fbpx
Sunnudagur 05.desember 2021
Fréttir

Segir íslenska handritshöfunda ekki fá verðskuldaða athygli: „Án handrits er ekkert. Það er grunnurinn að öllu“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 24. apríl 2018 09:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maður getur kannski ekki verið að pirra sig yfir því að venjulegt fólk skilji þetta ekki alveg en sem handritahöfundur þá geri ég kröfu um það að opinberar stofnanir taki þetta alvarlega,“ segir Jón Gnarr rithöfundur, leikari og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur en hann telur að vinnuframlagi íslenskra handritshöfunda sé ekki gert nógu hátt undir höfði hér á landi. Leikstjórar sjónvarpsþátta og kvikmynda fái yfirleitt allan heiðurinn af verkinu. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu sem stendur yfir mánuðum og jafnvel árum saman fá handritshöfundar varla nafns síns getið. Jón segir handrithöfunda ekki standa jafnfætis skáldsagnarithöfundum á Íslandi og jafnvel sé litið á þá sem einhvers konar „annars flokks“ höfunda.

Jón hefur verið meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands síðan árið 1996. Hann hefur sem kunnugt er komið að skrifum á grínþáttum á borð við Tvíhöfða og Fóstbræður að ógleymdum Vaktaseríunum og kvikmyndinni Bjarnfreðarson sem fylgdi í kjölfarið. Þá gaf hann út skáldsöguna Miðnætursólborgin árið 1989 og Plebbabókina árið 2002. Skálduð ævisaga Jóns, Indjáninn, kom síðan út árið 2006 og árið 2012 kom síðan út sjálfstætt  framhald hennar, Sjóræninginn. Þriðja bókin í seríunni, Útlaginn kom út árið 2015.

Næturvaktin er ein af þeim fjölmörgu sjónvarpsþáttaröðum þar sem Jón hefur komið að handritsskrifum.

Jón tjáir sig um stöðu íslenskra handritshöfunda í færslu á facebook síðu sinni og bendir á að handritagerð sé  ört vaxandi iðnaður í heiminum í dag enda mikil eftirspurn eftir vönduðu sjónvarpsefni. Hann segir handritshöfunda á Íslandi engu að síður ekki mæta sama viðhorfi og rithöfundar sem skrifa bækur.

„Það hefur verið tilhneiging til þess á Íslandi að líta niður á handritshöfunda, sem einhvers konar annars flokks höfunda, eins og þeir séu ekki alveg alvöru höfundar.

Ég minnist þess alltaf, fyrir mörgum árum, þegar einn forsvarsmaður Rithöfundasambandsins, stærði sig af því, við mig, að vera ekki með Stöð 2 og hefði því aldrei séð Fóstbræður, sem ég var að gera á þeim tíma. Honum fannst, og alls ekki einn um það, að þetta gerði hann kúltíveraðri, bókmenntafólki stendur oft stuggur af sjónvarpinu. Ég hef oft þurft að sitja undir yfirlætislegu háði og fordómum bókmenntafólks um eðli og gildi sjónvarps. Gjarnan gengur þá á með miklum alhæfingum og fordómum. Aldrei hefur þetta fólk neitt vit á sjónvarpi, hefur td. ekki séð Wire. Það er gaman að segja frá því að þetta er samt mikið af því fólki sem nú heldur ekki vatni yfir sjónvarpsþáttunum The Crown. Þetta er allt að koma.“

Eiga skilið virðingu og viðurkenningu

Jón rifjar upp þegar góður vinur hans sat mánuðum saman við handritsskrif á sjónvarpsþáttum. Á síðu KMÍ fékk leikstjóri þáttana allan heiðurinn fyrir þá vinnu og var hans nafn skrifað fyrir þáttunum. Jón skrifaði KMÍ harðort bréf vegna málsins og bendir á að leikstjórinn hafði verið ráðinn til að leikstýra verkinu, sem sé hið besta mál, en hann sé engu að síður ekki sá sem skrifaði handritið. Því sé ekki rétt að segja að þættirnir séu „eftir“ hann.

Þá bendir Jón á að íslenskum sjónvarpsstöðvum sé leikstjórum yfirleitt eignaður heiðurinn af verkunum en hvergi er minnst á þá sem sáðu fræjunum í byrjun og skrifuðu handritið.

„Það er bara eins og Enginn hafi gert það verk. Og hér er ég alls ekki að gera lítið úr verki leikstjóra en handritshöfundar eiga skilið þá virðingu og viðurkenningu sem þeim ber lögum samkvæmt og allrar sanngirni vegna.“

Jafnframt bendir Jón á að þegar höfundar fá ekki nafns síns getið þá er um að ræða brot á höfundarréttarlögum.

„Nýlega völdu starfsmenn og álitsgjafar RÚV 10 bestu íslensku barnalögin. Það var lag eftir mig sem lenti þar í fyrsta sæti en mín er samt hvergi getið, enda samdi ég bara textann við lagið.

Það er á engan hátt merkilegra, göfugara eða erfiðara að skrifa bók eða handrit að sjónvarpsþáttum. Mörg handrit eru jafnvel töluvert mikið betur skrifuð heldur en sumar bækur. Það er heldur ekkert merkilegra við það að skrifa ljóð eða texta fyrir barnalag. Hvoru tveggja verður til með nákvæmlega sama hætti.

Ég vona að handritagerð fyrir sjónvarp nái að vaxa og dafna á Íslandi á næstu árum og áratugum og ungt fólk sjái tilgang í því að leggja það fyrir sig að skapa lifandi heimildir um raunveruleika okkar, sögu, menningu og tungu fyrir sjónvarp og kvikmyndir með því að skrifa dásamleg og vönduð handrit. Og forsenda þess er að við viðurkennum vinnu þeirra og sköpun og þeirra sé jafnvel getið þegar við mærum útkomuna. Því án handrits er ekkert. Það er grunnurinn að öllu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ung síbrotakona fór illa með Netgíró og Hagkaup

Ung síbrotakona fór illa með Netgíró og Hagkaup
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúi í Hafnarfirði fékk áróður frá nýnasistum inn um lúguna sína – „Hvað er þetta eiginlega?“

Íbúi í Hafnarfirði fékk áróður frá nýnasistum inn um lúguna sína – „Hvað er þetta eiginlega?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árásarmaður í Spönginni er barn – Bæði hann og afgreiðslustúlkan flutt á slysadeild – Maður sem yfirbugaði árásarmann ræðir við DV

Árásarmaður í Spönginni er barn – Bæði hann og afgreiðslustúlkan flutt á slysadeild – Maður sem yfirbugaði árásarmann ræðir við DV
Fréttir
Fyrir 2 dögum

136 greindist smitað í gær

136 greindist smitað í gær