fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fréttir

Leitin að Goðafossi stendur enn

Þjóðverjinn Thomas Weyer skreytti sig stolnum fjöðrum í þýskum miðlum – Sagður athyglissjúkur og siðblindur

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 17. september 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég fékk algjört áfall þegar ég sá þessar fréttir. Mig hafði grunað þennan mann um græsku um nokkurt skeið en trúði ekki að hann myndi leggjast svona lágt,“ segir Gunnar A. Birgisson kafari. Í síðustu viku greindi þýska blaðið The Spiegel frá því að þýski kafarinn Thomas Weyer hefði fundið flak Goðafoss í Faxaflóa og var mikið gert úr hinu meinta afreki hans. Íslenskir fjölmiðlar, þar á meðal DV, gripu fréttina á lofti og birtu hana á vefsíðum sínum. Að sögn Gunnars er skipið hins vegar hvergi nærri fundið og segir hann að í viðtalinu hafi Weyer skreytt sig með stolnum fjöðrum.

„Goðafoss er Titanic Íslands“

Þann 10. nóvember 1944 var E/S Goðafossi sökkt skammt undan Garðskaga af þýska kafbátnum U-300. Um var að ræða mesta mannfall Íslendinga á einum degi í seinni heimsstyrjöldinni. Tuttugu og fjórir týndu lífi en nítján björguðust. Atburðurinn sást frá landi og því mætti telja að auðvelt væri að finna flak skipsins.

Annað hefur komið á daginn. „Goðafoss er Titanic Íslands. Það er stórundarlegt að skipið hafi ekki fundist. Þetta er eins og það verði umferðarslys en síðan þegar lögreglan kemur á vettvang þá finnist hvorki tangur né tetur af bílunum. Leyndardómurinn um staðsetningu flaksins hefur því yfir sér dulúðlegan blæ og margar samsæriskenningar hafa litið ljós,“ segir Gunnar. Sem dæmi um kenningu nefnir hann að Bandaríkjamenn hafi sprengt flakið upp í öreindir til þess að sovéskir kafbátar gætu ekki legið ofan á því og hlerað samskipti á Keflavíkurstöð þegar kalda stríðið stóð sem hæst.

Leitað í tæp 20 ár

Gunnar hefur mikinn áhuga á týndum skipsflökum við Íslandsstrendur og það er að hluta til atvinna hans í dag að skipuleggja slíka leiðangra. „Það má segja að ég hafi leitað að Goðafossi frá árinu 1997. Ég hef lagt mikla vinnu í að afla gagna um staðsetningu þess. Til dæmis rætt við þá sem urðu vitni að árásinni og svo mætti lengi telja. Þegar ég var í Fisktækniskóla Íslands var það eins konar lokaverkefni mitt að reikna út líklega staðsetningu flaksins,“ segir Gunnar.

Hann kynntist Thomas Weyer árið 2010. „Þeir voru nokkrir í hópi sem voru að skipuleggja leiðangur til þess að leita að Goðafossi. Thomas var í þeim hópi þótt að hann væri ekki í forsvari. Þeir höfðu samband við mig og ég ákvað að slást í hópinn og deila með þeim öllum upplýsingum. Ástæðan var fyrst og fremst sú að þeir hugðust koma með leitarkafbát til landsins og ég sá fyrir mér að fá þá til þess að aðstoða mig við fleiri spennandi verkefni varðandi týnd skipsflök við Íslandsstrendur,“ segir Gunnar. Að hans sögn datt leiðangurinn upp fyrir þar sem Þjóðverjarnir héldu að leitin yrði afmörkuð á tilteknum bletti. Þeir gerðu hins vegar ekki ráð fyrir að fínkemba þyrfti stórt svæði.

Breytti gögnum kerfisbundið

Gunnar og Thomas héldu áfram sambandi og ræddu leitina. „Ég taldi gott að eiga þarna hauk í horni enda er Thomas tæknikafari og hefur réttindi til að kafa á meira dýpi en ég. Hann fékk aðgang að öllum gögnum á Dropbox-hólfi mínu og var mjög áhugasamur um allt sem tengist flakinu,“ segir Gunnar. Að nokkrum tíma liðnum fór Gunnar að reka sig á að nafn Thomas var komið á flest skjöl og myndir í möppunni. „Hann hafði fyrir því að lauma nafninu sínu kerfisbundið á öll gögn sem tengdust leitinni. Þá fór ég að verða var um mig gagnvart honum,“ segir Gunnar.

Hegðun Thomas varð til þess að Gunnar ákvað að ljúka máli sem hafði verið í umræðunni um nokkurt skeið. „Það vita ekki margir að flak Goðafoss var selt á sínum tíma og er í einkaeigu. Ég var í góðu sambandi við annan eigandann og svo fór að hann afsalaði mér sínum helmingshlut í flakinu,“ segir Gunnar.

Skipulagði leit með leynd

Eignarhald Gunnars breytti því þó ekki að í sumar skipulagði Thomas leiðangur ásamt þekktum erlendum tækniköfurum til að leita að flakinu. „Þetta fólk hélt að leiðangurinn væri í samstarfi við mig enda hafði Thomas tjáð þeim það og nafn mitt var tekið fram í gögnum leiðangursins. Ég hafði ekki hugmynd um að hópurinn væri á landinu þegar kunningi minn benti mér á það,“ segir Gunnar. Úr varð að hann hitti á leiðangursmenn á dvalarstað þeirra á höfuðborgarsvæðinu. „Það urðu allir agndofa yfir því að mér hefði verið haldið utan við leitina þar sem þeim hafði verið tjáð annað. Thomas varð alveg eins og aumingi og ég lét hann heyra það,“ segir Gunnar.

Að sögn Gunnars ákvað hann að lokum að slást í hóp með leiðangursmönnum. „Þarna voru komnir afar færir kafarar og miklum peningum hafði verið varið í að leigja öflugan búnað. Þó var margt af því sem Thomas hafði lagt upp með byggt á sandi. Til dæmis kom í ljós að greiða þurfti 100 þúsund krónur á dag fyrir bátinn sem sigldi með okkur. Það endaði með því að Thomas borgaði einn dag, ég annan og hinir kafararnir þann þriðja. Svo gaf skipstjórinn okkur fjórða daginn út af áhuga hans á Goðafossi,“ segir Gunnar.

„Þetta leit lygilega vel út á tímabili“

Leiðangurinn gekk vel og taldi hópurinn sig hafa gert merkilega uppgötvun þegar útlínur skips virtust blasa við í mælitækjunum. „Þetta leit lygilega vel út á tímabili. Þarna fundum við eitthvert form sem virtist passa við stærð Goðafoss og á staðnum þar sem flakið átti líklega að vera,“ segir Gunnar. Að hans sögn varð Thomas mjög spenntur yfir uppgötvuninni en Gunnar tók þessu af stóískri ró. „Það þarf að rannsaka hlutina vandlega áður en hrapað er að ályktunum. Ég lagðist yfir gögnin og sá þá að í hvert sinn sem báturinn tók u-beygju þá verptist skanninn þannig að form skipa mynduðust,“ segir Gunnar. Að lokum fékk hann Landhelgisgæsluna til þess að skanna svæðið með mun öflugri tækjum en þá fannst ekkert. „Skipið er ekki þarna, það er ekki fundið,“ segir Gunnar.

Á meðan Gunnar skoðaði málið í rólegheitunum hér heima virðist Thomas hafa selt söguna til þýska blaðsins Spiegel. Í viðtalinu lýsti hann því yfir að flak Goðafoss væri fundið og útlistaði nákvæmlega hvernig hann hefði fundið skipið. „Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum. Að mínu mati er maðurinn fullkomlega athyglissjúkur og siðblindur. Þarna vísaði hann í upplýsingarnar sem ég hafði deilt með honum eins og þær væru frá honum komnar. Hann minntist ekki á neinn annan en sjálfan sig í greininni,“ segir Gunnar.

Hann brást við með því að úthrópa Thomas sem svikahrapp á fjölmennum kafarasíðum, innlendum sem og erlendum. Auk þess sem hann leiðrétti fréttir íslenskra miðla af fundinum tafarlaust. „Ég fékk mikil viðbrögð hérna innanlands enda þekkja flestir í íslenska kafarasamfélaginu mína vinnu varðandi leitina að Goðafossi,“ segir Gunnar.

Hrærir upp í tilfinningum

Gunnari er meinilla við framferði Þjóðverjans enda vill hann að komið sé fram af virðingu við skipsflakið og þá sem fórust með því. „Árásin á Goðafoss hefur alla tíð verið viðkvæmt mál í samskiptum Þjóðverja og Íslendinga. Þarna misstu fjölmargir Íslendingar ættingja sína og vini. Að auki hefur þessi árás hvílt sem skuggi á ættingjum þeirra þýsku hermanna sem voru um borð í kafbátnum. Ég frétti af því að Thomas hefði meðal annars haft samband við suma þessara ættingja úti í Þýskalandi og hrært þannig upp í tilfinningum fólks án þess að hafa nokkra staðfestingu á því að flakið væri fundið. Svona kemur maður ekki fram,“ segir Gunnar ákveðinn. Leitin að Goðafossi mun því halda áfram enn um sinn. „Flak skipsins finnst að lokum. Ég er sannfærður um það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Guðni er ósáttur – „Þetta getum við Sunnlendingar ekki látið yfir okkur ganga“

Guðni er ósáttur – „Þetta getum við Sunnlendingar ekki látið yfir okkur ganga“
Fréttir
Í gær

Segja vísbendingar um að árás Úkraínumanna á Kherson sé yfirvofandi

Segja vísbendingar um að árás Úkraínumanna á Kherson sé yfirvofandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Háttsettur rússneskur embættismaður sagður hafa sett sig í samband við Vesturlönd til að binda enda á stríðið

Háttsettur rússneskur embættismaður sagður hafa sett sig í samband við Vesturlönd til að binda enda á stríðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Telur að sífellt fleira bendi til að Rússar hafi gengið í gildru – 20.000 hermenn í vanda

Telur að sífellt fleira bendi til að Rússar hafi gengið í gildru – 20.000 hermenn í vanda