Tökur á bandarísku hasarmyndinni FAST8 fara nú fram á Akranesi.Upptökur fara fram á svæðinu í kringum hafnarsvæðið og sementsverksmiðjuna þar í bæ.Universal Studios framleiðir myndina og samkvæmt Truenorth, sem er umboðsaðili Universal hér á landi. Fjölmennt lið tækni- og upptökufólks kom hingað til lands vegna verkefnisins. Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi var á svæðinu og smellti af nokkrum myndum. Segir hann að allt að 400 manns séu að vinna við myndina.
„Hér eru sportbílar úti um allar götur. Það er magnað að verða vitni að þessu, þyrlur og bílar úti um allan bæ. Þá er leikmyndin afar flott. Ég held að það séu um 400 manns að vinna við myndina.“
Vilhjálmur segir að um mikil uppgrip fyrir bæinn sé að ræða.
„Björgunarsveitin er búin að vera í gæslu í marga daga. Það eru hinir og þessir verktakar sem hafa tekjur af gerð myndarinnar og hefur mikil jákvæð áhrif. Það er rosalegt að sjá þetta. Maður áttar sig ekki á stærðinni og fjöldinn í kringum þetta.“
„Ég veit ekki hvort þetta eigi að vera rússneskt dópgreni. Þetta er allt á rússnesku. Það er búið að loka höfninni og setja upp gervisnjó. Það eru ótrúlegir fjármunir. Þetta eru uppgrip. Þetta er gríðarlega mikilvægt að skapa skilyrði fyrir þennan iðnað að hann hafi vilja til að koma hingað.“
Vilhjálmur bætir við að lokum:
„Skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag að fá svona innspýtingu.“
Athugið að neðst má finna bráðskemmtilegt myndband sem Guðríður Haraldsdóttir, blaðakona og íbúi á Akranesi, tók af glæsilegum sportbíl og þyrlu sem sveimaði um bæinn.