fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
FréttirLeiðari

Barátta Viðreisnar

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 21. júlí 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki verður annað séð en að ráðherrar Viðreisnar séu í baráttuhug og ætli ekki að sitja lengur þegjandi undir ásökunum um að vera taglhnýtingar Sjálfstæðisflokksins. Um leið er eins og Björt framtíð sé orðin hálflömuð af meðvirkni í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er hið ráðandi afl. Hið kæfandi faðmlag íhaldsins er að ganga af Bjartri framtíð dauðri. Viðreisn virðist ekki ætla að kjósa sér sömu örlög.

Fjármálaráðherrann, Benedikt Jóhannesson, talar fyrir því að krónunni sé kastað, enda sé hún óútreiknanleg og leiði til óstöðugleika. Hvað skyldi Bjarni frændi segja við þessu? Ætli við vitum það nú ekki. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra vill að útgerðin borgi sanngjarnt gjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Hún sér ekkert athugavert við nýboðaða hækkun veiðigjalda og lét hafa eftir sér að útgerðarmönnum hefði verið fullljóst að veiðigjöld myndu hækka á milli ára og bætti við að þeir hlytu að hafa lagt fyrir peninga til að greiða skattinn. Já, kannski hefur útgerðin lagt fjármuni til hliðar í stað þess að greiða sér himinháan arð. Eins og búast mátti við kveinkaði hinn óstöðvandi grátkór útgerðarinnar sáran undan orðum sjávarútvegsráðherra, en treystir líklega um leið á að huggun sé að finna í örmum íhaldsins í ríkisstjórninni.

Ekki er líklegt að þessar hugmyndir ráðherranna tveggja komi til framkvæmda í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiðir. Þar er rík áhersla lögð á að vernda sérhagsmuni útgerðarinnar. Einnig er þar ríkjandi áberandi tryggð við hinn óstöðuga gjaldmiðil. Líklegt er að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokki taki þann pól í hæðina að líta á orð ráðherranna sem hvert annað brölt sem hægt sé að umbera um tíma en grípi síðan fast í taumana fari ráðherrarnir að gera sér grillur um framkvæmdir. Fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra tala í sjálfu sér ekki fyrir vonlausum málstað. Það gæti verið æskilegt að kasta jafn óstöðugum gjaldmiðli og krónunni og vitaskuld getur útgerðin greitt hærri veiðigjöld. En það er ekki mikil von um að slíkt komi til framkvæmda í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiðir. Barátta Viðreisnar er virðingarverð um leið og hún virðist fyrirfram töpuð.

Með Sjálfstæðisflokkinn í öndvegi eru engar líkur á að ríkisstjórnin muni gera umtalsverðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, hvað þá breyta gjaldmiðli landsins. Satt best að segja virðist hún heldur ekki líkleg til að jafna kjör landsmanna og styrkja stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Nema svo afar ólíklega vilji til að áherslur litlu flokkanna í ríkisstjórninni fari að skipta Sjálfstæðisflokkinn einhverju máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“
Fréttir
Í gær

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás
Fréttir
Í gær

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs
Fréttir
Í gær

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“