fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Harkaleg viðbrögð Póstsins við mistökum sumarstarfsmanna

17 ára piltur rekinn eftir tvo daga vegna mistaka í útburði – Óttast slæmt umtal

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 19. maí 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er að mínu mati skammarleg framkoma gegn ungum pilti sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þetta var hans fyrsta alvöru vinna og það var gríðarlegt áfall fyrir hann að vera rekinn með þessum hætti. Að mínu mati er Pósturinn að láta afglöp annarra starfsmanna og slæmt umtal bitna á ungum starfsmönnum sem mega greinilega ekki stíga feilspor,“ segir Fjóla Halldórsdóttir, móðir sautján ára pilts sem var rekin frá Póstinum eftir tveggja daga starf.

Forsaga málsins er sú að sonur Fjólu hafði starfað í tvo mánuði við póstútburð samhliða skóla og hafði gengið vel. „Hann vann þrjár vaktir í viku eftir skóla og líkaði það mjög vel. Pósturinn virtist líka ánægður með hann því hann var ráðinn samstundis í fullt sumarstarf þegar hann falaðist eftir því,“ segir Fjóla. Fyrsti vinnudagur sonar hennar var á fimmtudegi en á mánudagsmorgni fékk hann þau skilaboð að vegna mistaka í útburði á föstudeginum þá væri þjónustu hans ekki lengur óskað.

Tíðar fréttir af bréfberum sem bregðast skyldum sínum

Undanfarin misseri hafa verið tíðar fréttir af bréfberum Póstsins sem sinna ekki starfi sínu sem skyldi. Á dögunum þurfti eldri kona að banka upp á hjá bréfbera á Völlunum í Hafnarfirði til þess að nálgast vegabréfið sitt sem hefði átt að berast til hennar rúmri viku fyrr. Þá var greint frá því í vikunni að bréfberi á Seltjarnarnesi hefði orðið uppvís að því að bera ekki út allar þær sendingar sem honum bar. Bréfberanum var sagt upp störfum og Pósturinn sendi út afsökunarbeiðni til íbúa.

Málin hafa greinilega valdið titringi innan Póstsins og gert að verkum að engin þolinmæði er fyrir mistökum nýrra starfsmanna. Það er að minnsta kosti upplifun Fjólu og eiginmanns hennar eftir að hafa leitað eftir skýringum frá fyrirtækinu.

Pósturinn mætti ekki við slæmu umtali

Fjóla segist hafa fengið þau svör frá Póstinum að áðurnefnt mál sem tengdist afglöpum póstburðarmanns á Völlunum í Hafnarfirði hefði reynst fyrirtækinu erfitt. „Skilaboðin voru þau að Pósturinn mætti ekki við slæmu umtali vegna mistaka í póstburði,“ segir Fjóla. Þá hafi komið henni á óvart að starfsmaðurinn var með kolrangar upplýsingar um fyrri reynslu sonar hennar af póstburði.

Fjóla var ekki sátt við þessar skýringar og leitaði til starfsmannastjóra Íslandspósts. Hann tók undir þá skoðun hennar að framkoman gagnvart syni hennar hefði verið harkaleg. „Hann lofaði að skoða málið en hafði svo samband degi síðar og sagði að dreifingarstöðin í Hafnarfirði réði þessu og hann myndi ekki aðhafast meira í málinu,“ segir Fjóla. Að hennar sögn er sonur hennar niðurbrotinn eftir reynsluna og er nú án vinnu fyrir sumarið.

„Engum starfsmanni er sagt upp eftir ein mistök“

„Ég get ekki tjáð mig um mál einstakra starfsmanna. Hins vegar ef við skoðum þessi mál almennt er ljóst að engum starfsmanni er sagt upp eftir ein mistök eða ótta við slæmt umtal. Það sem hefur áhrif er þegar gæði þjónustunnar er í hættu. Þegar ábendingar berast frá viðskiptavinum eru þær skoðaðar sérstaklega og ef gæði eru í hættu er gripið til sérstakra ráðstafana,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, í skriflegu svari til DV.

Að hans sögn tekur Pósturinn allar ábendingar alvarlega og leggur mikla áherslu á að þeim sé fylgt eftir enda eru þær bestu vísbendingar þess að dreifing sé í ólagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga