fbpx
Þriðjudagur 20.ágúst 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Diamond Beach rokkar

Tekjublað 2019  Sjá allt

Fréttir

Líf mitt sem blaðamaður

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 9. júní 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég steig inn á ritstjórnarskrifstofu DV fyrir rúmum þremur árum þá gerði ég mér ekki í hugarlund hversu furðulegt starf það er að vera blaðamaður á Íslandi. Það eina sem ég einblíndi á var einhver barnslegur draumur um að vinna við skriftir og mögulega hafa einhver smávægileg áhrif á samfélag mitt, helst til hins betra. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að ana út í.

Eitt vissi ég þó, launin í stéttinni eru ekki upp á marga fiska. Þrátt fyrir það er til fjöldi blaðamanna, leik- og grunnskólakennara og sjúkraliða svo dæmi séu tekin. Líklega tilheyri ég því þeim hópi fólks sem hefur ekkert fjármálavit.

En við skulum frekar ræða það jákvæða. Blaðamennska er að mörgu leyti ótrúlega skemmtilegt starf. Maður þarf stöðugt að fylgjast með umræðunni í samfélaginu en ekki síður að leita uppi gleði- og sorgarsögur af samborgurum og kanna hvort viðkomandi er tilbúinn til að deila því með þjóðinni. Ef viðkomandi hefur reyndar brotið á samborgurum þá ræður hann oft engu um það.

Það yljar manni að innan skrifa um gleðilega viðburði í lífi fólks, hringja í það og taka slík viðtöl. Að einhverju leyti verður maður með því móti þátttakandi í þessum gleðilegu atvikum og það er ómetanlegt. Verst er að gleðifréttirnar eru oft miklu minna lesnar en fréttir af hörmungum.

Fréttirnar af þessum hörmungarviðburðum í lífi fólks geta reynt virkilega á. Á stuttum ferli hef ég tekið viðtöl við fólk á lægstu punktum lífs þess og það er með ólíkindum að sjá hvað einstaklingar geta verið sterkir og hugrakkir á slíkum stundum. Ég hef líka hringt í nokkuð marga öskureiða viðmælendur. Einhverra hluta vegna er það oft þegar við erum að fjalla um einhver sakamál.

Áður en ég byrjaði í blaðamennsku var ég feimin smeðja með lítið sjálfstraust og átti erfitt með að taka því ef einhver talaði illa um mig. Ég er enn feimin smeðja með lítið sjálfstraust en núna er ég ónæmur fyrir því að vera kallaður fáviti eða eitthvað verra. Ég er ekki alveg viss um hvort það sé jákvæð þróun en það er þó ekki útilokað.

Þá hefur aðeins einn stjórnandi opinberrar stofnunar lýst því yfir að hann muni aldrei tala við mig aftur og Inga Sæland hefur ítrekað gefið í skyn að ég sé illmenni. Þær staðreyndir ná ekki í gegnum skrápinn sem sífellt verður þykkari. Þá hafa nokkrir vafasamir einstaklingar í gegnum árin gefið í skyn að ég yrði barinn eða „myndi hafa verra af“ ef frétt yrði birt. Einn ætlaði meira að segja að koma upp á skrifstofu og skjóta mig og alla samstarfsmenn mína. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að ræða eltihrellinn enda er hann búinn að gleyma mér. Held ég.

Fyrsti ritstjórinn minn var Eggert Skúlason og á árdögum mínum í starfi var ég pínu smeykur yfir einni dulbúinni hótun viðmælanda. Eggert horfði á mig með samúðaraugum og sagði síðan, grafalvarlegur, þessi hughreystandi orð: „Ef þú verður barinn Bjössi, þá verður þú frægasti blaðamaður á Íslandi. Þú færð heilan Kastljósþátt undir þig.“ Svo fór fréttin í prentun, enginn barði mig og því veit blessunarlega enginn hver ég er. Ég er ekki enn viss um hvort Eggert var að grínast eða ekki.

Allt sem ég hef greint frá hér fyrir framan er smámál miðað við þann stóra vanda sem steðjar að íslenskri blaðamennsku, tímaleysið. Blaðamenn þurfa að framleiða ógrynnin öll af fréttum á hverjum einasta degi. Hver og einn þarf að hafa augun opin, nánast öllum stundum, og mæta til vinnu með hugmyndir að fréttum. Stundum bjarga lesendur okkur með því að senda inn ábendingar sem við grípum fegins hendi en stundum heyrist ekki múkk í símanum og þá getur nagandi kvíði tekið við. „Um hvað á ég að skrifa?“ Yfirleitt hafa menn lítinn tíma til að hugsa um slíkt, klukkan tifar og alltaf er ósveigjanlegur skilafrestur handan við hornið.

Afleiðingin er sú að íslensk blaðamennska getur oft orðið æði yfirborðskennd og sjaldan gefst tími til þess að kryfja málin til hlítar eins og er samfélagslega mikilvægt. Á þessu eru að sjálfsögðu gleðilegar undantekningar en betur má ef duga skal. Þar held ég að smæð markaðarins nánast krefjist þess að gripið sé til sértækra aðgerða til stuðnings fjölmiðlum. Framlag frá ríkinu myndi gera mikið í þeim efnum og það er lausn sem lengi hefur verið talað um en aldrei tekst á flug.

Að lokum er hér eitt atvinnuleyndarmál. Stundum verða útgáfudagar ofboðslega erfiðir. Fréttir og viðtöl skila sér seint, ekki næst í viðmælendur og það sem lagt var upp með um morguninn verður allt öðruvísi að kvöldi. Í öllu stressi þessa útgáfudags taldi ég til dæmis að allt efni væri komið en rak mig síðan á að ég hafði gleymt að senda út spurningu á viðmælanda varðandi vikulegan dálk sem stundum er hér neðar á þessari síðu og kallast „Með og á móti“. Nú voru góð ráð dýr og þess vegna þurfti ég í mikilli tímaþröng að skrifa mjög langan leiðara sem myndi ná yfir meirihluta síðunnar og kannski með óvenju stórri mynd. Svona er nú blaðamennskan skemmtileg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslensk nýnasistasamtök með grófan áróður á Facebook – Spyrja hvað sé að því að vera nasisti

Íslensk nýnasistasamtök með grófan áróður á Facebook – Spyrja hvað sé að því að vera nasisti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Meig úti á umferðargötu

Meig úti á umferðargötu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Viðar fordæmir orðið „þungunarrof“ – „Þetta er alveg svakalega ógeðfellt og fyrirlitlegt innlegg“

Jón Viðar fordæmir orðið „þungunarrof“ – „Þetta er alveg svakalega ógeðfellt og fyrirlitlegt innlegg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Margrét reiddist heiftarlega við prestana – „Ég varð svo reið að ég þurfti að halda mér á köflum“

Margrét reiddist heiftarlega við prestana – „Ég varð svo reið að ég þurfti að halda mér á köflum“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

ASÍ kannaði verð á námsbókum fyrir framhaldsskóla – Hér eru þær ódýrastar

ASÍ kannaði verð á námsbókum fyrir framhaldsskóla – Hér eru þær ódýrastar
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ástþór Magnússon ósáttur við aðgerðarleysi lögreglu – „Merkilegt að lögreglan stuðli að svona glæpastarfsemi“

Ástþór Magnússon ósáttur við aðgerðarleysi lögreglu – „Merkilegt að lögreglan stuðli að svona glæpastarfsemi“