fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hanna Kristín stígur fram og opnar sig um kvöldið örlagaríka í Texas: „Fyrir drengina mína ætla ég að vera móðirin sem lætur svona ekki viðgangast“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 22. maí 2017 22:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„En þetta gerðist. Áverkar víðs vegar um líkamann. Það er vont að standa upp. Ég mjaka mér fram á bað og horfi í spegilinn. Ég þarf að hringja í mömmu og segja henni hvað gerðist. Ég skammaðist mín meira en orð fá lýst. Ég grét svo sárt að það tók mig langan tíma að jafna mig til að geta talað skýrt í símann. Það var búið að vara mig við en blind af ást þá lokaði ég augum og eyrum. Þetta er örugglega símtalið sem fæstir vilja fá. Heyra af barninu þeirra í öðru landi að bíða eftir læknisaðstoð eftir barsmíðar fyrr um nóttina. Ég náði smá hvíld en var samt svo dofin að þegar læknirinn kom þurfti hún ítrekað að endurtaka orð sín. Ég trúði þessu ekki. Hvar er ég? Hvað gerðist? Ekki ég! Ekki ég!“

Þetta segir Hanna Kristín Skaftadóttir í pistli á Facebook sem vakið hefur mikla athygli. Þar birtir hún einnig myndir sem hún segir vera af áverkum eftir heimilisofbeldi. Hún er konan sem kærði Magnús Jónsson fyrrverandi forstjóra Atorku fyrir að beita hana ofbeldi á Four Seasons hótelinu í Austin í Texas í mars síðastliðnum. Hanna Kristín hefur áður kært Magnús fyrir ofbeldisbrot en þá sakaði hún hann um að brjóta tölvu sína með kjöthamri. Hún segir í lögregluskýrslu að öll hennar vinnugögn hafi verið á tölvunni og ekkert hafi endurheimst af því sem var á harðadisknum. Einnig segir Hanna Kristín að Magnús hafi brotið síma hennar þá um kvöldið.

„Persónulega tel ég að eina leiðin til bata í svona málum, fyrir þann sem beitir ofbeldi, sé að gangast við misgjörðum sínum og reyna að bæta fyrir þær. Ekki reyna að koma sér frá ábyrgð með því að benda á þolandann sem er í örvinglan eftir áföllin og að glíma við eigið sjálf til að tóra gegnum svartnættið.

DV greindi frá því þann 14. mars að Magnús hefði verið handtekinn á Four Seasons-hótelinu af lögreglunni í Austin Texas, grunaður um að beita Hönnu Kristínu ofbeldi. Málið í Texas verður tekið fyrir í júlí. Samkvæmt heimildum DV er enn ekki komin niðurstaða dómara í Texas en reynt er að vinna að sátt í málinu nema Hanna Kristín ákveði að fara í einkamál gegn Magnúsi. Magnús fór í áfengismeðferð á Vogi í apríl sem hann sjálfviljugur lauk ekki við og skráði sig út eftir einungis 3 daga og er meðferð þar því ólokið. Hanna Kristín vildi ekki tjá sig um stöðu málsins í samtali við DV en gaf leyfi fyrir birtingu pistilsins á Facebook. Hún bætti við að það sem vakti fyrir henni væri að vekja athygli á alvarleika heimilisofbeldis og mörgu væri ábótavant þegar kæmi að þeim málaflokki er lýtur að úrbótum fyrir þolendur heimilisofbeldis.

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á reynslu kvenna á Íslandi af ofbeldi í þeirra garð. Það tóku 3.000 konur þátt í rannsókninni á aldrinum 18 til 80 ára. Rúmlega 22% kvennanna höfðu verið beittar líkamlegu, kynferðislegu, andlegu eða fjárhagslegu ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann á lífsleiðinni frá 16 ára aldri. Þetta gefur til kynna að 23 til 27 þúsund íslenskar konur hafi verið beittar ofbeldi af hendi maka á einhverjum tímapunkti um ævina. Ljóst er að vandamálið er útbreitt og Hanna Kristín telur nauðsynlegt að breytingar eigi sér stað en heimilisofbeldi hefur ekki aðeins gríðarleg áhrif á þolendur sem í langflestum tilvikum eru konur, heldur geta börn sem verða vitni að heimilisofbeldi orðið fyrir miklu sálrænu áfalli.

Samtök um kvennaathvarf skilgreina heimilisofbeldi á þennan veg:

„Heimilisofbeldi er þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar”. Skilgreiningin á ofbeldi gegn konum er samkvæmt Sameinuðu þjóðunum:

„Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi”

Að minnsta kosti ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur einhvern tíma verið lamin, neydd til kynlífs eða misþyrmt á einhvern annan hátt yfirleitt af einhverjum sem hún þekkir, eiginmanni eða af öðrum fjölskyldumeðlimum.

Forsaga málsins

Mynd tekin af lögreglunni í Texas eftir að Magnús var handtekinn
Magnús Jónsson Mynd tekin af lögreglunni í Texas eftir að Magnús var handtekinn

Hanna Kristín hafði farið til Bandaríkjanna til að flytja erindi um fyrirtæki sitt Mimi Creations á menntaráðstefnunni, SWSXedu. Hanna Kristín er vinsæll fyrirlesari og hefur ferðast um allan heim til að flytja fyrirlestra en hún er nýlega komin heim frá Indlandi þar sem hún hélt erindi í þremur borgum. Þá vakti athygli þegar Hanna Kristín opnaði sig á einlægan hátt um að sonur hennar ætti við erfiða málhömlun að etja. Lagði hún allt annað til hliðar til að styðja við drenginn og fór að vinna að útgáfu barnabóka til að hjálpa börnum með málhamlanir. Í dag er sonur hennar kominn vel til tals og er fyrirmyndarnemandi að ljúka fyrsta bekk án þess að finna megi á honum að hann hafi átt við málhömlun að etja.

Magnús ákvað á síðustu stundu að fara með Hönnu Kristínu til Austin, þrátt fyrir að þeim hafi sinnast í Boston þar sem þau voru í helgarfríi. Hanna Kristín hafði samband við 911 í Boston til að leita aðstoðar af ótta við Magnús. Þegar komið var til Austin var Magnús, að sögn Hönnu Kristínar, enn reiður yfir símtali Hönnu Kristínar til 911 í Boston og hófst upp úr því orðaskak þeirra á milli. Hanna Kristín segir Magnús hafa tekið síma hennar og brotið hann inni á baðherbergi hótelsins. Magnús var svo handtekinn um miðja nótt, klukkan 02:15 að staðartíma. Í lögregluskýrslu segir að maðurinn hafi verið handtekinn grunaður um að hafa:

„ … viljandi, vitandi eða af gáleysi valdið annarri manneskju eða maka líkamsstjóni.“ Var hann færður á lögreglustöð en sleppt klukkan 16:47 næsta dag og gert að greiða 667 þúsund krónur í tryggingafé. Honum var ekki gert að sæta farbanni.

Allir miðlar fjölluðu ítarlega um málið næstu daga og sagði Morgunblaðið að heimildir hermdu að Magnús hefði verið kærður fyrir fjölmörg heimilisofbeldisbrot en aldrei fengið dóm. Svipaða frétt var að finna á Vísi. Þá hefur fyrrverandi sambýliskona Magnúsar einnig sakað hann um gróft heimilisofbeldi.

„Af hverju? Hvernig gat hann gert þetta? Ég þarf að gefa sjálfri mér frelsi frá því að líklegast aldrei skilja það. Betra er að ég spyrji sjálfa mig: „Hvernig gat ég gert mér þetta?““

Í handtökuskýrslu sem DV hefur undir höndum kemur fram að engin börn voru viðstödd árásina. Í skýrslunni er jafnframt greint frá að lögreglumaðurinn sagði eftir að hafa skoðað áverka á konunni að hún hefði fengið högg á neðri vör svo úr blæddi og hann hefði hent henni í gólfið svo hún hlaut sár á hnjám. Þá var hún með margvíslega varnaráverka.

Vísir greindi svo frá því að eftir að Magnús kom heim frá Austin Texas var hann tekinn af lögreglunni grunaður um ölvunarakstur í Borgarnesi og í kjölfarið grunaður um að hafa veist aftur að fyrrum kærustu sinni svo hún hafi þurft að flýja bíl þeirra á þjóðveginum og leita sér aðstoðar.

Til stóð að málið gegn Magnúsi yrði tekið fyrir þann 12. maí næstkomandi klukkan 09:39 að morgni til í Austin Texas. Því hefur eins og áður segir verið frestað fram í júlí. Hanna Kristín hefur nú ákveðið að tjá sig um málið.

Afleiðingar heimilisofbeldis – Arndís Oddfríður Jónsdóttir Jóhanna Laufey Óskarsdóttir

Heimilisofbeldi er alþjóðlegt vandamál. Engin ein skilgreining er til yfir heimilisofbeldi heldur er það mismunandi eftir fræðimönnum og samfélögum hvernig það er skilgreint. Allar skilgreiningarnar eiga það þó sameiginlegt að fela í sér hugsunina um ofbeldið sem ferli en ekki einstakan atburð. Um er að ræða stjórnunarferli þar sem aðilinn, sem ofbeldinu beitir, kúgar hinn aðilann til að lúta vilja hins fyrrnefnda og sjá tilveruna með hans augum (Ingólfur V. Gíslason, 2008:16). Sumir vilja skilgreina heimilisofbeldi sem ofbeldi af hálfu maka gagnvart konu sinni þar sem börn geta orðið vitni að ofbeldinu beint eða óbeint (Jónína Einarsdóttir o.fl., 2004:I), sbr. hugtakið kynbundið ofbeldi sem fjallað er um hér á eftir. Þó að karlmenn geti líka verið fórnarlömb heimilisofbeldis þá er langstærsti hluti fórnarlamba konur.

Fjöldi kvenna sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi liggur ekki fyrir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráir slík mál sem líkamsárásir í tölfræði sinni. Árið 2015 fjölgaði ofbeldisbrotum talsvert og tók lögregla þá sérstaklega fram að það væri vegna breyttrar skráningar á heimilisofbeldismálum frá fyrra ári. Það ár fjölgaði ofbeldisbrotum um tæplega 400, fóru úr 1.189 í 1.587 atvik.

Árið 2010 var Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd falið að gera rannsókn á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að rúmlega 42 prósent íslenskra kvenna höfðu verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Um það bil 30 prósent kvennanna sögðust hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi en rúmlega 24 prósent kynferðislegu ofbeldi. Konur á Íslandi eldri en 18 ára eru í dag um 127 þúsund. Miðað við fyrrnefnd hlutföll hafa því ríflega 50 þúsund íslenskar konur verið beitar einhvers konar ofbeldi á lífsleiðinni.

Þolendur heimilisofbeldis geta leitað til Kvennaathvarfsins þar sem boðið er upp á húsaskjól og stuðning. Athvarfið bíður upp á símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561 1205. Samtökin Drekaslóð aðstoða jafnframt þolendur ofbeldis.

Hanna Kristín stígur fram

Hanna Kristín kærði Magnús og sakaði hann um að eyðileggja fartölvuna sína með kjöthamri
Birti mynd af tölvunni sinni Hanna Kristín kærði Magnús og sakaði hann um að eyðileggja fartölvuna sína með kjöthamri

Hanna Kristín stígur ekki fram í reiði. Á sínum tíma vildi hún ekki stíga fram barnanna sinna vegna. Þá var hún enn dofin bæði líkamlega og andlega. Á meðan sambandinu stóð kveðst Hanna Kristín hafa einangrast og vinir hurfu á braut. En tíminn hefur liðið og þokan farið og auðveldara að sjá yfir sviðið, afleiðingarnar og hvað sé að í samfélaginu. Þá gagnrýnir hún úrvinnslu og aðstoð við brotaþola eftir að hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.

„ … henni er verulega ábótavant og maður finnur deigan síga þegar kærumál eru þung í vinnslu, lítil sálræn aðstoð til að vinna úr áfallinu og því miður fá þolendur allskyns ávítur sem eru ekki uppbyggilegar. Get farið í útlistun á því seinna,“ segir Hanna Kristín á einum stað í pistlinum sem hefur eins og áður segir vakið mikla athygli og er henni þakkað fyrir að vekja athygli á afleiðingum heimilisofbeldis, á konur, börn og menn.

Draumaferð breyttist í martröð

En hverfum aftur til Texas. Hanna Kristín lýsir erfiðri ferð frá Bandaríkjunum heim til Íslands. Draumaferð til að kynna uppbyggileg málefni hafði breyst í martröð.

„Í leiðslu komst ég frá Texas til Boston og að lokum heim til Íslands. Ég grét eins og smábarn báða flugleggina. Andlitið á mér var bólgið og vörin sprungin. Ein flugfreyjan sá hvernig var og hvíslaði að mér „sweetheart, I’ve been there – CHIN UP!“. Þótti vænt um þessi orð og hlýhug.“

Þá segir Hanna Kristín:

„Það var sárt og erfitt að horfa í augu foreldra minna við heimkomu. Enn erfiðara að horfa í augu drengjanna minna. Aftur, skömmin. Ekki hafði ég bara lagt á þau áhyggjur af mér í þessari ferð heldur í mörgum ferðum þar á undan þar sem þau grunaði hvað gekk á.“

Skrímslavæðing ekki mér að skapi

Hanna Kristín segir að tönn hafi farið í gegnum vörina
Áverkar Hanna Kristín segir að tönn hafi farið í gegnum vörina

Hún lýsir síðan öðrum erfiðum minningum áður en þau héldu til Bandaríkjanna. Af hverju hafði hún ekki séð þetta fyrir? Af hverju hafði hún ekki hlustað. Þetta eru spurningar sem hún spurði sig að.

„Skrímslavæðing er ekki mér að skapi. En þetta er mín upplifun. Nú er ég ekki að tala um hans persónuleika eða manneskju, bara mínar tilfinningar sem ég þarf að koma frá mér. Það eru hliðar á heimilisofbeldi sem fólk talar ekki um. Hliðar sem er erfitt að koma í orð og hliðar sem erfitt er að átta sig á sjálfur.

Hjarta mitt öskrar og grætur af sorg og erfiðum tilfinningum því ég þarf að viðurkenna fyrir sjálfri mér að þetta gerðist. Það er ömurlega erfitt. Það er erfitt að horfast í augu við að manneskja sem maður elskar af öllu sínu hjarta sé fær um slíkan verknað og það sem verra er – er fær um að vilja koma sér undan ábyrgð og kenna manni sjálfum um að þetta hafi gerst.“

Ástarsorg

„En fyrir drengina mína ætla ég að vera fyrirmyndin og móðirin sem lætur svona ekki viðgangast og vera aftur sú sterka kona sem ég var. Kona sem lætur ekki svona viðgangast. Konan sem fer með málið alla leið og leyfir samfélaginu og dómstólum að úrskurða í svona málum. Konan sem er sterk.“

Þá segir Hanna Kristín:

„Í öllum þessum fellibyl erfiðra tilfinninga þá er líka mikil ástarsorg (það má ekki gleyma að einhver er ástæðan fyrir því að maður velur að vera í þessum aðstæðum) samhliða gremju, reiði, ótta og ráðaleysi.

Ég þarf að gangast við og viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég brást fjölskyldu minni með því að einangra mig frá öllum og ýta frá mér þeim sem ég elska mest þegar þau voru að reyna að rétta mér fram hjálparhönd þegar ég togaðist niður í kviksyndið. Ég brást ekki bara mér sjálfri heldur þeim sem þykir óendanlega vænt um mig. Fyrir hvað? Fagurgala einstaklings sem var tilbúinn til að kasta mér fyrir lest fyrir eigin verknað. Mér skilst það sé klassískt. Koma sökinni á þolandann og benda á þolandann sem er að glíma við áfallastreitu og segja:

„sko! hún er andlega óstöðug – ég gerði henni ekkert, hún var svona“ eða „þú áttir nú þinn þátt í þessu“.

Þá segir Hanna Kristín að hluti af fjölskyldu Magnúsar hafi einnig reynt að varpa sökina á hana. Það særi meira en orð fá lýst.

„Persónulega tel ég að eina leiðin til bata í svona málum, fyrir þann sem beitir ofbeldi, sé að gangast við misgjörðum sínum og reyna að bæta fyrir þær. Ekki reyna að koma sér frá ábyrgð með því að benda á þolandann sem er í örvinglan eftir áföllin og að glíma við eigið sjálf til að tóra gegnum svartnættið.

En fyrst og fremst var erfitt að viðurkenna ástandið því mér fannst það áfellist dómur á mig sjálfa. „Ég er sko ekki sú týpa“ (…sjáið mína eigin fordóma!) Þegar málið kom upp þá fann ég mikinn stuðning en líka gagnrýnisraddir. Svona aðstæður eru gríðarlega erfiðar og mikið áfall sem fylgir þessu.“

Kona og maður sem elska hvort annað

Þá segir Hanna Kristín:

„Hugsanir manns verða erfiðar í úrvinnslu og tilfinningasveiflurnar svakalega miklar. Þið megið ekki gleyma að þarna er kona og maður sem elska hvort annað og eru ástfangin – þær tilfinningar hverfa ekki bara og öllu gleymt yfir nóttu eftir ofbeldisverknað. Theóretískt væri það frábært en í praxis er það ekki svo einfalt. Það er gríðarlega sterk taug í manni sem grátbiður og vonar að ástandið breytist, hann iðrist og breytist og sýni manni þann stuðning og hlýju í gegnum bataferlið sem til þarf. En ósk- og raunhyggja er ekki hið sama.“

Hanna Kristín hefur haldið sig nokkuð til hlés hér heima eftir að hún kom heim frá Bandaríkjunum. Hún er í dag að vinna að ráðgjafafyrirtækinu Poppins & Partners sem hún, ásamt Þórunni Jónsdóttur, stofnaði nýverið og sinnir meðal annars ráðgjöf til frumkvöðla. Kveðst hún vilja biðjast fyrirgefningar þeirra sem hún hefur brugðist í svipuðum aðstæðum og bæta fyrir misgjörðir sínar og hjálpa sér og samfélaginu með því að opna á málið.

„Af hverju? Hvernig gat hann gert þetta? Ég þarf að gefa sjálfri mér frelsi frá því að líklegast aldrei skilja það. Betra er að ég spyrji sjálfa mig: „Hvernig gat ég gert mér þetta?““

Þá segir Hanna Kristín að hún sé ekki aðeins að hugsa um hag allra þeirra sem hafa verið beittir ofbeldi, gætu verið beittir ofbeldi eða hvernig megi koma í veg fyrir heimilisofbeldi og frá hvaða sjónarhorni við horfum á gerendur og þolendur. Hún vill líka vera fyrirmynd barna sinna.

„En fyrir drengina mína ætla ég að vera fyrirmyndin og móðirin sem lætur svona ekki viðgangast og vera aftur sú sterka kona sem ég var. Kona sem lætur ekki svona viðgangast. Konan sem fer með málið alla leið og leyfir samfélaginu og dómstólum að úrskurða í svona málum. Konan sem er sterk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum
Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun