fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Tekst á við nýtt ævintýri

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 19. maí 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Tyrfingsson fagnar sjötugsafmæli sínu laugardaginn 20. maí. Um leið lætur hann af störfum yfirlæknis á Vogi en starfinu hefur hann gegnt frá árinu 1984. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Þórarin og forvitnaðist um lífshlaupið og starfið sem hefur átt hug hans allan í áratugi.

Þórarinn er fyrst spurður hvort hann sé að setjast í helgan stein. „Ég veit ekki hversu helgur steinninn verður. Þegar ég geng út úr skrifstofu minni á Vogi tekur eflaust við nýtt ævintýri,“ segir hann. „Ég hef aldrei hugsað langt fram í tímann. Ég veit ekki af hverju það er. Ég lifi í núinu og nýt stundarinnar.“

Áttu þér áhugamál sem þú hefur nú meiri tíma til að sinna en áður?

„Ég átti og á mörg áhugamál. Sem ungur maður hafði ég mikinn áhuga á ljósmyndun og ég á góða myndavél. Ég hef alltaf haft áhuga á íþróttum, var mikill íþróttamaður á yngri árum og lifði fyrir íþróttirnar. Ég var kominn í efstu deild í handbolta árið 1964, þá sextán ára.

Ég er enn að hlaupa og rækta líkamann. Veiðar voru áhugamál, ég var með grimmari laxveiðimönnum landsins, hnýtti flugur og gerði allar kúnstir. Ég hef lagt það áhugamál nokkuð til hliðar, mér finnst það of dýrt. Það sem ég hef aðallega gert í frítímanum á seinni árum er að ferðast og hvílast og vera með konu minni og fjölskyldu. Við Hildur, kona mín, gengum í hjónaband árið 1969. Ég á sjö börn, þar af eigum við Hildur fimm saman, og barnabörnin eru átján. Ég er mjög ríkur.

En við vorum að tala um áhugamál og ég má ekki gleyma einu áhugamáli sem er tónlist, ég á eflaust eitt besta geisladiskasafn á landinu af klassískri tónlist.“

Hvaða tónskáld eru í uppáhaldi?

„Það er breytilegt, ég hlusta á svo margt. Stundum hlusta ég á Mahler, stundum á barokk, og auðvitað hlusta ég á Beethoven. Í óperutónlist hluta ég mest á Wagner, Verdi og Puccini.“

Hvenær fékkstu áhuga á klassískri tónlist?

„Pabbi var músíkalskur, skrifaði nótur fyrir aðra. Það var til grammófónn á mínu heimili svo ég heyrði klassíska tónlist í æsku. Sem ungur maður var ég reyndar mest að hlusta á Bítlana og Dr. Hook and the Medicine Show. Seinna, þegar ég fór að hlusta á tónlist í enn meira mæli og velta fyrir mér hvað væru góðar upptökur, þá fór ég inn í nýjan heim. Ég hefði ekki getað trúað því að ég gæti fengið svona mikið út úr músík. Þegar ég hleyp er ég með klassíska tónlist í eyrunum og þá líður mér mjög vel og leysi stundum heimsmálin.“

Fyrsti stúdentinn í móðurættinni

Förum aftur í tímann. Af hvernig fólki ertu kominn?

„Ég er alþýðuprammi, kominn af fátæku fólki sem hraktist á mölina. Ég er þaðan, ég er ekki af prestaaðlinum. Móðir mín fékk ung berkla og var á Vífilsstaðahælinu en lifði það allt af og varð háöldruð. Í föðurætt er ég kominn af smiðum, múrurum og húsasmiðum. Pabbi var lærður húsasmiður. Ætli ég sé ekki fyrsti stúdentinn í móðurættinni. Það voru systkinabörn mín í föðurætt sem urðu stúdentar á undan mér.“

Þú ert af alþýðufólki kominn. Ertu pólitískur?

„Alveg gríðarlega.“

Vinstri maður?

„Samfélagsmaður, já. Ef þú vilt kalla það vinstri mennsku þá fellst ég á það. Ég er mjög pólitískur og félagslega þenkjandi og mér finnst stjórnmálastaðan á Íslandi ekki góð.“

Viltu segja eitthvað meira um það?

„Nei.“

Ekki með stoppara

Hvernig myndirðu lýsa áfengisneyslu þinnar kynslóðar og félaga þinna?

„Við, þessir strákar sem eru fæddir í lok stríðsins og fram undir 1950, erum kannski fyrsta kynslóðin sem gat farið á öldurhús og drukkið. Við settum neysluna upp um heilan lítra. Svo þegar við komum á Alþingi leyfðum við bjórinn. Við fórum í Glaumbæ og á Borgina og bjuggum til mikið af börnum, sem mörg voru kannski glasabörn. Á þessum árum var mikið um börn sem komu utan hjónabands til mjög ungra mæðra.

Ég var einn af þessum, eignaðist þrjú börn á stuttum tíma með þremur konum. Það var ekki mikið verið að hugsa fram í tímann þá. Þetta bara gerðist. Upp frá því hef ég verið afskaplega umburðarlyndur gagnvart ýmsu því sem kemur upp á hjá fólki. Við erum bara mannleg.“

Hvernig drykkjumaður varstu?

„Mamma sagði að ég væri alveg eins og frændur hennar í móðurætt. Ég varð mikið ölvaður og var ekki með stoppara eins og maður kallar það.

Ég byrjaði ungur að drekka, drakk mikið og illa. Ég druslaðist í gegnum námið og náði prófunum. Árið 1976 fór ég út á land og starfaði þar sem læknir og tveimur árum síðar var ég kominn í meðferð, þrjátíu og eins árs gamall.

Það tók mig ein tólf ár að átta mig á því að ég hefði kannski ekki verið skemmtilegur með víni. Undir lokin var ég kominn í algjörlega stjórnlausa drykkju á hverjum degi og gat ekki hætt. Ég var á þeim stað þegar ég fór í meðferð að háskólafélagarnir vildu lítið kannast við mig. Það var allt í lagi, ég átti aldrei neina vini meðal lækna, mínir vinir voru í boltanum og mér þótti vænt um þá.

Nokkrum mánuðum eftir meðferð fór ég að vinna fyrir SÁÁ og varð svo yfirmaður á Vogi 1984. Það má kannski segja að ég hafi drukkið mig inn í þessi djobb.“

Hvað er það sorglegasta sem þú hefur séð á þeim áratugum sem þú hefur verið í þessu starfi?

„Það er erfitt að spyrja atvinnumann þessarar spurningar. Þeir sem eru í starfi eins og mínu verða sjóaðir og líta allt öðruvísi á málin en aðrir. Öðruvísi myndum við ekki lifa af. Ég hef aldrei orðið þunglyndur í þessu starfi. Maður mótar ákveðnar varnir og hleypir ekki ákveðnum hlutum að sér. Þannig að í starfinu tek ég hluti ekki gríðarlega mikið inn á mig. Það hafa hins vegar orðið harmleikir í fjölskyldunni. Ég missti mágkonu, fallega og afar vandaða konu, og það tók á að horfa upp á bróður minn einan með tvo unga drengi. Það hefur mér þótt allra verst, enda er hann litli bróðir minn.“

Öl ekki innri maður

Hefurðu séð mikla breytingu á áfengisneyslu þjóðarinnar á þeim áratugum sem þú hefur verið í þessu starfi?

„Já, það er nú þannig að mannkynið aðlagar sig öllum fjáranum, þannig höfum við lifað af, og við höfum aðlagast því að umgangast áfengi. Þegar við Íslendingar komum út úr moldarkofunum þá kunnum við auðvitað ekkert með áfengi að fara og vorum heldur ekki langt komnir í þeim efnum rétt eftir stríð. Þegar við vorum í ferðalögum til sólarlanda þá var líka drukkið ótæpilega. Þetta hefur mikið breyst. Kannski höfum við færst örlítið frá vandræðadrykkju og félagslegri vandamáladrykkju yfir í annars konar drykkju. Það eru líka önnur efni komin inn í skemmtanalífið, aðallega örvandi efni með tilheyrandi böli.“

Hefur hópurinn sem kemur á Vog breyst í gegnum árin?

„Já, talsvert mikið en sjúklingahópurinn hefur ekki minnkað. Áður fengum við aðallega karlmenn á aldrinum 30–45 ára, en þeim hefur fækkað, en meira er af ungu fólki og konum.“

Er prógrammið í aðalatriðum alltaf eins?

„Nei, guð minn almáttugur! Þetta vandamál er þannig að það er alveg óskiljanlegt ef horft er á það utan frá. Það er svo breytilegt og erfitt að koma auga á samhengið. En þegar horft er á það innan frá þá sést að fólkið á það sameiginlegt að það getur ekki stoppað og notar fíkniefni stjórnlaust. Þegar fólk er komið saman í hóp og strákurinn segir frá því að hann hafi farið í veskið hennar ömmu sinnar og tekið peninga fyrir hassinu eða grasinu þá segir konan sem er háð pillunum: Nú kannast ég við það sem þú ert að tala um. Svo er rætt um það hvernig er að vinna sig upp og horfast í augu við þá staðreynd að maður er búinn að gera alls konar hluti sem manni eru ekki eiginlegir.“

Stundum er sagt að öl sé innri maður, er það ekki þín reynsla?

„Það fer allt það mannlega af einstaklingnum við drykkjuna, það er ekki hans innri maður sem kemur þá í ljós heldur allt annar maður. Svo gerist það að manneskjan verður magnlaus og hættir að hafa getuna til að sporna við eigin drykkju og ræður því ekki sjálf hvenær hún byrjar að drekka. Það þarf mikið átak til að rísa upp og horfast í augu við að svona sé komið fyrir manni.

Síðan er misjafnt hvað fólk þarf til að geta hætt. Allir þurfa að breyta um lífsstíl, viðhorf og hugsunarhátt, en það er svo misjafnt hvað þarf til að svo geti orðið. Þess vegna þarf að búa til meðferð þar sem fólk sem hingað kemur fær það sem það þarf. Einn fær þetta og annar hitt. Eðli mannanna er þannig að maður útskrifar ansi mikið af sérfræðingum sem vita nákvæmlega hvernig meðferðin á að vera. Hún á að miða að því sem þeir þurftu þegar þeir komu í meðferð. Staðreyndin er hins vegar sú að meðferð þarf að henta öllum.

Meðferðin sem er þarna er hins vegar ekki fyrir alla þá sem lenda í vandræðum með áfengi því mjög margir geta hætt af sjálfsdáðum, með aðstoð umhverfisins eða með því að fara til annarra meðferðarstöðva. Þeir sem eru með vandann á alvarlegu stigi þurfa að koma til okkar, því það þarf að greina hann af mikilli þekkingu.“

Þú segir að meðferð þurfi að henta öllum. Hvernig er það gert?

„Við höfum orðið að búa til meðferð sem sækir sífellt fram og kemur til móts við hina ýmsu hópa. Hvernig kemur maður til móts við einstakling þegar maður er að reyna að búa til meðferð sem hentar öllum? Maður gerir það með því að mennta starfsfólkið betur og gera það hæft til að koma til móts við þarfir fólks utan dagskrárliða, í viðtölum.
Meðferðin hefur gjörbreyst. Við höfum líka öðlast meiri þekkingu á sjúkdómnum og vitum hvað við þurfum að leggja áherslu á. Við áttum okkur til dæmis núna á innsæisskorti sjúklinga, þeir sjá ekki hvar þeir eru staddir og hversu alvarlegt vandamálið er, ekki vegna þess að þeir séu í vörn heldur vegna líffræðilegra breytinga í heilanum. Það eru ákveðin svæði í heilanum sem gefa mönnum þann eiginleika að geta sett sig í spor annarra. Þetta svæði bilar hjá áfengissjúklingum.

Flestum þeim breytingum sem verða við áfengisneyslu er hægt að snúa við, það lagast ekki alveg strax, það tekur tíma að verða eðlilegt að nýju. Við tölum stundum um að það þurfi tvö ár en í raun er maðurinn sem hættir eftir alvarlega drykkju að breytast og taka framförum í fimm til tíu ár.“

Ekkert samband við trúarbrögð

Stundum heyrir maður hnýtt í fólk sem fer ítrekað í meðferð. Hvað segirðu við því?

„Sumir vilja líta á alkóhólisma sem smitsjúkdóm eða skyndikvilla og það þurfi bara eina meðferð til að laga hann. Það er argasti misskilningur, þetta er krónískur vandi. Mjög margir byrja að drekka aftur af ýmsum ástæðum, stundum vegna áfalla í lífinu, stundum vegna sjúkdóma eða vegna þess að aðstæður breytast. Vinur minn um áttrætt, sem er mjög heilsuhraustur, var að tala um það hversu illa jafnaldrar hans sumir væru farnir. Hann sagði, og hitti naglann á höfuðið: Þetta er nú bara heppni!“

Æðruleysisbænin er bæn til Guðs. Ert þú trúaður eða ertu mjög jarðbundinn?

„Þegar ég kom í meðferð var ríkjandi viðhorf hjá sumum að trúin væri þáttur í meðferðinni og þannig er kannski enn. Heilinn í mér er þannig gerður að ég næ ekki sambandi við trúarbrögð og skynja ekki heldur álf í Hafnarfirði, ég er bara ekki þar. Mér þykja trúarlegar kenningar að mestu leyti óskaplega heimskulegar. Það er skelfilegt að lesa sögu trúarbragðanna, hún er eitt allsherjar ofbeldi og algjör hryllingur. Ég er ekki mikið trúaður eins og þú heyrir. Ég geri hins vegar engar athugasemdir við trú annarra meðan sú trú fer ekki úr böndum og hefur ekki alvarlegar afleiðingar.
Maður verður að taka ákvörðun um það hvernig maður vill lifa lífinu og hvort maður ætlar að vera úrillur, trúa á tómið og líta þannig á að þetta sé allt tilgangslaust helvíti. Ég tók þá ákvörðun að trúa á það góða í manninum. Ég trúi staðfastlega á réttlætið og skynsemi mannsins. Ég held að allir séu að reyna að verða betri í dag en þeir voru í gær. Mér finnst hlutirnir alls ekki vera að fara á verri veg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla