fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
FréttirLeiðari

Stjórnarsamstarf á veikum grunni

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 21. febrúar 2017 09:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki þarf sérstaka spádómsgáfu til að ætla að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verði ekki langlíf. Meirihlutinn er svo naumur að ekkert má fara verulega úrskeiðis. Vegna þess hefði mátt búast við að á ríkisstjórnarheimilinu myndu menn vanda sig við að ganga í takt, allavega svona til að byrja með. Sú hefur ekki orðið raunin.

Allt frá því ný ríkisstjórn var mynduð hefur gætt furðu mikils óróa á stjórnarheimilinu og miður heppileg orð fallið. Allt er það rakið annars staðar í þessu blaði. Ríkisstjórnin virðist ekki virka sem ein heild og reyndar er eins og þar á bæ hafi menn lítinn áhuga á að skapa slíka ímynd. Eða hvernig á að skýra það að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokk hafa stokkið fram á sviðið og lýst yfir andstöðu við áætlanir félagsmálaráðherra, Þorsteins Víglundssonar, um jafnlaunavottun. Þeim ætti að vera jafn ljóst og öðrum að málið er eitt af forgangsmálum Viðreisnar, enda er það í ríkisstjórnarsáttmála. Staðan er því sú að mál sem er í ríkisstjórnarsáttmála nýtur ekki meirihlutafylgis í ríkisstjórninni! Ekki er sú niðurstaða til að styrkja ríkisstjórnina eða auka trú almennings á henni. Stjórnarsamstarf felur í sér málamiðlanir, öðruvísi getur það ekki gengið upp, og þarna gætti furðulegs óþols hjá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þeir hefðu sennilega betur nöldrað heima hjá sér eða á lokuðum þingfundum í stað þess að hrópa á torgum.

Sú áleitna spurning vaknar hvort einhverjir í þingliði Sjálfstæðisflokksins hafi frá byrjun verið andsnúnir myndun þessarar ríkisstjórnar og ætli ekki að leggja sérlega mikið á sig til að halda lífi í henni. Fari fram sem horfir og átökin innan ríkisstjórnarinnar aukist enn mun stjórnarandstaðan geta hallað sér makindalega aftur og skemmt sér við að sjá ríkisstjórnina eyða sjálfri sér, svona svipað og vinstri stjórnin gerði um árið. Stjórnarandstaðan þarf þá ekki að hafa mikið fyrir stjórnarskiptum.

Það blasir við að ríkisstjórnarsamstarfið hvílir á veikum grunni. Við það bætist að skoðanakannanir sýna ítrekað að stuðningur landsmanna við ríkisstjórnina er ekki mikill. Bæði Viðreisn og Björt framtíð eru í frjálsi falli í hugum þjóðarinnar. Það kann að hafa mikil áhrif á stjórnarsamstarfið. Flokkarnir tveir þurfa nauðsynlega að skerpa á áherslum sínum og spyrna við fótum ætli þeir að lifa þetta stjórnarsamstarf af. Þeir hafa ekki efni á að láta Sjálfstæðisflokkinn teyma sig áfram. Um leið mun ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar nær örugglega aukast mjög og verða enn harðari. Stjórnarskipti kunna því að verða fyrr en seinna og þá getur ríkisstjórnin engum um kennt nema sjálfri sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið