fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
FréttirLeiðari

Hallgrímur hafði rétt fyrir sér: Landsbyggðin er ómöguleg

Svarthöfði hvetur hann til að draga afsökunarbeiðnina til baka

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 2. mars 2018 13:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði var loksins sammála Hallgrími Helgasyni rithöfundi þegar hann sagði landsbyggðina vera hamfarasvæði á Twitter í vikunni. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum dró Hallgrímur svo í land þegar hann varð fyrir árásum hörundsárra íbúa landsbyggðarinnar.

Tilefni umræðunnar var frétt þess efnis að 21 flóttamaður frá Írak myndi setjast að á Súðavík, Ísafirði og Reyðarfirði. Gísli Marteinn Baldursson velti þessu fyrir sér á Twitter og blandaði senuþjófurinn Hallgrímur sér í umræðuna með þvílíkum látum.

„Við fáum fólk frá hamfarasvæðum, hvert sendum við það? Jú, á okkar eigin hamfarasvæði, þar sem enginn Íslendingur vill lengur búa.“

„Vertu maður, Hallgrímur, og dragðu afsökunarbeiðnina til baka.“

Hárrétt hjá Hallgrími sem hefði mátt ganga miklu lengra í gagnrýni sinni á landsbyggðina í stað þess að draga í land þegar hinu hörundsáru sveitadurgar létu hann heyra það. Við bendum á nokkra hluti um landsbyggðina og hversu ómöguleg hún er í samanburði við okkar stórkostlegu höfuðborg.

Á landsbyggðinni þarftu að gera þér að góðu að vera í mesta lagi fimm mínútur í vinnuna. Á tímum núvitundar, íhugunar og hugleiðslu og hvað það allt saman heitir er mikilvægt að hafa smá tíma með sjálfum sér – jafnvel eins og hálftíma til klukkutíma hvern morgun. Í leiðinni er hægt að virða fyrir sér öll þau dásamlegu umferðarmannvirki sem finna má í Reykjavík og nágrenni; Kringlumýrarbrautina, Reykjanesbrautina að ógleymdri Miklubrautinni. Nú, svo er hægt að hjóla í vinnuna eða taka strætó – sem allt of fáir taka reyndar af einhverjum ástæðum.

Á landsbyggðinni er víða hægt að fá 200–300 fermetra einbýlishús fyrir fimmtung þess verðs sem gengur og gerist í hinni hóflegu höfuðborg. Blokkaríbúðir kosta nokkrar milljónir og leiguverð er djók.

Svarthöfði er þeirrar skoðunar að þeir sem hafa snefil af stolti og sjálfsvirðingu og hafa einhvern tímann stigið fæti inn í skuggahverfið geti væntanlega ekki hugsað sér að taka slíkan díl. Hver væri til í að sitja í 300 fermetra, 20 milljóna króna einbýlishúsinu sínu, við arineld, meðan hann gæðir sér á kakói og pönnukökum með útsýni yfir fjörðinn? Ekki sá sem hefur kynnst Vesturbænum, svo mikið er víst.

Á landsbyggðinni, öfugt við það sem gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu, fer ekki mikið fyrir lífsgæðakapphlaupinu eða stressinu. Svifryksmengun, innbrot í heimahús, ofbeldi um helgar og skeytingarleysi gagnvart náunganum eru hugtök sem varla þekkjast í fámennum byggðarkjörnum á landsbyggðinni. Hvaða tepruskapur er það? Það vantar alla spennu!

Haldið þið í alvöru að flóttamenn, frá stríðshrjáðum löndum, vilji búa á slíkum hamfarasvæðum? Nei – og þar hefur Hallgrímur svo sannarlega á réttu að standa. Vertu maður, Hallgrímur, og dragðu afsökunarbeiðnina til baka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt