fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Tveggja ára barn líklega drepið í Mývatnssveit fyrir 1.000 árum

Lífsgæði í Mývatnssveit góð – Lifði lengi með illvígt krabbamein

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 15. desember 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, stundar nú rannsóknir á beinum barna sem grafin voru upp í miðaldakirkjugarði á Hofstöðum í Mývatnssveit. Hún er sérmenntuð í mannabeinafræði og beitir ýmsum aðferðum við rannsóknirnar, þar á meðal aðferðum réttarmeinafræðinnar. Hún segir lífsskilyrði fólksins almennt hafa verið góð en einstaka sinnum komi upp bein sem benda til þess að voveiflegir atburðir hafi gerst. Nú rannsakar hún beinagrind barns sem hefur að öllum líkindum verið beitt grófu ofbeldi.

Lífið skrifað í beinin

Fornleifauppgröfturinn á Hofstöðum hófst árið 1992 en kirkjugarðurinn þar var í notkun frá því seint á tíundu öld fram á þá þrettándu. Rannsókn á kirkjugarðinum sjálfum er lokið og voru 170 beinagrindur þar grafnar upp. Rannsóknir á öðrum minjum á svæðinu standa þó enn yfir.

Hvað er hægt að sjá í beinunum? „Það er ýmislegt. Ég er að vinna í stórsæjum rannsóknum. Að greina kyn, lífaldur, sjúkdóma, áverka og fleira. Einnig eru gerðar ísótópagreiningar þar sem mataræði fólks er skoðað. Með því getum við séð hversu stór hluti af fæðunni var sjávarfæði, fersksvatnsfæði og landfæði. Við skoðum breytingar í mataræði yfir tíma, hvort sjúkdómar hafi áhrif á mataræðið. Ef við sjáum að mataræði einstaklings hafi breyst frá mikilli sjávarfæðu yfir í landfæðu hefur hann væntanlega flutt búferlum þar sem Mývatnssveit er langt inni í landi.“

Sum beinin eru brákuð eða brotin og getur það verið merki um ofbeldisverk. Er starf fornleifafræðingsins að einhverju leyti svipað rannsóknarlögreglumannsins? „Nei, en við beitum í raun sömu aðferðum og réttarmeinafræðingar. Stundum sjáum við einhverja áverka, gróna eða ekki. Erfitt getur þó verið að átta sig á því hvort um viljaverk eða slys hafi verið að ræða. Ef fólk hefur orðið fyrir áverkum sem sjást á beinum og hefur leitt til dauða þá sjáum við það.“

Höfuðkúpan brotin á hnakkanum

Nú rannsakar Hildur bein tveggja ára gamals barns sem hefur að öllum líkindum orðið fyrir miklu ofbeldi. „Ég er enn þá að vinna með þessi bein. Það eru áverkar á höfði. Ég get ekki útilokað slys, eins og til dæmis fall. En ég nota réttarmeinafræðina og horfi á hvernig áverkar eru algengir þegar börn detta og hvernig þeir eru þegar um viljaverk er að ræða.“

„Ég nota réttarmeinafræðina og horfi á hvernig áverkar eru algengir þegar börn detta og hvernig þeir eru þegar um viljaverk er að ræða.“

Hversu miklir eru þessir áverkar? „Ég sé að höfuðkúpan er brotin á hnakkanum.“ Hildur treystir sér þó ekki til þess að segja til um hvort eða hvaða áhald hafi verið notað til verknaðarins. Var þetta drengur eða stúlka? „Það er eiginlega ómögulegt að greina kyn hjá börnum því að þeir þættir sem við notum til að greina koma ekki fram fyrr en við kynþroska.“ Hún segir að barnið, sem hefur fæðst í kringum árið 1000, hafi örugglega látist vegna þessara áverka.

Sérðu oft beinagrindur sem bera merki ofbeldis? „Það er ekki algengt. Maður sér beinbrot og svoleiðis en yfirleitt af slysförum. Ég hef séð einstaklinga sem eru margbrotnir og hafa greinilega oft lent í slysum.“ Hildur segir að sjaldnast sjáist bein dánarorsök í beinunum. „Mín fræði snýr aðallega að því að segja frá lífi fólks en ekki dauða. Það sem gerist yfir lífsleiðina skráist í beinin.“

Hættulegast að fæðast og hætta á brjósti

Annað tilfelli sem Hildur rannsakar nú er fimm eða sex ára gamalt barn sem hefur þjáðst af skyrbjúg. Hvernig sérðu það? „Skyrbjúgur veikir alla vefi líkamans og því verða blæðingar í mjúkvef. Þegar það gerist nálægt beinunum myndast nýtt bein. Þetta er oft í kringum munninn og hjá börnum víðs vegar í höfuðkúpunni.“

Hún segir mikið af beinagrindum barna hafa fundist í Hofstaðakirkjugarði. „Ungbarnadauði hefur verið afskaplega hár á þessum tíma. Þetta er ekki merki um neitt óvenjulegt, þetta er nákvæmlega það sem maður býst við að sjá. Ég er ekki búin að greina börnin og get ekki sagt nákvæmlega til um aldursdreifinguna á þessu stigi en langflest þeirra voru nýburar undir eins árs aldri.“

Var líf barna erfitt eða hættulegt á miðöldum? „Það hættulegasta sem börn gerðu var að fæðast og hætta á brjósti. Það voru erfiðustu tímarnir og mestu líkurnar á að deyja.“ Hildur bendir þó á að börnin sem hún skoðar nú eru ekki einkennandi dæmi fyrir öll börnin á svæðinu. „Þetta eru börnin sem dóu en hin ólust upp.“

Langt gengin með illkynja krabbamein

Hildur segir að almenn lífsskilyrði fólks á svæðinu í kringum Hofstaði hafi verið mjög góð. Stórar vöðvafestingar í beinunum gefa til kynna að fólk hafi þurft að vinna mikið. En fólkið var hávaxið og lifði lengi. „Fólk hefur ekki upplifað mikla eymd þarna þó það hafi þurft að vinna fyrir sínu. Ef fólk náði að lifa af fyrsta árið gat það orðið gamalt, jafnvel á okkar mælikvarða. Erfitt er að greina nákvæman aldur fólks yfir fimmtugu en á Hofstöðum ná því langflestir. Sumt fólkið hefur augljóslega verið á áttræðisaldri.“

„Ef fólk náði að lifa af fyrsta árið gat það orðið gamalt, jafnvel á okkar mælikvarða.“
Uppgröftur á Hofstöðum „Ef fólk náði að lifa af fyrsta árið gat það orðið gamalt, jafnvel á okkar mælikvarða.“

Eitt mesta hraustleikamerki staðarins segir Hildur vera hversu mörg beinin sýna alvarlega og langt gengna sjúkdóma. „Ef fólk lifir lengi með slíka sjúkdóma bendir það til þess að það hafi verið nokkuð hraust. Aðgengi að góðu mataræði og samfélagið hefur getað séð um veikt fólk. Mývatnssveitin er auðvitað mikil matarkista.“

Nefnir hún sérstaklega óvanalegt dæmi af konu með mergæxli, illkynja langt gengið krabbamein. „Guðmundur Eyjólfsson læknir skoðaði þetta með mér og hann hafði ekki trúað því að hægt væri að lifa svona lengi með sjúkdóminn án nútímalækninga. Það eru aðeins um tuttugu birt tilfelli í heiminum sem sjást í beinum og Hofstaðabeinagrindin er með þeim best varðveittu. Ég er nokkuð viss um að ég á ekki eftir að finna annað slíkt dæmi á mínum ferli. En þetta segir einmitt til um lífsgæði samfélagsins. Konan hefur verið orðin mjög veik undir það síðasta en fengið góðan mat og hjúkrun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala