fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Góð sending frá Vinstri grænum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 3. febrúar 2017 08:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú grein almennra hegningarlaga (95. grein) sem boðar sektir eða fangelsi við því að smána erlenda þjóð eða þjóðhöfðingja erlendra ríkja er einkennileg. Það er einkar vandræðalegt til þess að vita að í eitt af þeim fáu skiptum sem reynt hefur á ákvæðið var þegar ritsnillingurinn Þórbergur Þórðarson var dæmdur fyrir að hafa kallaði Adolf Hitler blóðhund. Þar var ekkert ofmælt, eins og okkur er öllum ljóst og reyndar heimsbyggðinni allri.

Ef þingmenn hefðu staðið vaktina hefði verið búið að fella þetta fáránlega ákvæði úr gildi fyrir löngu. Það eiga ekki að vera til sérlög um að refsivert sé að móðga þjóðhöfðingja. Því ber að fagna að þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram frumvarp þess efnis að þessi grein hegningarlaga standi ei meir. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram en náði ekki fram að ganga, sennilega vegna sinnuleysis þingmanna. Þetta er frumvarp sem full samstaða ætti að vera um á þingi. Við hljótum að gefa okkur að þingmenn séu allir talsmenn tjáningarfrelsis. Hér er komin góð sending frá Vinstri grænum og henni á að taka fagnandi.

Samkvæmt hinni óþörfu og furðulegu grein væri hægt að sekta þingmann Pírata, Ástu Guðrúnu Helgadóttur, fyrir þessi orð sem hún lét nýlega falla í ræðu á Alþingi: „Notum rétt orð þegar þau eiga við: Donald Trump er fasisti.“ Blessunarlega er samfélag okkar lýðræðisþjóðfélag og þar hefði Ásta Guðrún aldrei verið sektuð, hvað þá varpað í fangelsi fyrir dóm sinn um forseta Bandaríkjanna, því öllum er ljóst að þetta ákvæði almennra hegningarlaga er algjörlega úr takti við nútímahugsunarhátt. Samt er ákvæðið þarna ennþá.

Nú geta menn haft ólíkar skoðanir á orðum Ástu Guðrúnar um hinn mjög svo umdeilda forseta Bandaríkjanna. Vissulega má flokka orð hennar sem ókurteisi eða taktleysi, en alls ekki sem fúkyrðaflaum. Orðin eru að mörgu leyti skiljanleg. Donald Trump er talsmaður harðrar þjóðernisstefnu, hefur talað ítrekað niður til kvenna, flokkar múslima sem hryðjuverkamenn og viðhefur niðrandi ummæli um minnihlutahópa. Hann hefur horn í síðu frjálsra fjölmiðla og þráir greinilega að koma böndum á þá. Hann hefur engan veginn sýnt að hann sé sérstakur talsmaður mannréttinda. Frá því hann var formlega settur í embætti hefur hann tekið alls kyns ákvarðanir sem lýðræðislega þenkjandi fólki hugnast ekki. Það er ekki einkennilegt að þetta sama fólk leiði hugann að fasismanum þegar kemur að Donald Trump.

Vinstri græn hafa stigið gott skref með frumvarpi sínu um breytingu á 95. grein almennra hegningarlaga. Frumvarpið fær vonandi afgreiðslu og samþykki þingsins. Það verður saga til næsta bæjar ef einhver þingmaður leggst gegn því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“

Margir minnast Gests – „Hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“

Sturlungar minnast Guðmundar – „Fengum við að sjá þennan dreng blómstra“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu

Æpandi þögn lögreglu í Bauhaus-málinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum

Grunur um hættulega veirusýkingu í hundum á Egilsstöðum