fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Spunavél hinna eirðarlausu nær ófáanleg

Fidget Spinner-æði gengur nú yfir – Verslanir hafa ekki undan – Skólar grípa til aðgerða og banna leikföngin í tímum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 26. maí 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómar hillur og tómir kassar merktir með skilti sem á stendur „vara uppseld“ mæta örvæntingarfullum foreldrum sem ráfa leitandi um leikfangaganga verslana. Á samfélagsmiðlum berast neyðarköll unnvörpum þar sem þessir sömu buguðu foreldrar bera saman bækur sínar og samræma fýluferðir í leit að litlu leikfangi sem öll börn verða víst að eiga í dag. Í þessum sömu verslunum hlaupa starfsmenn með síma við eyra að hillunum til þess eins að færa viðmælendum þær sorgarfregnir að allt sé þar búið, þrátt fyrir orðróm í netheimum um að ný sending væri komin. Óþreyjufull börnin færast með hverri klukkustundinni nær brún fullkominnar örvinglunar meðan foreldrar reyna að finna spunavél hinna eirðarlausu.

Fidget Spinner, eða snerlar, heitir græjan og er nýjasta æðið á Íslandi. Verslanir hafa ekki við að endurnýja birgðir sínar áður en upplagið er horfið í innkaupakerrur hinna heppnu. Eins og svo oft áður í gegnum tíðina, þegar nýtt æði grípur um sig, hafa margir skólar þurft að grípa til þess ráðs að banna þessar litlu græjur sem hringsnúast í lófum ungmenna um allar trissur. DV kynnti sér þetta sérkennilega leikfang.

Snúningur á streituna

Fidget Spinner-leikföng hafa verið til frá því á tíunda áratugnum og eru auglýst sem streitulosandi verkfæri fyrir hina eirðarlausu. Rætur vinsælda þessa tækis um víða veröld nú, árið 2017, má rekja til nokkurra tímapunkta. Fyrir það fyrsta þá birtist fyrir síðustu jól grein eftir James Plafke í Forbes þar sem spunavélunum var lýst sem „skrifstofuleikfanginu sem allir yrðu að eiga árið 2017.“

Á YouTube og spjallborðum Reddit fóru síðan í mars síðastliðnum að birtast myndbönd frá notendum þar sem þeir léku listir sínar með græjurnar. Samkvæmt tölfræði Google fyrir apríl rauk leitarorðið „fidget spinner“ upp alla lista þann mánuð og í byrjun maí voru Fidget Spinner-leikföng orðin eitt mest selda leikfang vefverslunarinnar Amazon. Þessi leikföng hafa verið nær ófáanleg undanfarnar vikur og æðið lét Íslendinga ekki ósnortið. Hér á landi standa ungmenni í hópum með farsíma í annarri hendi og Fidget Spinner-leikföng í hinni. Eftirspurnin er mikil og enginn virðist vilja vera útundan. Eins og jójó-in, körfuboltamyndirnar, Pog‘s-leikurinn og Pokémon er Fidget Spinner-leikfangið æði sem heltekið hefur íslensk ungmenni.

Skakkt skiltið og bjagaður kassinn ber þess vitni að barist hafi verið um innihaldið.  Algeng sjón í verslunum á Íslandi í dag. Fólk í leit að Fidget Spinner grípur í tómt.
Algeng sjón í verslunum Skakkt skiltið og bjagaður kassinn ber þess vitni að barist hafi verið um innihaldið. Algeng sjón í verslunum á Íslandi í dag. Fólk í leit að Fidget Spinner grípur í tómt.

Mynd: SMJ

Selt af ADHD-samtökunum

Leikfangið sem slíkt er sáraeinfalt, oftast nær ódýrt og eins konar eilífðarvél í tilgangsleysi sínu. Í miðjunni er hjólalega sem mismargir og margvíslegir angar leikfangsins snúast síðan í kringum. Miðjusvæðinu með legunni er haldið milli tveggja fingra og því síðan snúið. Leikfangið snýst síðan um öxul sinn á ógnarhraða og fast að því dáleiðir notendur.

Leikfangið var markaðssett sem tæki til að hjálpa fólki sem átti í erfiðleikum með að einbeita sér eða glímdi við handaóeirð. Hefur því verið haldið fram að þetta gagnist fólki sem glímir við ofvirkni með athyglisbrest (ADHD), kvíða og jafnvel einhverfu. Skiptar skoðanir eru þó meðal sérfræðinga um ágæti þessa verkfæris í þeim fræðum enda margir sem telja að þetta sé hreinlega enn einn athyglisþjófurinn í höndum fólks.

Engu að síður þá virðast ADHD-samtökin á Íslandi hafa tekið Fidget Spinner opnum örmum. Samtökin eru meira að segja að selja leikföngin í fjáröflunarskyni og eru átján mismunandi tegundir til sölu á vef þeirra. En þar eins og annars staðar eru þau að sjálfsögðu uppseld – en væntanleg.

Eins og með jójó-in á sínum tíma þá eru spinner-aðdáendur að framkvæma hinar ýmsu kúnstir með snerlunum sem þeir læra á netinu. Vinsælt er að láta þá snúast á nefbroddinum.
Læra brellur á netinu Eins og með jójó-in á sínum tíma þá eru spinner-aðdáendur að framkvæma hinar ýmsu kúnstir með snerlunum sem þeir læra á netinu. Vinsælt er að láta þá snúast á nefbroddinum.

Mynd: EPA

Þúsundir stykkja seljast samdægurs

Þessar nær fordæmalausu vinsældir snerlanna litlu komu kaupmönnum líka í opna skjöldu. Það var ekki fyrr en þeir fóru að selja upp undir þúsund eintök á augabragði sem þeir áttuðu sig á hvað þeir voru með í höndunum.

„Þetta kom skemmtilega á óvart. Ég fór sjálfur á YouTube til að sjá hvað væri í gangi,“ segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, sem sjálfur kveðst vera með eitt stykki Fidget Spinner á skrifborðinu sínu, sem gott sé að grípa í öðru hverju.

Hann segir að Hagkaup hafi fengið þúsundir stykkja inn í þar síðustu viku en leikföngin stöldruðu stutt við í hillunum. Þau hreinlega flugu út.

„Sú sending seldist upp samdægurs. Síðan fengum við sendingu fyrir síðustu helgi og náðum að senda út en hún kláraðist líka. “

DV ræddi við Gunnar Inga á mánudag og þá var von á annarri stórri sendingu, sem hann bjóst við að færi í sölu í vikulok.

Líkt og erlendis hafa íslenskir skólar þurft að bregðast við þessum vinsældum enda dæmi um að heilu bekkirnir séu undirlagðir af snúandi fiktsnerlum með tilheyrandi raski á kennslu. Hefur DV upplýsingar um að margir skólar hafi neyðst til að banna eða takmarka verulega notkun á þessum leikföngum á skólatíma.

Hvers kyns æði á það sameiginlegt með öðru að líftími þess er mislangur. Af eftirspurninni og vinsældum snerlanna litlu virðist sumarleikfangið á Íslandi í ár vera fundið. Hvort örvæntingarfullum foreldrum tekst að uppfylla óskir barna sinna á næstunni, kemur væntanlega ekki í ljós fyrr en rykið sest í kringum rekkana í leikfangaverslunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work
Fréttir
Í gær

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Í gær

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“