fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Börnum lofað ókeypis áfengi gegn því að kjósa í kosningu Heimdallar

Skilaboðum hefur rignt yfir ólögráða nemendur í Menntaskólanum við Sund þar sem þau eru boðin í partý með fríu áfengi fyrir alla EF þau kjósa í dag, föstudag.

Kristín Clausen
Föstudaginn 10. mars 2017 10:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Steinar formaður er í framboði og ég ætlaði að biðja þig um að gera mér þann greiða að mæta og kjósa. Eftir kosningarnar verður geggjað MS partý, í geggjuðum sal og frítt áfengi fyrir alla. Þú og allir vinir þínir eru velkomin í þetta „huge“ partý EF þið eruð til í að kjósa.“

Þetta segir meðal annars í Facebook skilaboðum sem 17 ára stúlka, sem er nemandi Menntaskólans við Sund sendi öðrum 16 ára nemanda skólans í gærkvöldi. Þá hefur DV undir höndum fleiri skilaboð til nemanda þar sem lagt er áherslu á að frítt áfengi sé í boði fyrir unglingana. DV fékk skilboðin frá heimildarmönnum sem allir óska nafnleyndar.

Ókeypis áfengi fyrir börn yngri en 18 ára

Tilefni skilaboðanna er smölun menntaskólanema fyrir formannskosningar Heimdallar, Félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Kosningarnar fara fram í Valhöll í dag, föstudag, klukkan 16. Eftir kosningarnar sjálfar verður haldið heljarinnar partý þar sem ókeypis áfengi er á boðstólnum.

Formaður nemendafélags Menntaskólans við Sund, Steinar Ingi Kolbeins, er á lista sem Friðrik Þór Gunnarsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir leiða í framboði Heimdallar.

Smala fyrir formann MS

Félögum Steinars er mikið í mun um að hann verði kosinn. Í gær gengu skilboð, líkt og þau sem birtast hér að neðan, manna á milli á Facebook þar sem börn, undir lögaldri, eru hvött til að mæta í partý þar sem frítt áfengi verður á boðstólnum fyrir alla. Áfengisaldur á Íslandi eru 20 ár. Stór hluti þeirra sem hafa nú þegar meldað sig í kosningapartýið eru undir lög- og áfengisaldri.

Þau Friðrik Þór og Elísabet hafa deilt viðburðinum á aðalsíðu framboðsins. Þar kemur fram að léttar veitingar verði í boði. Allir sem eru á aldrinum 15 til 35 ára hafa kosningarétt í kosningunum sem líkt og fyrr segir fara fram í Valhöll næstkomandi föstudag.

Í samtali við DV þvertekur Steinar Ingi fyrir það að fólk á hans vegum sé að smala krökkum í MS partý í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins annað kvöld. „Það fær enginn bjór sem er undir tvítugu. Einhverjir krakkar sem hafa verið að hjálpa okkur í baráttunni eru undir aldri. Ég hafði ekki hugmynd um að þau settu þetta svona fram.“

Þá segir Steinar:

„Það passar ekki það verði MS partý en þegar krakkar eru að hringja og senda skilaboð sín á milli þá setja þau oft saman einfalt mál.“

Steinar, sem verður tvítugur í sumar, segist sjálfur vera byrjaður að drekka áfengi. „Þegar krakkar heyra að einhver ætli að fá sér bjór, nýta þau tilefnið og ákveða sjálf að fá sér bjór. Ég myndi að halda að það væri líklegasta skýringin á þessu. Sjálfur verð ég í vinnunni annað kvöld.“

Hann viðurkennir fúslega að það væri óábyrgt, í stjórnmálastarfi, að halda menntaskólapartý þar sem unglingum undir áfengis- og lögaldri er boðið gegn því að það kjósi. „Það er óábyrgt en það er ekki það sem við erum að gera. Við ætlum ekki að fylla allan yngri helming Menntaskólans við Sund til að vinna kosningar. Það er ekki stefnan.“

Lögum og reglum verður fylgt

Í svari frá Friðriki Þóri Gunnarssyni, formannsefni framboðslistans, þar sem hann var spurður út í það hvort honum væri kunnugt um að börnum undir áfengis- og lögaldri hefði verið boðið í „geggjað partý“ gegn því að kjósa segir Friðrik:

„Í Heimdallarkosningum eru allir kjörgengir á aldrinum 15-35 ára. Framboðslistinn okkar samanstendur af fólki á aldursbilinu 17-29. Við höfum svo haft stórt net af velunnurum sem hafa aðstoðað í því að hringja út. Við ætlum að halda kosningakaffi þar sem við ætlum að skella upp grillinu og bjóða upp á hamborgara. Fólk sem hefur náð 20 ára aldri er að sjálfsögðu frjálst að koma með eigin veigar,“

Þá kveðst Friðrik ekki þekkja þetta málið en því miður sé ekki á þeirra færi að hafa fullkomna stjórn á því hverjum er boðið í hvað.

„Við munum hins vegar passa upp á að öllum lögum og reglum sé fylgt og höfum brýnt það fyrir frambjóðendum og öðrum sem aðstoða.“

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem DV greinir frá því að grunur leiki á að frambjóðendur ungra sjálfstæðismanna séu að bjóða ungmennum áfengi til að koma á kjörstað. Haustið 2015 sagði í frétt DV:

Í gærkvöldi fóru fram formannskosningar Heimdallar, Félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Fjöldi þeirra sem mættu, og tóku þátt í kosningunum, voru ungmenni á framhaldsskólaaldri. Móðir eins drengs, sem er aðeins 16 ára, hringdi í gærkvöldi á lögregluna eftir hún komast að því að frambjóðendur væru að gefa ungmennum áfengi.

„Ég er hreint út sagt brjáluð yfir þessu siðleysi, ég sé bara rautt,“ sagði móðirin sem hringdi á lögregluna í samtali við DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi