Nemendur við Menntaskólann í Kópavogi eru afar ósáttir við stjórnendur skólans eftir að óskum þeirra um ókeypis dömubindi á kvennaklósett skólans var hafnað. Í vikunni var smokkasjálfsala komið fyrir á karlaklósetti skólans sem vakið hefur mikla undrun nemenda.
Nemandi við skólann sem ekki vill láta nafns síns getið segir töluverða reiði ríkja meðal nemenda vegna málsins. „Stelpur geta lent í því að byrja á blæðingum á miðjum skóladegi og þurfa þá að fara heim. Það bitnar á náminu og því ætti þetta að vera sjálfsagt mál,“ sagði nemandinn sem hafði samband við DV vegna málsins.
Hann segir fjölmarga nemendur hafa talað fyrir daufum eyrum stjórnenda skólans. „Við fengum þau svör að stelpur gætu hamstrað dömubindin og farið með heim sem er auðvitað fáránlega ástæða,“ segir nemandinn.
Þegar skólastarf hófst í vikunni tóku nemendur eftir því að búið var að koma fyrir smokkasjálfsala á karlaklósetti skólans. „Þegar þessi smokkasjálfsali kom þá fylltist mælirinn. Hann var líka bara settur upp inni á karlaklósettið. Slíkur sjálfsali er góðra gjalda verður en þá ætti líka að setja upp smokkasjálfsala á kvennaklósettinu,“ segir áður nefndur nemandi og bætir við: „Það að fara á túr er ekki valkostur en kynlíf er valkostur.“
Fordæmi eru fyrir því að boðið sé upp á ókeypis dömubindi á almenningssalernum en á síðasta ári hófu Sambíóin að bjóða slíka þjónustu. Dömubindin eru aðgengileg á salernum allra kvikmyndahúsa Sambíóanna.
Allir framhaldsskólar landsins fengu smokkasjálfsala að gjöf nú í haust. Um var að ræða samstarfsverkefni Ástráðs (kynfræðslufélags læknanema), Embættis landlæknis, Háskóla Íslands og Kynís (kynfræðingafélags Íslands) en verkefnið hlaut styrk úr Lýðheilsusjóði.
Ekki náðist í skólastjórnendur Menntaskólans í Kópavogi við vinnslu fréttarinnar.