fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Danmörk – Stóra bakarísmálið vindur upp á sig – Er eigandinn með óhreint mjöl í pokahorninu?

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 26. janúar 2018 07:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um fátt hefur meira ritað eða rætt undanfarna daga í Danmörku en bakarísmálið í Tingbjerg í Kaupmannahöfn en hverfið er á lista stjórnvalda yfir svokölluð gettó í Danmörku. Gettóstimpillinn er byggður á nokkrum forsendum sem stjórnvöld hafa ákveðið að liggi til grundvallar honum. Þar á meðal er hlutfall atvinnulausra, hlutfall innflytjenda í hverfinu, glæpatíðni og tekjum íbúa. Stóra bakarísmálið komst í kastljós umræðunnar á laugardaginn þegar fjölmiðlar skýrðu frá því að fimm grímuklæddir menn, vopnaðir kylfum og járnrörum, hefðu ráðist inn í bakarí í Tingbjerg og lagt allt í rúst. Þetta gerðist að degi til þegar margir viðskiptavinir voru í bakaríinu sem er einnig einhverskonar kaffihús.

Eigandi bakarísins er Ali Parnian 19 ára innflytjandi frá Íran. Hann hefur búið í Danmörku í tvö ár. Parnian kom fram í fréttum stóru sjónvarpsstöðvanna og sagði að skemmdarverkið mætti rekja til þess að hann hefði neitað að greiða svokallað „verndargjald“. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk voru unnin á bakaríinu því nokkrum dögum áður höfðu allar rúðurnar verið brotnar að næturlagi og flugeldum hafði verið kasta inn í það.

Parnian sagði að fyrir um mánuði hafi fjórir menn, vopnaðir stórum hnífum, komið heim til hans og krafið hann um 100.000 danskar krónur, sem svarar til um 1,6 milljóna íslenskra króna, í „verndargjald“. Parnian sagðist hafa spurt mennina fyrir hvað þetta „verndargjald“ væri og hafi þá fengið að vita að hann væri þá að greiða fyrir að bakaríið yrði ekki lagt í rúst. Hann hafnaði þessu algjörlega að eigin sögn. Skömmu síðar voru rúður í bakaríinu brotnar í fyrsta sinn.

Stóru sjónvarpsstöðvarnar og netmiðlar birtu upptökur úr eftirlitsmyndavélum bakarísins þar sem grímuklæddir menn sjást ráðast inn í bakaríið og valda skemmdum á því. Á vef Danska ríkisútvarpsins er hægt að sjá upptökuna.

Óhætt er að segja að danska þjóðin hafi fyllst óhugnaði yfir framferði hinna meintu fjárkúgara og samúðin var öll með Parnian sem birtist í viðtölum og sagðist nú hafa gefist upp á að reka bakarí í Tingbjerg. Dómsmálaráðherran, Søren Pape Poulsen, lýsti yfir stuðningi við Parnian og hrósaði honum fyrir að standa uppi í hárinu á ofbeldismönnum og fjárkúgurum. Það sama gerðu fleiri stjórnmálamenn, þar á meðal Inger Støjberg, ráðherra málefna innflytjenda, en hún heimsótti Parnian til að sýna honum stuðning. Sú heimsókn vakti kannski einna mesta athygli enda er Støjberg þekkt fyrir flest annað en að vera sérstaklega hrifin af veru útlendinga, frá ríkjum utan Vesturlanda, í Danmörku.

Lögreglan hóf strax rannsókn á skemmdarverkunum og hinum meintu fjárkúgunum og fjölmiðlar fylgdust vel með málinu og gera enn. Á sunnudaginn lét Mette Abildgaard, þingflokksformaður De Konservative, málið til sín taka og hratt af stað fjársöfnun til að sýna Parnian stuðning. Markmiðið var að safna smáræði til að kaupa blóm og konfekt til að senda Parnian og sýna honum þannig táknrænan stuðning. En Danir tóku söfnuninni vel og á nokkrum dögum létu rúmlega 15.000 manns fé af hendi rakna. Í gær höfðu safnast tæplega 500.000 danskar krónar, sem svarar til um 8 milljóna íslenskra króna, en þá var söfnuninni hætt. Þessi upphæð myndi að sögn duga Parnian til að koma rekstrinum aftur af stað.

Þessa gjafmildi Dana má væntanlega rekja til þess að þeim ofbauð algjörlega að Parnian hafi verið krafinn um „verndargjald“ og áttu ekki erfitt með að trúa að svo væri enda hafa skipulögð glæpasamtök haft sig töluvert í frammi í gettóum landsins og fréttir hafa einmitt borist af því að þau krefji fyrirtæki um „verndargjald“.

Er Parnian með óhreint mjöl í pokahorninu?

En í gær tók málið nýja stefnu og óhætt er að segja að samúðin sem Parnian hafði fengið hjá dönsku þjóðinni hafi gufað hratt upp, hraðar en vatn. Danska ríkisútvarpið (DR) flutti þá fréttir af því að ástæða skemmdarverkanna væri líklega allt önnur en hin meinta krafa um „verndargjald“. DR sagðist hafa heimildir fyrir að Parnian og faðir hans, Mohsen Parnian, hafi átt í deilum við aðra og hafi þessar deilur ekki snúist um „verndargjald“.

Talsmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn sagði í samtali við DR í gær að lögreglan væri að vinna að rannsókninni af miklum þunga en ýmislegt bendi til að sú mynd sem var dregin upp af málinu í upphafi væri rammskökk og lögreglan héldi öllum möguleikum opnum. Hann vildi ekki skýra þetta nánar.

Mohsen Parnian vísaði því á bug að aðrar deilur kæmu við sögu í þessu máli og sagði við DR að málið snerist einfaldlega um að sonur hans hafi ekki viljað greiða „verndargjald“ og því hafi skemmdarverk verið unnin á bakarí hans.

Aðrir verslunareigendur í Tingbjerg hafa frá upphafi furðað sig á málinu og spyrja af hverju bakarí Parnian er eina fyrirtækið sem hefur verið krafið um „verndargjald“? Þessir fyrirtækjaeigendur segjast aldrei hafa verið krafðir um slíkt.

Jótlandspósturinn skýrði síðan frá því í gær að Parnian hafi síðasta haust verið ákærður fyrir íkveikju og bílþjófnað. Hann og vinur hans voru ákærðir fyrir að hafa stolið BMW bifreið og að hafa kveikt í henni. Í byrjun október var dæmt í málinu í undirrétti og var vinur Parnian sakfelldur og dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi, 120 klukkustunda samfélagsþjónustu og fékk skilorðsbundna brottvísun úr landi. Parnian var hins vegar sýknaður.

Saksóknari var ekki sáttur við dóminn og áfrýjaði honum til Eystri-Landsréttar sem tekur málið fyrir í dag. Saksóknari krefst þess að Parnian verði sakfelldur og dæmdur til refsingar og að honum verði vísað úr landi.

Parnian heldur fram sakleysi sínu og stendur fast á því að skemmdarverkin á bakaríinu megi rekja til þess að hann neitaði að greiða „verndargjald.“

Eins og áður sagði var fjársöfnuninni hætt í gær og nú íhugar Abildgaard leiðir til að koma peningunum aftur til gefendanna þar sem málið virðist hafa tekið allt aðra stefnu en í fyrstu. Hún segist þó ætla að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar. Málið virðist því hafa snúist algjörlega við í höndunum á Parnian og sú samúð sem hann fékk í upphafi er algjörlega horfin enda sýnist flestum að hann hafi ekki sagt rétt frá í upphafi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“