fbpx
Miðvikudagur 03.júní 2020
Fréttir

Hallbjörn nauðgaði og sleppur við fangelsi en barnabarninu stungið í steininn

Barnabarn og þolandi: „Ég sé hann stundum út á götu“ Dæmdur í þriggja ára fangelsi – 12 karlmenn sloppið við að sitja inni fyrir alvarleg brot frá árinu 2000 – Gengur laus í Kántríbæ

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 8. desember 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hallbjörn Hjartarson er á leið í fangelsi. Þannig hljóðaði fyrirsögn í DV þann 5. febrúar árið 2015. Hæstiréttur hafði þá staðfest þriggja ára dóm yfir kántríkónginum. Hallbjörn misnotaði með grófum hætti að minnsta kosti tvo drengi. Annar þeirra var barnabarn hans. Barnabarnið þurfti að sitja í fangelsi fyrir að hafa beitt afa sinn ofbeldi eitt örlagaríkt kvöld þegar minningarnar hvolfdust yfir hann af fullum þunga, en afinn sem sakaður var um margra ára kynferðisofbeldi slapp við að sitja á bak við lás og slá. Fyrirsögnin frá því í febrúar 2015 er því einfaldlega röng.

Hallbjörn kyssti annan drenginn tungukossum, káfaði á kynfærum hans, nauðgaði honum með munninum og neyddi hann til að fróa sér. Fyrir dómi sagði barnabarn Hallbjarnar að misnotkunin hefði hafist þegar hann var sjö ára. Fyrir þetta var Hallbjörn dæmdur í þriggja ára fangelsi. Hallbjörn mun þó aldrei sitja inni. Hann gengur laus á Skagaströnd. Sökum aldurs mun Hallbjörn ekki fara í fangelsi. Hans refsing er tekin út á hjúkrunarheimili.

Níðingur bjargar mannslífi

Hallbjörn fæddist í júní 1935 og ólst upp á Skagaströnd þar sem hann hefur búið mestan hluta ævi sinnar. Áður en Hallbjörn sló í gegn sem söngvari starfaði hann við fiskvinnslustörf, byggingarvinnu og var í um 10 ár verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Húnvetninga.

Hallbjörn kemur tæplega þúsund sinnum fyrir á timarit.is. Fyrsta frétt er frá árinu 1954 í Morgunblaðinu. Þar er að finna auglýsingu um tónleika í Breiðfirðingabúð. „Nýr dægurlagasöngvari kynntur, Hallbjörn Hjartarson.“ Þremur árum síðar kemur fram í Vísi að Hallbjörn og Arný Hentxe hafi opinberað trúlofun sína á Skagaströnd.

Á árunum 1960 til 1969 kemur Hallbjörn tvisvar fyrir í blöðum landsmanna. Þann 12. október 1967 greinir Þjóðviljinn frá því að Hallbjörn hafi bjargað lífi barns. Fjögur börn á aldrinum fjögurra til sex ára höfðu farið á fleka í höfninni á Skagaströnd og rak þau út höfnina. Tveir sextán ára piltar réru á árabát að flekanum sem þá var sokkinn og öll börnin komin í sjóinn. Var eitt barnið meðvitundarlaust en hin þrjú rænulítil. Hallbjörn tók á móti árabátnum og tókst að blása lífi í barnið. Öll börnin lifðu af.

Hallbjörn heiðraður

„Þrátt fyrir allt og þó ég hafi lent í ýmsu í þessu lífi hefur Herra minn ávallt haldið verndarhendi yfir mér.“

Á árunum 1970 til 1979 er fjallað 13 sinnum um Hallbjörn í fjölmiðlum. 1973 segir Þjóðviljinn frá skemmtun á Húsbændavöku þar sem Hallbjörn sló í gegn með gamanvísum og söng. Hallbjörn tók þátt í uppsetningum Leikklúbbs Skagastrandar og fór með aðalhlutverk í Hart í bak árið 1979. Þremur árum áður skrifaði Hallbjörn grein í Dagblaðið þar sem hann sagði að bandaríski herinn ætti að hypja sig úr landinu ef hann myndi ekki verja Ísland í Þorskastríðinu. Árið 2012 átti sendiráð Bandaríkjanna eftir að heiðra Hallbjörn fyrir framlag hans til kántrítónlistar á Íslandi.

„Hallbjörn’s artistry is a wonderful bridge between American and Icelandic culture. His music brings people together,“ sagði þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga.

Frægðin bankar á dyrnar

Það var eftir árið 1980 sem Hallbjörn varð landsfrægur. Þá einbeitti hann sér alfarið að kántrítónlist. Hallbjörn kemur 320 sinnum fyrir í fjölmiðlum á þessum árum og þá mátti sjá honum bregða fyrir í kvikmyndinni Dalalíf þar sem hann lék sjálfan sig. Það sama ár var hann stjarnan í heimildamynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Kúrekar norðursins.

Hróður Hallbjörns óx á ógnarhraða. Hann opnaði Kántrýbæ og útvarpsstöð. Lögin hans voru á topplistum á útvarpsstöðvum. Hann var hinn íslenski kúreki sem rak veitingahús og hróður hans barst um víða veröld. Kántrýhátíð á Skagaströnd sló í gegn. Hann var sú stjarna sem skærast skein á Skagaströnd. Hann gaf forsetanum kúrekahatt og tók upp plötu með trúarsöngvum sem gerð var fyrir „herra hans á himnum.“ Sagði Hallbjörn í viðtali við Dag að hann teldi að Guð hefði ætlað honum það hlutverk að útbreiða kántrítónlist á Skagaströnd. Það átti Hallbjörn eftir að gera. En hann átti einnig eftir að breiða út hrylling og skömm yfir fæðingarstað sinn. Hallbjörn eignaðist á þessum árum börn. Og barnabörn. Hann átti svo eftir að misnota barnabarn sitt.

Hallar undan fæti

Hallbjörn ráðfærir sig við lögmann.
Mætir fyrir dóm Hallbjörn ráðfærir sig við lögmann.

Og árin liðu. Á árunum 1990 til 2009 er Hallbjörn 523 til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum. Hann skemmti Íslendingum víða og söng oftar enn einu sinni í þættinum Á tali með Hemma Gunn. Það var líka á þessum tíma sem barnabarn Hallbjörns sagði afa sinn hafa beitt sig kynferðisofbeldi sem hafi orðið grófara með árunum. Eftir árið 2010 fer að halla undan fæti hjá kántrísöngvaranum sem kemur aðeins 28 sinnum fyrir í fjölmiðlum á síðustu sjö árum. Flestar snúast fréttirnar um kynferðisofbeldi söngvarans. Hallbjörn sem hefur verið trúaður frá barnæsku sagði í viðtali:

„Þrátt fyrir allt og þó ég hafi lent í ýmsu í þessu lífi hefur Herra minn ávallt haldið verndarhendi yfir mér.“

Það leit út fyrir, í febrúar 2015, að skaparinn hefði yfirgefið söngvarann og komið væri að skuldadögum. Hallbjörn var dæmdur í fangelsi. Eins og áður segir er Hallbjörn einn af tólf frá árinu 2000 sem hafa sloppið við að sitja inni þrátt fyrir að hafa framið alvarleg brot.

Níðingur opinberaður

„Ég er orðinn of gamall til að syngja og búinn að missa áhugann á því eins og öllu öðru“

Árið 2011 opnaði Hallbjörn sig í viðtali við DV. Það var myrkur í lífi hans og hann ósáttur við tilveruna. Vandaði hann íbúum á Skagaströnd ekki kveðjurnar. Hallbjörn sagði:

„Ég vil helst gleyma öllu, lífinu, tilverunni og öllu. Ég er bara leiður á þessu, bara orðinn leiður á lífinu. […] Ég er orðinn of gamall til að syngja og búinn að missa áhugann á því eins og öllu öðru.“

Tveimur árum síðar birtist á Pressunni sláandi frétt.

Hallbjörn kántríkóngur grunaður um kynferðisbrot var fyrirsögnin.

Fluttur á gjörgæsludeild

Hér afplánar Hallbjörn sinn dóm.
Hallbjörn á hjúkrunarheimili Hér afplánar Hallbjörn sinn dóm.

Í fréttinni kom fram að tveir tæplega tvítugir piltar hefðu ráðist á Hallbjörn sem hlaut alvarlega áverka og var fluttur á gjörgæsludeild. Hallbjörn var afi annars piltsins og sakaði hann afa sinn um að hafa brotið á sér. Hallbjörn var upphaflega kærður fyrir að brjóta gegn fjórum drengjum þegar þeir voru börn að aldri. Tvö málanna fóru fyrir héraðsdóm. Frá þessu var greint í febrúar 2014. Í mars sama ár fór fram aðalmeðferð á hendur piltunum tveimur sem brutust inn á heimili Hallbjörns. Þeir voru dæmdir í 18 mánaða fangelsi, þar af 15 skilorðsbundna. Hallbjörn lá gjörgæslu í átta daga eftir árásina og á sjúkrahúsi í nokkrar vikur í kjölfarið.

„Þessi orð eru það skráð í huga mér það mikið að þegar ég hugsa til þeirra á degi hverjum þá finnst mér eins og þau hafi verið sögð við mig í gær. Þau taka ákaflega á mig að hugsa um þessi orð. Við ætlum að drepa þig, við ætlum að drepa þig. Þeir byrjuðu bara strax á því að lemja mig og berja. Ég vissi að það þýddi ekkert fyrir mig að gera eitt eða neitt, ég var bara hálfur maður. Hægri handleggurinn og öxlin eru gervi og ég hafði því bara vinstri höndina. Ég sá það á hávaðanum og látunum í þeim að það þýddi ekkert fyrir mig að gera. Ég settist á stól sem var þarna og þá létu þeir höggin og öskrin og allt á mér dynja,“ sagði Hallbjörn fyrir dómi.

„Ég sé hann stundum úti á götu, samt ekki oft, ég er svo oft úti á sjó“

„Mig langaði til að fá hann til að játa þetta allt,“ sagði annar ungi maðurinn við aðalmeðferð málsins. Drengirnir segja báðir að Hallbjörn hafi misnotað þá kynferðislega og að ástæða þess að þeir fóru að heimili hans hafi verið sú að fá Hallbjörn til játa syndir sínar. Hálfbróðir annars þolanda sagði í vitnisburði sínum við aðalmeðferð að Hallbjörn hefði brotið á honum fyrir rúmlega þrjátíu árum. Sögðu fórnarlömb Hallbjörns frá því hvernig þau urðu lokuð og leiddust út í dópnotkun í kjölfar misnotkunar hans.

Sér afa sinn stundum á röltinu

Hallbjörn tekur út sinn dóm á hjúkrunarheimili fyrir brot sem stóðu yfir í nokkur ár. Þolandi hans, barnabarnið, var dæmdur í fangelsi fyrir að missa stjórn á sér eina kvöldstund.
Hallbjörn á röltinu Hallbjörn tekur út sinn dóm á hjúkrunarheimili fyrir brot sem stóðu yfir í nokkur ár. Þolandi hans, barnabarnið, var dæmdur í fangelsi fyrir að missa stjórn á sér eina kvöldstund.

Í samtali við DV segist barnabarn Hallbjörns hafa farið í fangelsi vegna líkamsárásarinnar. Það hafi afi hans, Hallbjörn, hins vegar sloppið við sökum aldurs. Hann kveðst í dag helst vilja gleyma ofbeldinu, eftirköstum, atburðarásinni eins og hún leggur sig og leggja það að baki. Hann segist þó geta tekið undir að það sé óréttlæti að hann hafi farið í fangelsi meðan Hallbjörn hafi sloppið við það. Hann býr á Skagströnd.

„Ég sé hann stundum úti á götu, samt ekki oft, ég er svo oft úti á sjó,“ segir hann.

Aldrei setið inni

Hallbjörn varð á þessu ári 82 ára gamall og því talinn of ellihrumur fyrir fangelsi. Einn viðmælandi DV innan fangelsiskerfisins orðaði það svo að ekki væri hægt að ætlast til þess af fangavörðum að þeir sinntu aðhlynningu gamalmenna.

Tveir afar dæmdir

Vinsælustu lög Hallbjörns og eitt umdeilt

Vinsælustu lög Hallbjörns eftir að hann gerðist kúreki norðursins eru Lukku Láki, Kántrýbær, Sannur vinur og Kúreki norðursins. Umdeildasta lag Hallbjörns er Hann afi er ekki afi minn. Hefur verið kallað eftir því að það lag sé fjarlægt af Youtube þar sem textinn þyki óviðeigandi og klúr, sé það sett í samhengi við dóm kántríkóngsins

Hallbjörn á einnig tvö lög á Spotify; Kántrýbær hefur verið spilað 1.958 sinnum en um 1.000 sinnum hefur verið hlustað á lagið KR-stuð.

Tvö dæmi eru um það undanfarin ár að það hafi vakið athygli þegar mjög aldraðir menn hafi verið dæmdir í fangelsi. Þá er Hallbjörn ekki með talinn. Báðir þeir menn áttu það þó sameiginlegt með Hallbirni að vera dæmdir fyrir kynferðisbrot gegn barnabörnum. Þótt DV hafi ekki heimildir fyrir því að þeir menn hafi sloppið við fangelsi þá kom það þó til tals í báðum tilvikum.

Fyrra dæmið var árið 2008 en þá var tæplega níræður karlmaður dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni sínu. Brotin áttu sér stað þegar stúlkan var fjögurra til fimmtán ára. Þá var greint frá því að annað barnabarn mannsins hefði kært afann en þá voru brotin fyrnd. Í fréttaflutningi af því máli var tekið fram að hár aldur mannsins hafi verið honum til refsilækkunar.

Hitt málið er síðan í sumar en þá var nær áttræður karlmaður dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot geng þremur barnabörnum sínum, stúlkum á aldrinum sex til fjórtán ára. Í dómi mannsins var tekið fram að hann væri aldraður, fjölveikur og notaði fjölda lyfja. Það var honum til refsilækkunar.

Afplánun fer fram á hjúkrunarheimili

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í skriflegu svari til DV að Fangelsismálastofnun megi lögum samkvæmt vista fanga á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Heimildir DV herma að Hallbjörn sé vistaður á hjúkrunarheimili á Skagaströnd en líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum gengur hann þó laus um bæinn. „Ákvörðun um vistun á slíkri stofnun er sem sagt ekki tekin nema að undangengnu sérfræðiáliti og getur verið hluta refsitímans eða allan,“ segir Páll.

Páll segir að frá aldamótum hafi tólf menn sem hafa hlotið óskilorðsbundinn dóm ekki farið í fangelsi heldur aðra stofnun. Mennirnir voru með samtals tuttugu dóma á bakinu. Ástæðurnar eru misjafnar en yfirleitt hafi þær verið heilsufarslegar. Í því samhengi nefnir Páll dæmi um menn sem hafa verið langt leiddir af krabbameini eða aldraðir. Líkt og fyrr segir eru slíkir fangar vistaðir á viðeigandi stofnun sem getur verið elliheimili, sambýli eða jafnvel sjúkrahús.

„Frá árinu 2000 hafa tólf einstaklingar afplánað refsingu sína að fullu á sjúkrahúsi eða annarri stofnun samkvæmt 22. grein laga um fullnustu refsinga. Mun fleiri hafa afplánað hluta refsingar sinnar samkvæmt þessu ákvæði, það eru einstaklingar sem veikjast í afplánun og þurfa að dvelja yfir nótt á sjúkrahúsi. Þeir eru ekki inni í tölunni tólf,“ segir Páll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Alvarlegt brot RÚV á lögum – Þættir um ofbeldi, kynlíf og eiturlyf aðgengilegir börnum

Alvarlegt brot RÚV á lögum – Þættir um ofbeldi, kynlíf og eiturlyf aðgengilegir börnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lést í Sundhöll Selfoss í dag

Lést í Sundhöll Selfoss í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ökumaður reyndi að komast undan lögreglu en hafnaði á tveimur bifreiðum

Ökumaður reyndi að komast undan lögreglu en hafnaði á tveimur bifreiðum
FókusFréttir
Fyrir 2 dögum

Kallar veggjakrotara glæpamenn sem svífast einskis – „Það þarf, nauðsynlega, að stöðva veggjakrot“

Kallar veggjakrotara glæpamenn sem svífast einskis – „Það þarf, nauðsynlega, að stöðva veggjakrot“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sif kemur Frosta til varnar – „Ekki er allt sem sýnist“

Sif kemur Frosta til varnar – „Ekki er allt sem sýnist“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Mjög mikið að gera hjá lögreglunni

Mjög mikið að gera hjá lögreglunni
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Rúta brann í Blágskógabyggð í dag

Rúta brann í Blágskógabyggð í dag
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Icelandair: Starfsfólk taki á sig 10% launaskerðingu

Icelandair: Starfsfólk taki á sig 10% launaskerðingu