fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Litaleikir Hannesar

Fréttir

Takk, Obama!

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 20. janúar 2017 08:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Barack Obama hóf síðasta blaðamannafund sinn sem forseti á því að hrósa fjölmiðlafólki, minnti á mikilvægi fjölmiðla og lagði áherslu á þá skyldu þeirra að spyrja gagnrýnna spurninga. Það er ómögulegt að sjá Donald Trump á sama stað að hrósa fjölmiðlamönnum en það hefur margsýnt sig að hann hefur sérstaka óbeit á þeim. Einkennilegar Twitter-færslur hans þar sem hann úthúðar mönnum með götustrákaorðbragði vekja endalausu furðu þegar haft er í huga að hann er kjörinn forseti Bandaríkjanna. Nýlega sagðist Trump tilneyddur til að tjá sig á Twitter því það væri fljótvirkasta leið hans til að svara óheiðarlegum fréttaflutningi um sig sem hann segir ekkert lát vera á. Það boðar aldrei gott þegar einstaklingur sem beitir sér af krafti gegn fjölmiðlum kemst í æðsta embætti hjá þjóð sinni. Það verður afar fróðlegt að sjá hvernig blaðamannafundir Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, munu fara fram – ef þeir þá á annað borð verða haldnir.

Vinsældir Barack Obama þegar hann nú hverfur úr embætti Bandaríkjaforseta eru miklar, nánast jafnmiklar og þegar hann tók við embætti. Þetta er merkilegt, því væntingarnar sem bundnar voru við Obama þegar hann var fyrst kjörinn voru svo gríðarlegar að þær voru alls óraunhæfar. Í farsælli forsetatíð sinni kom hann sannarlega ekki öllu í framkvæmd sem hann ætlaði sér og hefur iðulega, með réttu eða röngu, verið gagnrýndur fyrir dugleysi í utanríkismálum. Hann náði þó mikilvægum sáttum við Kúbu, sem hlýtur að teljast nokkurt afrek. Hann náði ekki árangri í hinu mikla baráttumáli sínu um herta byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Varla er hægt að ásaka hann fyrir það, enginn forseti hefði náð því máli í gegn, svo heiftarleg er afstaða byssueigenda og stuðningsmanna þeirra. Obama náði árangri með Obamacare, sem hann telur sjálfur að verði mesta arfleifð sín, en milljónir Bandaríkjamanna eiga fyrir vikið kost á tryggingum, sem þeir höfðu ekki áður. Hann hefur tekið einarða stefnu í loftslagsmálum og gerir sér grein fyrir þeim hættum sem að okkur steðja. Því miður eru ekki allir ráðamenn á sama máli og hann, þar á meðal eftirmaður hans.

Obama hefur verið ötull talsmaður mannréttinda, minnir stöðugt á jafnan rétt kynjanna og talar máli samkynhneigðra og minnihlutahópa. Hann fór fyrstur Bandaríkjaforseta í heimsókn í ríkisfangelsi og náðaði á valdatíma sínum í Hvíta húsinu fjölmarga einstaklinga sem sátu í fangelsi fyrir minni háttar brot. Síðast sýndi hann þann mikla drengskap að stytta dóm yfir uppljóstraranum Chelsea Manning.

Fáir eða engir stjórnmálamenn samtímans hafa útgeislun á við Barack Obama og ekki búa þeir yfir málsnilld hans. Innblásnar ræður hans hafa kveikt í fjölmörgum einstaklingum víða um heim og blásið þeim baráttuanda í brjóst. Hið sama má segja um hina stórgáfuðu konu hans, Michelle.

Takk, Obama!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Umferðaróhöpp og ölæði – Öskraði í anddyri húss

Umferðaróhöpp og ölæði – Öskraði í anddyri húss
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingólfur ýtti starfsmanni Eflingar: „Við lítum það mjög alvarlegum augum ef hendur eru lagðar á starfsfólk félagsins“

Ingólfur ýtti starfsmanni Eflingar: „Við lítum það mjög alvarlegum augum ef hendur eru lagðar á starfsfólk félagsins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjáðu þegar strompurinn á Akranesi fellur

Sjáðu þegar strompurinn á Akranesi fellur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur tengdur dularfullu mannshvarfsmáli á Spáni: „Stenst ekki að bróðir minn hafi horfið af yfirborði jarðar“

Íslendingur tengdur dularfullu mannshvarfsmáli á Spáni: „Stenst ekki að bróðir minn hafi horfið af yfirborði jarðar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ók ofan í húsgrunn – Gluggagægir læddist um Breiðholt

Ók ofan í húsgrunn – Gluggagægir læddist um Breiðholt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hissa á að Zidane sé mættur aftur

Hissa á að Zidane sé mættur aftur