fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022
Fréttir

Hvernig væri að slíta stjórnarsamstarfinu Óttarr?

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra skrifar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. maí 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur stigið yfir línu sem forverar hans hafa ekki áður gert, nefnilega að réttlæta frammi fyrir alþjóð að eðlilegt sé að fjárfestar geri heilbrigðiskerfið sér að féþúfu.
Forverar Bjarna hafa vissulega sumir daðrað við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en hér hefur hins vegar tvímælalaust verið brotið blað í stjórnmálasögunni.

Hausverkur Bjarna

Í fjölmiðlum, og einnig úr ræðustól Alþingis, hefur Bjarni Benediktsson lagt heilbrigðisþjónustuna að jöfnu við hverja aðra atvinnustarfsemi.

Á Alþingi þriðjudaginn 2. maí réttlætti forsætisráðherrann arðgreiðslur úr heilbrigðiskerfinu með samanburði við aðra atvinnustarfsemi: „… þetta á ekki bara við á þessu sviði heldur á svo mörgum öðrum sviðum þar sem ríkið hefur ákveðið að standa undir fjármögnun viðkomandi opinberrar þjónustu að það geta skapast skilyrði til þess að það verði einhver afgangur í rekstrinum. Og það kann að vera hausverkur fyrir suma að á einhverjum tilteknum sviðum einkarekstursins þegar um er að ræða heilbrigðisþjónustu að þessi skilyrði skapist og lausnin sem þeir hafa yfirleitt á þessum vanda er sá að koma í veg fyrir að einkaaðilar starfi á þeim vettvangi …“

Fram til þessa hafa margir talið vel unandi við þá blöndu af einkarekstri og opinberum rekstri innan heilbrigðiskerfisins sem verið hefur við lýði hér á landi. Almannaþjónustan hefur verið kjölfestan í kerfinu en einyrkjum jafnhliða gert kleift að stunda starfsemi fjármagnaða úr ríkissjóði.

Niðurlæging Stjórnarráðs Íslands

Síðan hefur þessi einyrkjastarfsemi sums staðar þróast yfir í samrekstur einkaaðila á símaþjónustu og húsnæði og ekkert nema gott um það að segja. Í seinni tíð hefur hins vegar tvennt gerst. Samið hefur verið við einkapraxísinn á ríflegri nótum en almannareksturinn og síðan hafa fjárfestar komið til sögunnar, litið á ríkisreknar lækningar sem arðvænlegan fjárfestingarkost til þess að hagnast á.

Og ríkið hefur dansað með. Eða hvers vegna skyldu eigendur Klíníkurinnar geta selt hluti sína fyrir tugi og hundruð milljóna nema fyrir þær sakir að þarna sé um að ræða verðandi ríkisrekna gullgerðarvél? Og tryggingin fyrir slíku? Bjarni Benediktsson og félagar í Stjórnarráði Íslands!

Getur niðurlægingin orðið meiri fyrir íslensk stjórnmál þegar hagsmunagæsla fyrir einkabrask er rekin eins opinskátt og við erum nú að verða vitni að? Varla.

Afgangurinn hans Bjarna

Í framangreindri tilvitnun vísar forsætisráðherrann til þess að myndist „einhver afgangur í rekstrinum“, hví þá ekki greiða hann ofan í vasa fjárfesta sem arð? Það sé „gamaldags“ að vera á móti því, klykkir hann út með. Hvers konar rugl er þetta eiginlega?! Það er einmitt þetta sem menn vilja forðast, að innleiða arðsemissjónarmið inn í viðkvæma velferðarþjónustu. Þess vegna sneru Bretar til baka einkavæðingu á eftirliti með öryggi lestarkerfisins í Bretlandi og þess vegna fóru menn að rýna ofan í skúringarföturnar í skólunum þar sem einkavæddir rekstraraðilar höfðu „skapað skilyrði“ fyrir rekstrarafgangi með ónýtum þvottalegi og nákvæmlega þess vegna horfa menn til þess að einkavædd heilbrigðisþjónusta hefur ekki í hyggju að axla aðrar byrðar en þær sem borgar sig að bera.

Ef eitthvað fer úrskeiðis þá á ríkið að taka við. Þannig koma einkaaðilar til með að stýra forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu: Einkaaðilar framkvæma „viðgerðir“ og fari þær úrskeiðis er slíkum sjúklingum skotið með hraði inn í almannareksturinn. Verður þá ekki spurt um forgang og biðraðir.

Ábyrgð heilbrigðisráðherra eða ábyrgðarleysi

Kemur nú að hlut Óttars Proppé heilbrigðisráðherra. Ætlar hann virkilega að láta fjármálabraskara og handlangara þeirra á Alþingi nota sig til óþurftarverka á kostnað almennings, en nákvæmlega það gerir hann með aðgerðarleysi sínu? Slíkt væri fullkomið ábyrgðarleysi.

Við bíðum þess nú að heilbrigðisráðherra lýsi því afdráttarlaust yfir að engin einkavæðing á forsendum arðsemissjónarmiða verði heimiluð, Klíníkinni sagt að hún fái ekki krónu úr vasa skattgreiðenda á þeim forsendum sem hún krefst.

Ef lagabreytinga þykir vera þörf til þess að verja kerfið ásókn, þá verði ráðist í þær þegar í stað og ef varðstöðumenn fjármagnsins, samstarfsmenn Óttars á þingi, skirrast við, þá verði stjórnarsamstarfinu slitið þegar í stað. Almannahagur er í húfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur karlmaður úr lífshættu eftir líkamsárás í Álaborg

Íslenskur karlmaður úr lífshættu eftir líkamsárás í Álaborg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Landhelgisgæslan hjálpar til við brúarsmíði með óvenjulegum hætti – Brúarbitar, göngubrú og vatnstankar flutt með þyrlunni

Landhelgisgæslan hjálpar til við brúarsmíði með óvenjulegum hætti – Brúarbitar, göngubrú og vatnstankar flutt með þyrlunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“