fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Kosningabarátta án málefna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 13. október 2017 09:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vissulega er ekki langur tími liðinn frá síðustu alþingiskosningum en ekki getur það réttlætt málefnaskortinn sem einkennir þessa kosningabaráttu, ef kosningabaráttu skyldi kalla. Það er eins og stjórnmálamenn hugsi með sér að kjósendur muni svo ósköp vel hvað var kosið um síðast að algjör óþarfi sé að ræða málefni af einhverri alvöru eða skerpa á áherslum.

Kraftleysi stjórnmálamanna í kosningabaráttunni er slíkt að auðvelt er að fá á tilfinninguna að þeir hafi ekki nennt út í þessar kosningar. Undantekning frá því er formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, sem hrópar fremur en talar um þörf á uppstokkun í þjóðfélaginu en kemur ekki með vel ígrundaðar lausnir. Önnur áberandi undantekning er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem stofnað hefur heilan stjórnmálaflokk utan um eigið ágæti, og er í hefndarför gegn sínum fyrrverandi flokki, Framsóknarflokknum. Menn getur greint á um mikilvægi slíks einkahagsmunaleiðangurs fyrir íslenska þjóð en það verður ekki haft af Sigmundi að hann er rekinn áfram af ástríðu, sem minnir reyndar stundum á þráhyggju.

Í yfirstandandi kosningabaráttu er málflutningur stjórnmálamannanna helst til daufur, nema þegar þeir komast svo klaufalega að orði að þeir neyðast til að biðjast afsökunar daginn eftir. Þá fyrst er þjóðin reiðubúin að leggja vandlega við hlustir. Óneitanlega væri heppilegra að stjórnmálamenn kveiktu áhuga þjóðarinnar með einhverju öðru en miður heppilegum ummælum. En þeir eru bara ekki upp á sitt besta þessa dagana.

Hér er rekin kosningabarátta sem er að mestu leyti án stefnumála. Ef verið er að kjósa um eitthvað sérstakt þá er það helst hvort Vinstri græn eða Sjálfstæðisflokkur eigi að leiða næstu ríkisstjórn. Þessi tveggja turna áhersla hentar þessum flokkum ágætlega. Vinstri græn geta farið með þuluna margtuggnu um spillinguna og svínaríið hjá forréttindaliðinu í Sjálfstæðisflokknum meðan Sjálfstæðismenn leitast við að hræða þjóðina til fylgis við sig með því að draga upp hryllingsmynd af skattahækkunum sem myndu fylgja vinstri stjórn og þeirri skelfilegu upplausn sem myndi skapast á valdatíma hennar, alveg sérstaklega væru Píratar þar innan borðs. Það er miður að skætingstal eins og þetta komi í staðinn fyrir málefnalegar rökræður.

Á meðan er hin frjálslynda miðja í frjálsu falli. Því er jafnvel spáð að hún muni nánast þurrkast út í kosningunum. Það væri nokkuð furðulegt ef slík yrði raunin því langflestir Íslendingar eru í eðli sínu öfgalausar miðjumanneskjur. Kannski er það einfaldlega svo að hófsemd þykir ekki nægilega spennandi. Rétt er samt að hafa í huga að hún jafngildir ekki tíðindaleysi. Miðjuflokkarnir hafa hins vegar ekki fundið sóknarfæri í dauflegri kosningabaráttu og það kann að reynast þeim dýrt.

Hver sem úrslit kosninga verða er vonandi að stjórnmálamenn hristi af sér deyfðina sem einkennt hefur þá undanfarið og myndi frísklega og starfhæfa ríkisstjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“