fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Vilja lífeyrissjóðina inn í Hörpuhótelið

Bandaríkjamennirnir vilja íslenska fjárfesta og að um 75% fjármagnsins komi héðan

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. ágúst 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsvarsmenn lúxushótelsins sem byggja á við Hörpu hafa boðið stærstu lífeyrissjóðum landsins að fjárfesta í verkefninu. Fulltrúar sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis hf. hafa fyrir hönd þeirra boðið stjórnendum sjóðanna að taka þátt í fjárfestingu upp á 30 milljónir dala, jafnvirði 3,6 milljarða króna, sem mun tryggja þeim sem að henni koma alls um 75% af hlutafé hótelsins. Byggingarreitur hótelsins, sem á fullklárað að kosta 130 milljónir dala, er í eigu bandaríska fasteignafélagsins Carpenter & Company sem íslenski fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson er hluthafi í. Samkvæmt heimildum DV ætla eigendur fasteignafélagsins að leggja fram um tíu milljónir dala, um 1,2 milljarða króna, inn í verkefnið. Arion banki mun hins vegar lána þær rúmlega 90 milljónir dala, jafnvirði ellefu milljarða króna, sem upp á vantar til að fjármagna uppbyggingu hótelsins.

Skrifað var undir samninga um kaup Carpenter & Co. á hótelreitnum við Hörpu í ágúst 2015. Richard L. Friedman, forstjóri bandaríska fasteignafélagsins, sem stendur á miðri mynd, er hluthafi í verkefninu ásamt Eggert Dagbjartssyni sem stendur lengst til hægri.
Við undirritun Skrifað var undir samninga um kaup Carpenter & Co. á hótelreitnum við Hörpu í ágúst 2015. Richard L. Friedman, forstjóri bandaríska fasteignafélagsins, sem stendur á miðri mynd, er hluthafi í verkefninu ásamt Eggert Dagbjartssyni sem stendur lengst til hægri.

Fengu kynningu

Starfsmenn Stefnis, sem er í eigu Arion banka, hafa meðal annars fundað með stjórnendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV), Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildis – lífeyrissjóðs. Framkvæmdastjórar LSR og Gildis staðfesta í samtali við DV að starfsmenn í eignastýringu þeirra hafi í vor fengið kynningu á verkefninu. Samkvæmt upplýsingum DV á að ljúka fjármögnun hótelsins fyrir lok næsta mánaðar og hefur lífeyrissjóðunum verið boðið að fjárfesta í gegnum framtakssjóðinn SÍA III sem er rekinn af Stefni. Hluthafar í sjóðnum samanstanda af lífeyrissjóðum, tryggingafélögum og ýmsum umsvifamiklum einkafjárfestum.

„Starfsmenn eignastýringar LSR fengu kynningu á þessu verkefni en þetta hefur ekki verið tekið til neinnar skoðunar eða ákvarðanatöku hjá okkur. Málið er því á algjöru frumstigi og hefur ekki verið rætt í stjórn sjóðsins. Við fáum kynningu á mjög mörgum fjárfestingarkostum og sumir verða að veruleika og aðrir ekki,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR.

„Verkefnið hefur verið kynnt fyrir okkur en við höfum ekki tekið neina endanlega ákvörðun en eignastýringin er að koma úr sumarleyfi þessa daga,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.

Keyptu næstu lóð

Samningar um kaup Carpenter & Company á lóðinni voru undirritaðir í ágúst 2015 og var þá greint frá aðkomu Eggerts Dagbjartssonar, hluthafa í bandaríska fasteignafélaginu, að verkefninu. Lóðin var áður í eigu Kolufells ehf. en er nú skráð á íslenskt félag Carpenter, Cambridge Plaza Hotel Company ehf. Kolufell hélt eftir öðrum byggingarreit við Hörpu sem átti áður einnig að fara undir hótelið en annar fjárfestahópur sem vildi byggja þar hafði áform um mun stærri byggingu en nú er gert ráð fyrir.

Eggert og Hreggviður Jónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Festis, keyptu í lok síðasta mánaðar 80% hlutafjár í Kolufelli í gegnum félagið Apartnor ehf. Í tilkynningu Arion banka, sem átti hlutaféð í Kolufelli ásamt Mannviti og T.ark Arkitektum, kom fram að Kolufell hefur hafið framkvæmdir við íbúðar- og verslunarhúsnæði á lóð félagsins við hlið hótelreitsins. Hreggviður segist í samtali við DV nú einnig skoða að fjárfesta í hótelverkefninu.

Fjárfestirinn Hreggviður Jónsson segir svo geta farið að hann fjárfesti í byggingu Marriott Editions-hótelsins.
Keypti í Kolufelli Fjárfestirinn Hreggviður Jónsson segir svo geta farið að hann fjárfesti í byggingu Marriott Editions-hótelsins.

Mynd: Vísir.is

„Þetta var ein lóð í byrjun en síðan var henni skipt upp. Önnur var fyrir hótelið en hin íbúðir og verslanir. Ég hef verið í viðræðum um að koma þar inn líka en það klárast ekki fyrr en í lok þessa mánaðar. Stefnir er með það verkefni að klára fjármögnun á þeim íslenska parti sem kemur að hótelverkefninu. Það er talað um að um 80% af hlutafénu verði íslenskt. Það er verið að vinna með þá tölu,“ segir Hreggviður.

Það er talað um að 80% af hlutafénu verði íslenskt.

Vilja ekki tjá sig

Reiknað er með að fimm stjörnu Marriott Edition-hótelið hefji starfsemi á Hörpureitnum árið 2019. Þar verða 250 herbergi, veitingastaðir, heilsulind og veislu- og fundarsalir. Eigendur Carpenter & Company vildu ekki svara því hvort þeir hafi leitað til lífeyrissjóða hér á landi þegar DV óskaði eftir svörum. Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter, er hluthafi í Cambridge Plaza Hotel Company í gegnum erlend félög. Morgunblaðið fullyrti í maí síðastliðnum að Bill Gates, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Microsoft, hefði ákveðið að fjárfesta í framkvæmdinni en ekkert kom fram um hlutdeild hans í verkefninu. Eggert Dagbjartsson starfar í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum þar sem hann hefur búið síðustu áratugi og komið að ýmsum fjárfestingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis