fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Bergur Þór er faðir Nínu: „Ég hef hvergi séð iðrun“ – Tortryggir enn menn með stóra leðurhatta

Bergur Þór Ingólfsson leikari segir að sárin grói aldrei

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 16. júní 2017 10:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún hefur alltaf glímt við þetta og losnar ekkert undan þessu; ákveðin lykt, ákveðnar aðstæður, hún tortryggir allt á Internetinu. Og bara ég. Ég þarf að snúa sjálfum mér við því, líkamlegt eða andlegt viðbragð mitt, er að tortryggja menn með stóra leðurhatta,“ segir Bergur Þór Ingólfsson leikari og faðir einnar af þeim stúlkum, Nínu Rúnar, sem Róbert Árni Hreiðarsson misnotaði.

Fær að starfa sem lögmaður með óflekkað mannorð

Bergur Þór ræddi um málið við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun. Eins og greint var frá í gær hlaut Róbert Árni, eða Robert Downey líkt og hann kallar sig í dag, uppreist æru í september síðastliðnum. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2007 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum og vörslu barnakláms.

Í gær staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þar sem svipting réttinda hans til að starfa sem lögmaður var felld niður. Það þýðir að Robert, sem í dag telst vera með óflekkað mannorð, má starfa sem lögmaður.

„Óréttlátt og ósanngjarnt“

Bergur Þór er sem fyrr segir faðir eins af fórnarlömbum Róberts og sagði hann í viðtali við Morgunútvarpið í morgun að honum þætti ótrúlegt að Róberti hefði verið veitt uppreist æra. „Þetta er svo óréttlátt og ósanngjarnt og óöruggt að maður með þennan bakgrunn og þessa svívirðilegu og viðbjóðslegu sögu skuli fá að sinna þessum störfum,“ sagði Bergur.

Sjá einnig:
Stelpurnar hættar að vera hræddar við Róbert: „Ég grét þegar mamma mín sendi mér þessa frétt í dag

Sárin gróa aldrei

Þegar hann var spurður hvað hefði tekið við hjá fjölskyldunni eftir að Róbert hafði afplánað dóm sinn sagði Bergur að fjölskyldan hefði reynt að halda áfram með líf sitt, reynt að græða sárin. „Dómurinn á sínum tíma þótti strangur sem er líka fáránlegt. Þrjú ár fyrir að tæla börn og misnota aðstöðu sína, en hann þótti strangur á sínum tíma og þótti ákveðinn tímamótadómur að því leyti,“ sagði Bergur og bætti við:

Dóttir mín býr í Bandaríkjunum núna og er gift þar og hún auðvitað brast í grát og við líka yfir því að þessi maður skuli fá uppreist æru.

„Við í rauninni höldum bara áfram með okkar líf og reynum að græða sárin sem gróa aldrei, sem kom bara í ljós í gær þegar við lásum þetta á fréttamiðlunum að það bara sprengdi allt upp. Dóttir mín býr í Bandaríkjunum núna og er gift þar og hún auðvitað brast í grát og við líka yfir því að þessi maður skuli fá uppreist æru. Þetta er algjörlega út í hött að æran skuli rétt við í einhverju undarlegu ferli í gegnum, ég veit ekki hvað,“ sagði Bergur sem kallar eftir upplýsingum um það hvað gerðist í aðdraganda þess að Róberti var veitt uppreist æra.

„Það stendur í lögunum að ef einhver, sem hefur hlotið dóm sem er svívirðilegur að almenningsálitinu, ætlar að fá uppreist æru þurfi að fá vottorð fá tveimur valinkunnum einstaklingum. Síðan fer eitthvað ferli í gegnum dómsmálaráðuneytið og dómsmálaráðherra þarf að skrifa undir það og svo forsetinn,“ sagði Bergur og bætti við að fjölskyldan hafi ekki vitað neitt fyrr en málið birtist í fjölmiðlum síðdegis í gær.

Hann ítrekar að honum finnist þessi niðurstaða röng og ósanngjörn og kom inn á það að brotin hafi beinst gegn einstaklingum, stúlkum undir lögaldri, sem eru veikar fyrir. Dóttir hans hafi til að mynda lent í einelti þegar hún var yngri.

„Ég hef hvergi séð iðrun“

Bergur sagði aukinheldur að Róbert hafi aldrei sýnt iðrun vegna brotanna. „Ég hef hvergi séð iðrun. Í þessum Hæstaréttardómi núna segir að hann það skipti hann máli að geta skilið við þann kafla í lífi sínu sem hafi leitt til dóms og liður í því sé að endurheimta málflutningsleyfið. Þetta er svona sterkasta iðrunin sem hefur komið frá honum og snýr allt að honum eins og hann sé fórnarlamb okkar og fórnarlamb dætra okkar. Ég skil ekki af hverju allar þessar girðingar sem eiga að vera til hjá okkur, dómsmálaráðuneytið og síðan forseti og síðan Hæstiréttur, að það skuli ekki duga til að vernda börnin okkar.“

Hún hefur alltaf glímt við þetta og losnar ekkert undan þessu.

Bergur sagði að dóttir hans hafi glímt við kvíða og greinst með áfallastreitu eftir að brotið var gegn henni. „Það er ákveðin lykt og ákveðnar aðstæður þar sem hún hrekkur á sama stað aftur. Hún var greind með áfallastreitu á sínum tíma og á meðan á málinu stóð þá vorum við inni á BUGL að þar reyndi hún að kveikja í sér inni á klósetti og fór í öryggisvistun á geðdeild á meðan á öllu þessu stóð. Hún hefur alltaf glímt við þetta og losnar ekkert undan þessu.“

Kallar eftir upplýsingum

Þegar Bergur var spurður hvort fjölskyldan ætlaði eða gæti gert eitthvað, sagði hann: „Ég bara veit það ekki. Ég talaði nú við fyrrverandi réttargæslukonu dóttur minnar í gær og hún fór yfir dóminn svona yfirvegað. Hún segir náttúrulega að hann hafi hlotið uppreist æru og það sé forsendan fyrir því að hann fái réttindin aftur. Það á að vera önnur girðing sem er Lögmannafélagið sem fær ekki að fjalla um þetta,“ sagði Bergur og bætti við að fjölmiðlar væru svo enn ein girðingin eins og hann orðaði það.

„Ég veit ekki hvað við getum gert en það sem ég vil fá að vita er hvaða valinkunnu einstaklingar eru á vottorðinu sem fer í dómsmálaráðuneytið, hvernig þetta var unnið og hver rökin eru í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma fyrir því að hann fái uppreist æru.“

Þegar Bergur var spurður að lokum að því hvort hann tryði á réttlætið, sagði hann:
„Ég heyri í réttlætinu og ég skil réttlætið. Við höfum lög en þau byggja líka á hefðum og fyrri dómum og ákveðinni menningu og ef við höfum hátt og ef við reynum að setja fótinn niður þá getum við snúið þessu við. Ég trúi því, já.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat