fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Reykjavíkurborg skiptir sér af tjáningu starfsmanna utan vinnutíma

Hildur Sverrisdóttir gagnrýnir harðlega tiltal sem mannréttindastjóri segir að starfsmönnum borgarinnar hafi verið veitt vegna meintrar hatursorðræðu

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 8. mars 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað sem mönnum finnst um ummælin, hver sem þau eru, þá er það aukaatriði. Þetta snýst um að Reykjavíkurborg skiptir sér af tjáningu starfsmanna þegar þeir eru ekki í vinnunni. Þar set ég punkt og maður verður hreinlega frekar þungt hugsi yfir slíku,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem bókaði á fundi mannréttindaráðs eftir að Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, Anna Kristinsdóttir, svaraði spurningum varaborgarfulltrúans vegna tiltals sem borgin hefur veitt starfsmönnum sínum vegna meints hatursáróðurs.

Hildur lagði fram fyrirspurn í átta liðum vegna viðtals við Önnu Kristinsdóttur, mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, við RÚV, þar sem hún sagði meðal annars:

„Það hefur komið fyrir að það hefur þurft að veita starfsmönnum okkar, eins og annarra eflaust, ákveðið tiltal vegna þess að menn hafa kannski farið offari í umræðunni.“

Í fyrirspurninni segir að í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar komi fram að Reykjavíkurborg líði ekki hatursorðræðu af hálfu starfsfólks, enda sé hatursorðræða brot á almennum hegningarlögum.

Sjá einnig: Vilja svör um tiltal vegna hatursfullra ummæla borgarstarfsmanna

Svörin eru óskýr og loðin að mati Hildar sem bókaði ásamt Magnúsi Sigurbjörnssyni að borgin hefði engan lagalegan grundvöll til þess að veita starfsmönnum sínum tiltal vegna meints hatursáróðurs. Þá bætir Hildur við að það varði við hegningarlög að viðhafa hatursáróður og eru til dómafordæmi hvað það varðar.

Þá vekur athygli að í síðustu spurningu Hildar er spurt hvort borgin komi upplýsingum um hatursorðræðu starfsmanna til lögreglu?

Svarið er einfalt: „Ekki svo vitað sé.“

Af þessu leiðir að Hildur telur að það þurfi að skýra þetta allverulega, enda tjáningarfrelsið einn af hornsteinum mannréttinda allra samfélaga

Hildur segir að ekki liggi fyrir hversu margir starfsmenn hafa fengið tiltal né hvers eðlis ummælin séu, og því sé erfitt fyrir hana að átta sig á alvarleika málsins.

„Og auðvitað skilur maður, að fólk vilji almennt að starfsmenn borgarinnar séu gegnheilt fólk sem er gott við náungann. En það breytir ekki því að tjáningarfrelsið er slíkt grunnatriði að ef við ætlum að takmarka það, þá verður að vera alveg á hreinu hvernig það er gert,“ segir Hildur.

Hér fyrir neðan má sjá spurningar Hildar og Svör Önnu:

  1. Hvað var lagt til grundvallar við matið þegar metið var að ummælin væru hatursorðræða, og er það mat í samræmi við viðmið landsréttar þar um? Mannréttindaskrifstofa leggur ekki mat á slíkt heldur bregst við þegar athugasemdir frá borgarbúum berast skrifstofunni vegna ummæla starfsmanna á opinberum vettvangi. Stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegir sáttmálar liggja til grundvallar mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og ber mannréttindaskrifstofa ábyrgð á því að standa vörð um að borgarbúum sé ekki mismunað vegna uppruna, litarháttar, trúarbragða, aldurs, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Stjórnendur bera ábyrgð á að vinna samkvæmt henni og fá þeir slíkar ábendingar til skoðunar.

  2. Hver mat að ummælin væru hatursorðræða og hverjar eru valdheimildir þess sem metur fyrir hönd borgarinnar hvort að tjáning starfsmanna teljist hatursorðræða? Sviðstjórar og/eða mannauðsfulltrúar meta ummælin hverju sinni.

  3. Voru ummælin viðhöfð á vinnutíma og/eða á vettvangi borgarinnar? Ekki liggja fyrir upplýsingar um tímasetningu ummæla.

  4. Á hvaða forsendum var það metið sem svo að ummælin væru opinber? Ef ummæli birtust á opinberum miðlum töldust þau opinber.

  5. Eru á vettvangi borgarinnar skýr fyrirmæli um hvað teljist hatursorðræða? Samkvæmt greiningu Mannréttindaskrifstofu Íslands á hugtakinu hatursorðræða (e. hate speech) er hugtakið flókið og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að endanleg og tæmandi skilgreining verði nokkurn tímann til, meta þarf hvert og eitt tilfelli fyrir sig.

  6. Fá starfsmenn borgarinnar fyrirfram fræðslu um hvað sé metið sem hatursorðræða? Ákvæði um að hatursorða verði ekki liðin er nýtt ákvæði sem er í drögum að endurskoðaðri mannréttindastefnu. Ef slíkt ákvæði verður tekið inn í stefnuna munu starfsmenn borgarinnar fá kynningu á hatursorðræðu eins og öðrum þeim breytingum sem kunna að verða gerðar. Allir starfsmenn eiga að fá reglulega fræðslu um mannréttindastefnuna.

  7. Hverjar eru afleiðingar fyrir stöðu eða starf starfsmanna borgarinnar eftir að þeir hafa verið uppvísir að hatursorðræðu? Samkvæmt upplýsingum mannauðsskrifstofu eru afleiðingar þess að starfsmaður borgarinnar verði uppvís að hatursorðræðu getur það leitt til áminningar í starfi og brottreksturs láti viðkomandi ekki af slíku háttalagi eftir áminningu.

  8. Kemur borgin upplýsingum um hatursorðræðu starfsmanna til lögreglu? Ekki svo vitað sé. Virðingarfyllst Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar

Hér má svo lesa bókun Hildar og Magnúsar:

Bókun Sjálfstæðisflokksins vegna fyrirspurnar um hatursorðræðu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í mannréttindaráði, Hildur Sverrisdóttir og Magnús Sigurbjörnsson, telja af þeim litlu upplýsingum sem hafa verið veittar um það sem borgin styðst við þegar hún gerir athugasemdir við hatursorðræðu starfsmanna sýna að hún hefur engan lagalegan grundvöll til að gera þær athugasemdir. Það liggur fyrir að starfsmenn hafi fengið einhvers konar tiltal eftir að hafa tjáð skoðanir sínar á opinberum vettvangi án tengsla við starf sitt hjá borginni.

Það er ótækt að borgin sé að hefta tjáningu starfsfólk síns á svona hæpnum forsendum og á að láta af því hið snarasta. Þetta varpar ljósi á brot gegn tjáningarfrelsi starfsmanna og ætti mannréttindaráð að gefa þeim mannréttindabrotum meiri gaum en raun ber vitni enda á ekki að vera í boði að mannréttindaráð borgarinnar handvelji réttindin sem það kýs að verja í borginni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat