Mánudagur 18.nóvember 2019
Fréttir

Bjóða lífeyrissjóðum að kaupa 20–40% hlut í Arion banka

Kaupþing vill selja stóran hlut innan næstu tveggja mánaða – Kröfuhafar kaupi 10–20% hlut í bankanum – Stjórnandi hjá Kaupþingi í stjórn Arion banka

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 13. september 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaupþing hyggst bjóða íslenskum lífeyrissjóðum að kaupa af félaginu 20 til 40% hlut í Arion banka en sé tekið mið af núverandi bókfærðu eigin fé bankans gæti slíkur eignarhlutur selst fyrir 40 til 80 milljarða króna. Á fundi sem ráðgjafar og forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóða landsins áttu með fulltrúum Kaupþings í síðustu viku kom fram að stjórnendur félagsins telji ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að ganga frá sölu á stórum hlut í bankanum til hóps lífeyrissjóða strax í nóvember næstkomandi, fljótlega eftir kosningar til Alþingis, samkvæmt heimildum DV. Lífeyrissjóðirnir áforma að gefa Kaupþingi svar síðar í þessum mánuði um hvort þeir séu reiðubúnir að ganga til kaupviðræðna á grundvelli þeirra tillagna sem Kaupþing hefur kynnt sjóðunum.

Náist samkomulag við lífeyrissjóðina um að kaupa hlut í Arion banka þá gerir upplegg Kaupþings jafnframt ráð fyrir því að hluthafar félagsins, sem eru einkum ýmsir erlendir vogunarsjóðir, kaupi samtímis 10 til 20% hlut í bankanum á sama sölugengi og lífeyrissjóðunum býðst. Gangi þessi áform eftir þá gætu meðal annars bandarísku vogunarsjóðirnir Taconic Capital, York Capital, Och-Ziff Capital og Abrams Capital, stærstu kröfuhafar Kaupþings við samþykkt nauðasamninga um síðastliðin áramót, komist í eigendahóp Arion banka. Í dag á Kaupþing 87% hlut í bankanum í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil ehf. og þá fer Bankasýslan með 13% hlut í Arion banka fyrir hönd íslenska ríkisins.

Hærra verð, stærri hlutur

Hversu stór hlutur lífeyrissjóðunum mun standa til boða að kaupa af Kaupþingi – á bilinu 20 til 40% – ræðst af því á hvaða verði þeir eru tilbúnir að kaupa hlut í bankanum. Ef í ljós kemur að sjóðirnir vilja aðeins kaupa á gengi sem er talsvert undir einum miðað við bókfært eigið fé bankans, en það nam ríflega 199 milljörðum króna um mitt þetta ár, þá er talið ólíklegt að Kaupþing selji lífeyrissjóðunum meira en um 20% hlut í bankanum. Sá hlutur gæti hins vegar orðið stærri ef samkomulag næst við lífeyrissjóðina um sölugengi sem er nálægt bókfærðu virði bankans. Samkvæmt heimildum DV er það mat þeirra sem þekkja vel til stöðu mála að líklegt kaupverð kunni að vera á genginu 0,8 til 0,9 miðað við bókfært eigið fé Arion banka.

Þá gera áætlanir ráðgjafa Kaupþings ráð fyrir því að í kjölfar sölu á hlut til lífeyrissjóða og stórra hluthafa Kaupþings í lokuðu útboði (e. private placement) verði innan fárra mánaða haldið almennt hlutafjárútboð þar sem innlendum og erlendum fjárfestum mun bjóðast að eignast hlut í bankanum. Vinna við undirbúning að slíku útboði er hafin og þá hefur Arion banki einnig unnið að því að koma upp sérstöku gagnaherbergi fyrir mögulega kaupendur að bankanum. Bandaríski fjárfestingarbankinn Citigroup, eins og DV greindi fyrst frá í maí síðastliðnum, var ráðinn til að vera stjórn og stjórnendum Arion banka til ráðgjafar við söluferlið.

Ríkið með forkaupsrétt að hlut Kaupþings

Steinar Þór Guðgeirsson Eftirlitsmaður ríkisins inni í Kaupþingi

Steinar Þór Guðgeirsson Eftirlitsmaður ríkisins inni í Kaupþingi

Komi sú staða upp að til standi að selja einhvern hlut Kaupþings í Arion banka til fjárfesta á mun lægra verði en bókfært eigið fé bankans þá geta íslensk stjórnvöld gripið til þess ráðs að stíga inn í söluferlið og nýtt sér ákvæði um forkaupsrétt. Í dag á ríkið fyrir 13% hlut í Arion banka á meðan eignarhlutur Kaupþings er 87%.

Samkvæmt þeim stöðugleikaskilyrðum sem kröfuhafar Kaupþings féllust á í tengslum við nauðasamning slitabúsins í fyrra, eins og áður hefur verið upplýst um í DV, er að finna skilmála sem veita stjórnvöldum heimild til að ganga inn í kaup á hlut í bankanum í því skyni að verja fjárhagslega hagsmuni ríkisins við sölu á Arion banka. Þannig mætti ímynda sér að stjórnvöld kysu að sitja ekki aðgerðarlaus hjá ef Kaupþing hyggst til dæmis selja hlut til lífeyrissjóða og annarra fjárfesta á genginu 0,6 miðað við bókfært eigið fé.

Íslenska ríkið á sem kunnugt er mikilla hagsmuna að gæta við sölu á Arion banka vegna afkomuskiptasamnings sem gerður var við kröfuhafa slitabúsins samhliða því að þeir féllust á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Ef hlutur Kaupþings verður seldur í samræmi við bókfært eigið fé Arion banka, eins og það var um mitt þetta ár, þá mun ríkið fá um 117 milljarða króna í sinn hlut. Hluthafar Kaupþings myndu á móti fá um 56 milljarða og er þeim heimilt að skipta allri þeirri fjárhæð í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi. Söluandvirðið sem rennur til ríkisins verður hins vegar 85 milljarðar ef hluturinn selst á gengi sem nemur 0,6 miðað við núverandi bókfært eigið fé bankans. Hæstaréttarlögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson, sem var formaður skilanefndar Kaupþings á árunum 2008 til 2012 og hefur unnið sem ráðgjafi Seðlabankans síðustu misseri, er sérstakur eftirlitsmaður inni í Kaupþingi og á að tryggja að ekki verði gengið á hagsmuni ríkisins í söluferlinu.

Af hálfu stjórnenda Kaupþings eru væntingar um að ýmsir erlendir fjárfestingarsjóðir séu áhugasamir um að fjárfesta í Arion banka. Til marks um það er meðal annars horft til þess að ávöxtunarkrafan á skuldabréf íslensku viðskiptabankanna á erlendum fjármagnsmörkuðum hefur lækkað mikið á síðustu mánuðum, einkum í tilfelli Arion banka. Þannig var ávöxtunarkrafan á síðustu skuldabréfaútgáfu bankans í evrum, sem var gefin út í apríl síðastliðnum með 270 punkta álagi yfir millibankavöxtum, komin niður í 120 punkta í síðustu viku, samkvæmt tölum frá Bloomberg-fréttaveitunni. Þessi jákvæða þróun, sem er til marks um aukna ásókn í erlendar skuldir íslensku bankanna, gæti að sama skapi verið vísbending um að erlendir aðilar muni sýna því áhuga á að fjárfesta í hlutabréfum banka hér á landi á komandi mánuðum og misserum.

Sala og alþingiskosningar

Það var undir lok síðasta árs sem hópur lífeyrissjóða, leiddur af stærstu lífeyrissjóðum landsins, hóf óformlegar viðræður við slitastjórn Kaupþings um möguleg kaup sjóðanna á hlut í Arion banka. Þær þreifingar náðu hins vegar aldrei lengra en að vera aðeins kurteisisviðræður enda var það afstaða stærstu kröfuhafa Kaupþings á þeim tíma að slitastjórnin hefði í reynd ekkert umboð til að eiga í viðræðum við hugsanlega kaupendur að bankanum – það væri verkefni sem hlyti að vera á forræði stjórnar hins nýja eignarhaldsfélags sem brátt tæki til starfa. Eftir að sú stjórn var kjörin til að stýra Kaupþingi um miðjan mars síðastliðinn voru viðræður við lífeyrissjóðina fljótlegar settar á ís.

Sú staða hefur núna tekið breytingum eftir að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna – Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Frjálsi – ásamt ráðgjöfum sínum, Þórarni V. Þórarinssyni hæstaréttarlögmanni og Friðriki Jóhannssyni, eiganda ráðgjafarfyrirtækisins Icora Partners, áttu fund með Kaupþingi síðdegis á mánudaginn í liðinni viku. Á fundinum fóru fulltrúar Kaupþings yfir tillögur sínar að næstu skrefum í söluferlinu sem fela sem fyrr segir meðal annars í sér að bjóða sjóðunum að kaupa 20 til 40% hlut í bankanum. Sumir lífeyrissjóðanna telja hugmyndir Kaupþings um að stefna að því að selja stóran hlut í bankanum innan næstu tveggja mánaða ekki koma til að ástæðulausu. Þær séu til marks um að Kaupþing telji mikilvægt að ganga frá sölu áður en ný ríkisstjórn tekur við völdum eftir kosningar til Alþingis þar sem hluthafar félagsins óttist hvaða áhrif það hefði fyrir verðmæti bankans og söluferlið almennt ef næsta stjórn verður undir forystu Pírata. Stjórnendur og ráðgjafar Kaupþings gefa hins vegar lítið fyrir slíka umræðu, samkvæmt heimildum DV. Kaupþing sé einfaldlega tilbúið að hefja formlegt söluferli á hlut sínum í Arion banka og þrátt fyrir væntingar um að stíga stórt skref við að selja verulegan eignarhlut strax í nóvember næstkomandi þá hafi sú tímasetning ekkert með boðaðar alþingiskosningar að gera.

Undir tímapressu

Rétt eins og greint var frá í DV í síðustu viku þá hefur Kaupþing fengið Benedikt Gíslason, fyrrverandi aðstoðarmann og ráðgjafa fjármála- og efnahagsráðherra, til liðs við sig sem ráðgjafa við söluferlið á Arion banka. Benedikt var einn helsti ráðgjafi íslenskra stjórnvalda við vinnu að áætlun um losun fjármagnshafta síðustu ár og bætist hann í hóp fulltrúa frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley sem hafa um talsvert skeið unnið að undirbúningi að sölu á eignarhlut Kaupþings í bankanum.

Ekki þarf að koma á óvart að stjórnendur Kaupþings vilji núna hefja sem fyrst sölu á hlut félagsins í Arion banka. Eigendur Kaupþings hafa ríka hagsmuni af því að þeim takist að selja stóran hlut í Arion banka áður en kemur að fyrsta gjalddaga á 84 milljarða króna veðskuldabréfi sem Kaupþing gaf út til stjórnvalda sem hluta af stöðugleikaframlagi slitabúsins undir lok síðasta árs. Skuldabréfið er til þriggja ára, sem er í samræmi við þann tímaramma sem hluthafar Kaupþings hafa til að selja bankann, og ef þeir hafa ekki greitt inn á bréfið fyrir janúar 2018 þarf Kaupþing að inna af hendi samtals um níu milljarða króna til ríkisins. Sú fjárhæð jafngildir vaxtakostnaði af skuldabréfinu yfir tveggja ára tímabil.

Skuldabréfið ber 5,5% vexti og er Kaupþingi aðeins heimilt að greiða upp bréfið fyrir andvirði af sölu á hlut félagsins í Arion banka. Áætlanir stjórnenda Kaupþings gera ráð fyrir að félagið verði búið að greiða upp skuldabréfið áður en kemur að fyrsta gjalddaga þess og því er ljóst að þeir þurfa að selja hlut í bankanum fyrir að lágmarki 84 milljarða króna áður en sá tímapunktur rennur upp í árslok 2017.

Heildareignir Kaupþings námu um mitt þetta ár samtals 475 milljörðum króna og er 87% hlutur í Arion banka verðmætasta eign félagsins. Stærsti einstaki hluthafi Kaupþings, og jafnframt langsamlega áhrifamesti eigandi félagsins, er bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital en það er sjóðsstjórinn Keith Magliana sem fer fyrir fjárfestingu sjóðsins í Kaupþingi.

John Madden í stjórn Arion banka

Keith Magliana Fékk John P. Madden til Kaupþings

Keith Magliana Fékk John P. Madden til Kaupþings

Bandaríkjamaðurinn John P. Madden, sem tók til starfa í framkvæmdastjórn Kaupþings fyrr á þessu ári, mun taka sæti í stjórn Arion banka á hluthafafundi bankans sem fer fram næstkomandi fimmtudag. Verður stjórn bankans þá í kjölfarið skipuð átta manns. John P. Madden verður þriðji erlendi stjórnarmaður Arion banka og jafnframt sá eini í stjórn bankans með bein tengsl við Kaupþing. Ásamt því að vera einn af æðstu stjórnendum Kaupþings þá situr hann einnig í stjórn norska olíufélagsins Noreco.

John P. Madden, sem stýrði um árabil framtakssjóðum hjá Arcapita Group í London, var ráðinn til Kaupþings fyrir tilstuðlan Keith Magliana, sjóðsstjóra vogunarsjóðsins Taconic Capital, áhrifamesta hluthafa Kaupþings, eftir að slitabúið kláraði nauðasamninga undir lok síðasta árs. Skipan hans í stjórn Arion banka, sem á sér nokkurn aðdraganda, er til marks um að stjórnendur og hluthafar Kaupþings vilji hafa meira afgerandi áhrif innan stjórnar bankans samhliða því að þeir vinna að því að selja 87% hlut félagsins á næstu misserum, að sögn þeirra sem þekkja vel til innan Kaupþings.

Eignarhlutur Kaupþings í Arion banka er verðmætasta eign félagsins. Eftir að hafa skilað tæplega 50 milljarða króna hagnaði á árinu 2015 þá hefur afkoma bankans það sem af er þessu ári valdið vonbrigðum. Þannig var hagnaður bankans á fyrri árshelmingi 9,8 milljarðar króna samanborið við 19,3 milljarða á sama tímabili fyrir ári. Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru undir væntingum og þá þurfti bankinn að bókfæra umtalsvert tap af hlutabréfaeign sinni í skráðum félögum. Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi minnkaði um fimm milljarða frá fyrra ári og var 2,8 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var því aðeins 2,8% á tímabilinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Svona búa Samherjar

Ekki missa af

Húðlatur Hazard
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ráðherrar og þingmenn heimsóttu Samherja – Sjáið myndirnar

Ráðherrar og þingmenn heimsóttu Samherja – Sjáið myndirnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona búa Samherjar

Svona búa Samherjar