– Býst við að Isavia afhendi forvalsgögnin – Tekjur bakarísins hrundu
„Lögfræðikostnaðurinn nemur nú um 5,6 milljónum króna en ég gæti ekki sagt þér hvað það hafa farið margir klukkutímar í þetta mál,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, aðspurð hvað fyrirtæki hennar hafi greitt í lögfræðikostnað vegna kröfu þess um að Isavia afhendi gögn sem varða forval um útleigu á verslunarhúsnæði í Leifsstöð.
„Áður en umsókn okkar um pláss í flugstöðinni var hafnað vorum við svo bjartsýn að við stofnuðum bakarí, Kruðerí, en tekjur þess drógust náttúrulega saman um 50% þegar við fórum úr Leifsstöð. Þótt bakaríið hafi ekki eingöngu verið stofnað með Leifsstöð í huga getur þú rétt ímyndað þér hversu erfitt það er þegar tekjugrundvöllurinn dettur svo mikið niður á fyrsta starfsári,“ segir Aðalheiður.
Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti fyrir viku úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að Isavia skuli afhenda Kaffitári gögn úr forvali sem ríkisfyrirtækið réðst í árið 2014. Var þá haldin samkeppni um verslunarrými í Leifsstöð og öðrum rekstraraðilum en Kaffitári á endanum boðið að opna. Aðalheiður hefur síðan þá krafist frekari rökstuðnings Isavia og aðgangs að gögnum sem umsækjendur sendu inn í forvalinu. Alls hafa sjö úrskurðir eða dómar fallið í málinu, bæði í héraðsdómi og hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, og alltaf hefur kröfum eða málatilbúnaði Isavia verið hafnað. Ragnar H. Hall, lögmaður Kaffitárs, sagði í samtali við Morgunblaðið á fimmtudag að fyrirtækið hefði óskað eftir því við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að aðför verði gerð að gögnunum.
„Það eru nú að verða komin tvö ár síðan okkur var neitað um pláss. Auðvitað er maður sár þegar maður tapar og það getur vel verið að við höfum ekki unnið eða haft það sem til þurfti. En Isavia vill ekki segja okkur hvað við þurftum að gera til að bæta okkur. Þetta var ekki gegnsætt ferli, þrátt fyrir að Isavia heyri undir upplýsingalög, og það er mergur málsins. Núna er búið að senda bréf til sýslumannsins um aðfararbeiðnina og bíðum við nú eftir því að hann fari með lögregluvaldi og sæki gögnin. Ég trúi ekki öðru en að Isavia hlíti dómnum,“ segir Aðalheiður.
Isavia hefur alla tíð hafnað kröfu Aðalheiðar og nú lýst því yfir að úrskurði héraðsdóms verði skotið til Hæstaréttar. Stór hluti tekna Kaffitárs kom frá veitingasölu í Leifsstöð og svarar forstjórinn aðspurður að það sé ólíklegt að fyrirtækið sæki aftur um pláss í flugstöðinni.
„Málið er að Isavia þurfti ekki að fara þessa forvalsleið því fyrirtækið getur handvalið þá sem það vill þarna inn. En ef sömu stjórnendur verða þarna við völd þá eigum við ekkert inni hjá þeim. Það er sama hvar þú ert, þú ert alltaf í samstarfi, og ég get ekki ímyndað mér að þeir vilji hafa mig í samstarfi. Þeir hafa þráast við í tæp tvö ár að láta mig hafa upplýsingar sem þeir eiga lögum samkvæmt að láta mig fá.“
Kaupfélag Suðurnesja vill eins og komið hefur fram byggja verslunarkjarnann Rósaselstorg skammt frá flugstöðinni. Áformin voru kynnt í byrjun þessa árs en kaupfélagið leitar enn samstarfsaðila sem gætu séð um rekstur veitinga- og kaffihúss.
„Við höfum aðeins skoðað þessar teikningar en ekki neitt alvarlega. Við erum með kaffibrennslu við Reykjanesbrautina og höfum aðeins velt fyrir okkur hvort við getum nýtt þá lóð betur. Svo erum við að opna annað Kruðerí á næstu vikum en rekstur bakarísins gengur vel þrátt fyrir þetta áfall á fyrsta rekstrarári þess.“