fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Þetta reddast ekki alltaf

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 21. mars 2017 08:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta reddast“ hugsunarhátturinn hefur löngum verið talinn einkenna Íslendinga. Hann er mjög áberandi þegar kemur að málefnum ferðamanna. Þar er eins og þurfi enga áætlun og engar aðgerðir, viðhorfið er að allt muni þetta bjargast. Sofandahátturinn hefur verið nær algjör enda stefnir í óefni. Einstaka sinnum er eins og stjórnvöld rumski og þá tuldra þau um átak og áætlanir og nauðsyn á heildarsýn, en hafa ekki fyrr sleppt orðinu en þau falla aftur í djúpan svefn. Síðasta ríkisstjórn kom ekki skikk á ferðamálin, stóð sig reyndar afburða illa í þeim málaflokki, og ný ríkisstjórn virðist ætla að verða jafn aðgerðalítil. Á meðan svo er láta náttúruperlur landsins á sjá vegna álags og það sama má segja um vegakerfið, sem var nú svo sem ekki beysið fyrir. Stórlega skortir á að gætt sé að öryggi ferðamanna. Vissulega kostar fjármuni að vernda náttúru, byggja upp vegakerfi og auka öryggi, en það er skylda stjórnvalda að sjá um að það sé gert.

Á dögunum varð uppi fótur og fit þegar fréttist að einhverjir erlendir ferðamenn hefðu afbókað ferðir hingað til lands. Þeir sem helst hafa grætt á ferðamönnum, og þeir eru afar margir, supu hveljur þegar þeir sáu að hugsanlega væru þeir að missa spón úr aski sínum. Ástæðan fyrir þessum afbókunum var sögð vera styrking krónunnar sem forystumenn fyrirtækja í sjávarútvegi og ferðamennsku tala um eins og skelfilegan hlut. Ekki er víst að landsmenn taki undir það, enda felur styrking krónunnar í sér ýmiss konar kjarabót fyrir þá.

Við hljótum að spyrja okkur að því hvort við ráðum við að taka við þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað streyma. Það er ekkert stórkostlegt áhyggjuefni ef ferðamönnum fækkar nokkuð því vel má halda því fram að þeir hafi verið of margir.

Græðgisfull ferðaþjónusta er ekki það sem við Íslendingar þurfum. Hún mun alltaf koma í bakið á okkur. Um allt land er verið að selja erlendum ferðamönnum kaffi og meðlæti á uppsprengdu verði. Þar er styrkingu krónunnar ekki um að kenna, heldur græðgi þeirra sem selja. Þeir okruðu þegar krónan var veik og okra enn þegar krónan er sterk. Íslendingar sjá vel við þessu okri og afþakka rándýrt kaffi og litla kökusneið sem kostar það sama og heil terta í bakaríi. Erlendir ferðamenn eru ekki bjánar og sjá venjulega þegar verið er að hafa þá að féþúfu. Þeir snúa ekki aftur á staðinn þar sem reynt var að féfletta þá.

Hlutirnir reddast ekki alltaf. Það þarf að hafa fyrir því að hafa þá í lagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum