fbpx
Föstudagur 25.september 2020
Fréttir

Bandarískur sjóður í hópi stærstu hluthafa í sex félögum

Aflandskrónueigandi á sjö milljarða í skráðum fyrirtækjum – Meðal stærstu hluthafa Símans og Regins

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. október 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir fjárfestingarsjóðir á vegum bandaríska sjóðastýringarfyrirtækisins Eaton Vance, sem er jafnframt einn umsvifamesti aflandskrónueigandi landsins, eru komnir í hóp tuttugu stærstu hluthafa í samtals sex félögum sem eru skráð í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði eignarhluta sjóðanna í þessum íslensku fyrirtækjum, meðal annars Símanum og Högum, nemur hátt í sjö milljörðum króna. Meira en ár er liðið síðan sjóðirnir – Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage – hófu fyrst innreið sína á íslenskan hlutabréfamarkað, eins og áður hefur verið fjallað um á síðum DV, og frá þeim tíma hafa þeir reglulega komið með fjármagn til landsins í því skyni að fjárfesta í fjölmörgum skráðum félögum hér á landi.

Þannig komst sjóðurinn Global Macro Portfolio, sem er stýrt af Boston Research Management, dótturfélagi Eaton Vance, fyrr í þessum mánuði á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Símans og fasteignafélagsins Regins. Fjárfestingarsjóðurinn hefur sömuleiðis, ásamt Global Macro Absolute Return Advantage, aukið nokkuð við hlut sinn í Högum að undanförnu en í lok síðustu viku áttu sjóðirnir tveir samanlagt 2,54% hlut í smásölurisanum sem gerir þá að tíunda stærsta hluthafa félagsins. Markaðsvirði þess eignarhlutar er um 1.660 milljónir króna.

Hóf innreið sína í fyrra

Sjóðirnir byrjuðu að fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld kynntu aðgerðaáætlun sína um losun fjármagnshafta í júní árið 2015. Eaton Vance, sem er eitt af stærstu sjóðastýringarfyrirtækjum heims, er í reynd fyrsti erlendi fjárfestirinn sem gerir sig gildandi á hlutabréfamarkaði hérlendis eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Auk þess að vera á meðal stærstu eigenda í Högum eru sjóðir Eaton Vance einnig samanlagt áttundi stærsti hluthafi Reita fasteignafélags og þá eiga þeir 2,56% hlut í Eimskipum sem þýðir að sjóðirnir eru tíundi stærsti hluthafi flutningafyrirtækisins. Þá eiga sjóðirnir tveir einnig, líkt og áður hefur verið greint frá í DV, samanlagt 1,7% eignarhlut í HB Granda sem gerir þá að tólfta stærsta hluthafanum í þessu eina skráða sjávarútvegsfyrirtæki landsins.

Skilað ágætis ávöxtun

Miðað við núverandi gengi bréfa í félögunum sex í Kauphöllinni er eignarhlutur sjóða Eaton Vance metinn á um 6,6 milljarða króna. Það jafngildir tæplega 0,7% af markaðsvirði þeirra sextán félaga sem eru skráð á markað á Íslandi. Sjóðir bandaríska félagsins hafa hins vegar jafnframt staðið að kaupum í öðrum fyrirtækjum í Kauphöll Íslands á síðustu mánuðum og misserum, meðal annars í Icelandair Group, en þær fjárfestingar hafa verið hlutfallslega smærri í sniðum og því ekki skilað þeim hingað til á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa þeirra félaga. Þegar tekið er tillit til þeirra fjárfestinga má því varlega áætla að bandarísku sjóðirnir tveir eigi samtals í kringum 1% af heildarhlutafé á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Vænta breyttrar afstöðu með nýrri stjórn

Fulltrúar stærstu eigenda aflandskróna – Eaton Vance, Discovery Capital, Autonomy Capital og Loomis Sayles – gera sér vonir um að íslensk stjórnvöld verði reiðubúin að hleypa þeim úr landi á hagstæðara gengi en þeim bauðst í gjaldeyrisútboði Seðlabankans verði niðurstaða alþingiskosninga sú að ný ríkisstjórn taki við völdum.

Þetta kom fram í frétt Financial Times síðastliðinn þriðjudag en þar er meðal annars haft eftir Pétri Erni Sverrissyni, lögmanni Eaton Vance og Autonomy Capital, að hann telji að þegar nýtt fólk tekur sæti í ríkisstjórn þá muni það líta öðrum augum á málið. „Að mínu viti þá er glórulaust fyrir stjórnvöld að hafa þetta mál hangandi yfir sér,“ segir Pétur Örn.

Aflandskrónueigendur og hagsmunaverðir þeirra hafa að undanförnu beitt ýmsum úrræðum til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni að stjórnvöld séu með aðgerðum sínum til að leysa aflandskrónuvandann að mismuna fjárfestum eftir þjóðerni þeirra. Þannig birti bandaríska hugveitan Institute of Liberty heilsíðuauglýsingu í íslenskum, dönskum og bandarískum fjölmiðlum fyrr í þessum mánuði þar sem því var haldið fram að frumvarp fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna mismuni „alþjóðlegum fjárfestum“ og „neyði þá til að selja skuldabréf sem tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikninga sem bera enga vexti.“

Í gær, fimmtudag, birti sama hugveita, sem rekur verkefni sem kallast IcelandWatch.org, heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem ákvarðanir Seðlabanka Íslands eru gagnrýndar. Varpað er fram þeirri spurningu „hver greiði fyrir opinbera spillingu og mismunarreglur á Íslandi.“ Þar segir að „mismunarstefna íslensku gjaldeyrishaftanna“ kosti þjóðina á milli 5 til 9 milljarða Bandaríkjadala í landsframleiðslu árlega, samkvæmt nýrri breskri rannsókn. Þá er fullyrt í auglýsingunni að verið sé að rannsaka innanhúss Sturlu Pálsson, háttsettan aðila Seðlabankans, vegna meintra innherjaupplýsinga. Sturla svari beint til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og „mun hafa haft aðgang að öllum þessum upplýsingum.“

Auglýsing samtakanna, sem flest bendir til að sé runnin undan rifjum aflandskrónueigenda, vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum og þannig skrifaði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra á Facebook-síðu sína: „Þessi aðför að íslenskum hagsmunum er ólíðandi og hvað gengur þessum aðilum til?“

Þrátt fyrir erfitt árferði á markaði það sem af er þessu ári – úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um nærri 9% frá áramótum – þá vegur á móti að gengi krónunnar hefur styrkst um 15% gagnvart Bandaríkjadal yfir sama tímabil. Fjárfesting sjóða Eaton Vance á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur því að óbreyttu skilað þeim ágætis ávöxtun. Þá hafa sjóðir á vegum fyrirtækisins einnig verið í hópi þeirra erlendu aðila sem hófu um mitt síðasta ár að kaupa íslensk ríkisskuldabréf – fyrir samtals 80 milljarða króna – í gegnum nýfjárfestingaleið Seðlabankans. Eftir að Seðlabanki Íslands kom fram með nýtt fjárstreymistæki til að sporna við óhóflegu fjármagnsinnflæði hafa slík vaxtamunarviðskipti hins vegar nánast alfarið stöðvast.

Hótar ríkinu málsókn

Kaup sjóðanna í skráðum íslenskum félögum eru ekki síst áhugaverð fyrir þær sakir að Eaton Vance er á meðal þeirra bandarísku fjárfestingarsjóða sem kanna núna þann möguleika að höfða málsókn á hendur íslenska ríkinu vegna frumvarps fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna. Telur sjóðurinn frumvarpið fela í sér ólögmæta eignaupptöku og brjóta á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Eaton Vance er sem kunnugt er á meðal stærstu aflandskrónueigenda – sjóðurinn á aflandskrónur fyrir meira en 30 milljarða – og féllst ekki á þau skilyrði sem voru sett í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands í sumar til að leysa út aflandskrónueignir að fjárhæð samtals 320 milljarða. Í útboðinu gafst aflandskrónueigendum á borð við Eaton Vance færi á að selja eignir sínar á genginu 190 krónur fyrir hverja evru – um 27% lægra verð miðað við þáverandi skráð gengi – og bárust tilboð fyrir alls 188 milljarða. Fjárhæð samþykktra tilboða nam aðeins 83 milljörðum og minnkaði forði Seðlabankans um rúmlega 54 milljarða í kjölfar útboðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Brennuvargurinn á Bræðraborgarstíg neitar sök – Ákærður fyrir að drepa þrjá og íkveikju

Brennuvargurinn á Bræðraborgarstíg neitar sök – Ákærður fyrir að drepa þrjá og íkveikju
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Segir Ísland stefna í „útópíu sýklahrædda einfarans“

Segir Ísland stefna í „útópíu sýklahrædda einfarans“
Fréttir
Í gær

Höskuldur Þórhallsson meðal umsækjenda hjá Náttúrufræðistofnun

Höskuldur Þórhallsson meðal umsækjenda hjá Náttúrufræðistofnun
Fréttir
Í gær

Mikilvæg skilaboð frá landlækni – Þekkjum smitleiðirnar

Mikilvæg skilaboð frá landlækni – Þekkjum smitleiðirnar
Fréttir
Í gær

Gunnar og Sverrir í sorpið

Gunnar og Sverrir í sorpið
Fréttir
Í gær

Ólga á samfélagsmiðlum vegna „karlrembukasts“ Ragnars Þórs

Ólga á samfélagsmiðlum vegna „karlrembukasts“ Ragnars Þórs