eru með mörg járn í eldinum og því kann Stefan vel að meta frelsið sem klámferillinn býður upp á. „Við höfum verið að aðstoða félaga okkar með rekstur á veitingastað í Bandaríkjunum og við höfum mikinn áhuga á því að starfa meira á þeim vettvangi og jafnvel opna eigin stað. Jafnvel á Íslandi,“ segir Stefan.