Ólafur Ragnar um Björgólfsfeðga: „einstakt“ fordæmi

Í bréfi Ólafs Ragnars Grímssonar til Björgólfs Thors Björgólfssonar frá sumrinu 2002, sem hefur nú verið birt á heimasíðu forsetaembættisins, segir forsetinn að Björgólfsfeðgar séu einstakt fordæmi fyrir aðra Íslendinga sem hyggi á landvinninga erlendis. Ólafur Ragnar hafði þá verið í opinberri heimsókn til Rússlands og hafði Björgólfur Thor, sem var kjörræðismaður Íslands í Pétursborg, verið forsetanum innan handar í heimsókninni.

Ólafur mærði Björgólf Thor í bréfinu og þakkaði honum kærlega fyrir alla aðstoðina og ,,hlýju móttökurnar" sem Björgólfur Thor hafði sýnt forsetanum í heimsókninni til Rússlands. Forsetinn heimsótti sömuleiðis hina frægu Bravo-verksmiðju feðganna sem þeir seldu fyrir 400 milljónir dollara og keyptu Landsbankann fyrir hluta ágóðans í lok árs 2002. Feðgarnir höfðu, um þetta leyti, byrjað að falast eftir Landsbankanum hjá einkavæðingarnefnd. Á síðustu árum þar á undan höfðu feðgarnir einnig staðið í málaferlum við Ingimar H. Ingimarsson, fyrrum viðskiptafélaga þeirra, um eignarhaldið á Bravo-verksmiðjunni.

Forsetinn segir í bréfinu: ,,Það var eftirminnilegt að koma í hina glæsilegu verksmiðju ykkar í Pétursborg og kynnast af eigin raun því djarfa viðskiptaafreki sem þið hafið unnið við uppbygginu þeirrar starfsemi. Sú þrautseigja og einbeitni sem birtist í þátttöku ykkar í rússnesku viðskiptalífi, stundum á viðsjárverðum tímum, er einstakt fordæmi öllu því unga fólki sem hyggur á landvinninga í atvinnulífi og viðskiptum," sagði forsetinn í bréfinu til Björgólfs en viðskipti þeirra feðga í landinu hafa löngum verið tortryggð mjög, líkt og fram kom í greinaflokki Halldórs Halldórssonar í DV fyrir skömmu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.