fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Leigubílstjóri myrtur í Reykjavík: 48 ár í dag frá einu dularfyllsta morðmáli Íslandssögunnar

Gunnar Sigurður Tryggvason var skotinn í hnakkann – Dularfull byssa dúkkar upp ári eftir morðið

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 18. janúar 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á þessum degi árið 1968 fannst leigubílstjórinn Gunnar Sigurður Tryggvason látinn í bifreið sinni við Laugalæk í Laugarneshverfinu í Reykjavík. Hann hafði verið skotinn í hnakkann. Í dag, 48 árum eftir morðið, er málið enn óleyst.
Á vettvangi morðsins fannst skothylki úr skammbyssu, 32 kalibera, en síðar kom í ljós að byssunni hafði verið stolið af heimili hótelstjóra Hótels Borg, nokkru fyrr.

Vegfarendur tilkynntu glæpinn

„Við erum að reyna að komast að því hvort einhverjir hafi orðið varir mannaferða í hverfinu á þessu tímabili, og eins hvort leigubílar eða aðrir hafi tekið upp farþega. Við mælumst eindregið til þess að fólk hafi samband við okkur hið bráðasta ef það telur sig geta gefið einhverjar upplýsingar, hvað litlar sem þær kunna að virðast,“ sagði Ingólfur Þorsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á fundi með fréttamönnum síðar þennan sama dag.

Morðið vakti mikla athygli á sínum tíma.
Vakti mikla athygli Morðið vakti mikla athygli á sínum tíma.

Lík Gunnars fannst klukkan 07.15 og er talið að morðið hafi verið framið um nóttina. Rignt hafði sem gerði lögreglu erfitt um vik að finna sönnunargögn á vettvangi. Tveir vegfarendur tilkynntu málið til lögreglu og voru tveir lögregluþjónar sendir á vettvang. Bifreið Gunnars var í gangi, biðljósin tendruð og sat Gunnar undir stýri með skotsár hægra megin á hnakkanum. Gjaldmælir bifreiðarinnar var í gangi og þá var búið að taka annað af tveimur veskjum Gunnars. Taldi lögreglan á þeim tíma að af þeim sökum væri um ránsmorð að ræða. Morðvopninu hefði að líkindum verið smyglað til landsins.

Viðamikil leit að skotvopninu

Málið vakti mikinn óhug þegar fréttir af morðinu spurðust út. Morð voru sem betur fer fátíð á þessum tíma og var morðið á Gunnari aðeins það fjórða hér á landi á síðustu tíu árum þar á undan.

Þar sem gjaldmælir bifreiðarinnar var enn í gangi gat lögregla áætlað dánartíma Gunnars, og var það mat rannsóknarlögreglumanna að hann hefði látist á tímabilinu frá klukkan 05.15 til klukkan 06.00 þennan morgunn, líklega nær klukkan 06. Ferðir hans þessa nótt voru skoðaðar og var síðasta skráða ferð hans rétt fyrir klukkan 4. Hvað hann gerði frá þeim tíma þar til hann lést er ekki vitað.

Í umfjöllun um málið í þættinum Sönn íslensk sakamál kom fram að viðamikil leit hafi farið fram að morðvopninu í nágrenninu en sú leit hafi ekki borið árangur, ekki strax að minnsta kosti. Sem fyrr segir gat skothylkið aðeins komið úr einni byssu, en aðeins voru framleidd rúm átta þúsund eintök af umræddri tegund. Við rannsókn málsins kom upp á yfirborðið að nokkrum árum fyrr hafði slíkri byssu verið stolið af heimili fyrrverandi hótelstjóra Hótels Borg. Lagði lögregla því ríka áherslu á að hafa upp á byssunni.

Var rólegur og reglusamur einstaklingur

Gunnari var lýst sem reglusömum og vanaföstum einstaklingi, en hann bjó með föður sínum. Bróðir Gunnars sagði í viðtali á sínum tíma að hann hefði ekki getað hugsað sér að Gunnar ætti óvildarmann. Kvöldið áður en hann var myrtur var hann heima hjá sér áður en hann fór út að keyra rétt fyrir miðnættið. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn tókst lögreglu ekki að hafa upp á morðingjanum, og þegar ljóst þótti í hvað stefndi ákváðu leigubílstjórar hjá Hreyfli að veita hverjum þeim sem gæti gefið upplýsingar um morðingja Gunnars hundrað þúsund krónur.

Hreyfing kemst á málið

Árið 1968 leið án þess að morðingi Gunnars fyndist en það var rúmu ári síðar, eða í mars 1969, að hreyfing komst á málið. Hjón í Reykjavík höfðu leyst til sín leigubifreið og voru að þrífa hana þegar þau fundu fullhlaðna skammbyssu í hanskahólfinu. Leigubílstjórinn sem hafði misst bifreiðina kom að heimili hjónanna til að sækja eigur sínar og tók hann þá eftir því að byssuna vantaði. Sagðist hann vilja fá hana aftur en hjónin neituðu og sögðu að hana yrði hann að sækja til lögreglunnar. Hann hafði samband við lögreglu og sagðist hafa fundið umrædda byssu upp úr miðjum janúar árið 1969 á gólfi leigubifreiðar sinnar. Hann sagðist ekkert vita um byssuna en benti lögreglu á hjónin þegar lögregla spurði hvar hún væri. Þá kom í ljós að umrædd byssa var sú sama og notuð var við morðið.

Umræddur leigubílstjóri, sem kallaður er Sigurður í Sönnum íslenskum sakamálum, var handtekinn en neitaði staðfastlega sök. Hann sagðist ekki hafa verið viðriðinn málið en var engu að síður úrskurðaður í gæsluvarðhald í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Hann staðhæfði að hann hefði fundið byssuna í bifreið sinni þegar hann var að þrífa hana. Farið var með byssuna til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, þar sem í ljós kom að um var að ræða sömu byssu og notuð var í morðinu á Gunnari.

Breytti framburði sínum

Við húsleit á heimili Sigurðar fundust tvær byssukúlur, önnur var sömu tegundar og notuð var í morðinu á Gunnari. Þar að auki fannst lykill á lyklakippu Sigurðar að heimili hótelstjórans á Borg og sagðist Sigurður við yfirheyrslur ekki vita hvernig hann hefði komist þangað. Eiginkona Sigurðar sagði að hann hefði sofið við hlið sér alla nóttina þegar morðið var framið. Þremur og hálfum mánuði eftir að Sigurður var úrskurðaður í gæsluvarðhald vildi Sigurður leiðrétta framburð sinn. Sagði hann að nokkrum árum áður hefði hann verið staddur í sumarhúsi hótelstjóra Hótels Borg og þar hefði hann tekið hálfan annan pakka af skammbyssuskotum. Í annað skipti hefði hótelstjórinn hringt í hann og beðið hann að líta á bilað sjónvarpstæki. Við þetta tækifæri hefði hann stolið umræddri skammbyssu og tekið hana með sér til að selja hana. Hann hefði geymt hana í bifreið sinni en í millitíðinni hafi bifreiðin verið tekin vegna skuldar þar sem hún stóð í porti leigubílastöðvarinnar. Lyklana hefði hann skilið eftir í kveikjulásnum þar sem næturvörður gætti bifreiðanna. Næturvörðurinn sagðist ekki hafa orðið var við mannaferðir umrædda nótt.

Var ósáttur við málalyktir

Rætt var við Sigurð í Sönnum íslenskum sakamálum og þar sagði hann að heimska hans hafi orðið til þess að hann sagði ekki allan sannleikann strax frá upphafi. Vitni sögðu að hegðun hans hafi ekki breyst dagana eftir morðið og virtist engin sýnileg ástæða fyrir því að hann hefði átt að fremja morðið. Hann sagðist ekki hafa þekkt Gunnar, aldrei talað við hann en þó séð hann. Níu mánuðum eftir að Sigurður var hnepptur í gæsluvarðhald var eiginkonu hans leyft í fyrsta og eina skiptið að hitta hann. Svo fór að Sigurður var ákærður í málinu og var hann sýknaður af morðákæru en sakfelldur fyrir stuld á byssunni. Einn dómari skilaði sérákvæði og taldi að hann væri sekur. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms, en líkt og í fyrra skiptið skilaði einn dómari sératkvæði og vildi sakfella Sigurð fyrir morðið. Í viðtalinu í Sönnum íslenskum sakamálum sagði Sigurður að hann hefði verið ósáttur við málalyktir í ljósi þess að sératkvæði var skilað og dómurinn var ekki samhljóða. „Maður er bitur eftir þetta og þetta er hlutur sem fer aldrei úr manni, aldrei.“

Þegar hann var spurður hvað hann segði við þá sem töldu að hann væri sekur, sagði Sigurður: „Mér finnst þessi afstaða dálítið fáránleg vegna þess að það er ekki hægt, ef maður er sekur þá hlýtur maður að brotna undan þessari meðferð sem fram fór á mér, það kemur ekki annað til. Því ég veit að ég er saklaus þá hef ég getað komist í gegnum þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi