fbpx
Mánudagur 22.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Nítján ára stúlka drepin af unnusta sínum í Garðyrkjuskólanum – Tímavélin

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 8. júlí 2018 16:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímavélin: Í ársbyrjun árið 1957 átti sér stað einn af dapurlegustu og illskiljanlegustu glæpum Íslandssögunnar þegar nítján ára stúlka, Konkordía Jónatansdóttir, var skotin til bana af unnusta sínum, Sigurbirni Inga Þorvaldssyni, í Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Hveragerði. Sigurbjörn, 26 ára, unnusti Konkordíu var metinn sakhæfur og fékk langan fangelsisdóm fyrir.

 

Sótti riffil í bæinn

Atburðarás morðsins hófst laust fyrir hádegi, sunnudaginn 6. janúar árið 1957, þegar Sigurbjörn Ingi fjósamaður í Garðyrkjuskólanum fór til Hveragerðis til manns sem hann vissi að ætti riffil. Bað hann manninn um að lána sér riffilinn og sagði að kálfur hefði fótbrotnað og því þyrfti að aflífa hann í hvelli. Maðurinn kippti sér ekki upp við bónina, setti þrjú skot í riffilinn og afhenti Sigurbirni.

Eftir þetta fór Sigurbjörn aftur í Garðyrkjuskólann á Reykjum þar sem hádegismatur var tilbúinn og borðaði hann með viðstöddum þar í salnum. Fólkið sá riffilinn en hann róaði það með því að segja að hann ætti engin skot. Enginn sá neitt óeðlilegt í fasi Sigurbjörns en hann hafði verið á dansleik í bænum kvöldið áður ásamt unnustu sinni, Konkordíu Jónatansdóttur, sem einnig var í matsalnum. Konkordía var nemandi í skólanum, einstaklega áhugasöm og dugleg stúlka, og höfðu þau Sigurbjörn þekkst í meira en ár.

Sigurbjörn Ingi Þorvaldsson

„Jæja, Día mín“

Eftir matinn var Sigurbjörn ennþá rólegur og tefldi við annan heimamann í sal skólans. En hann var einmitt talinn liðtækur skákmaður, var vel liðinn og vinsæll meðal allra á staðnum. Eftir skákina stóð hann upp, náði í riffilinn, hlóð hann og gekk inn í eldhús mötuneytisins. Þar voru fjórar konur og Konkordía ein af þeim. Spurði Sigurbjörn eina þeirra, ráðskonuna, hvort það vantaði meiri mjólk úr fjósinu. Síðan gekk hann fyrirvaralaust upp að Konkordíu og sagði við hana: „Jæja, Día mín.“ Beindi svo rifflinum að kvið hennar og hleypti af.

Skotið fór í gegnum búk Konkordíu en Sigurbjörn var enn hinn rólegasti. Enginn sá honum svo mikið sem bregða þegar hann skaut og hún féll í gólfið. Gekk hann út úr eldhúsinu, út á hlaðið og svo inn í starfsmannahús þar sem herbergið hans var. Þeir sem nálægir voru hlupu að Konkordíu, sem blæddi hratt út og var hún látin fljótlega. Hringt var á lækni en það var um seinan. Einnig var hringt á sýslumann og allir á staðnum látnir vita af atburðinum.

 

Bað skólameistarann að fyrirgefa sér

Páll Hallgrímsson, sýslumaður Árnesinga, var kominn í Garðyrkjuskólann um klukkutíma eftir árásina en þá var Sigurbjörn ennþá í herbergi sínu í starfsmannahúsinu og hafði ekki gert neina tilraun til þess að flýja af vettvangi. Páll bankaði og Sigurbjörn svaraði: „Kom inn!“ Hann var enn rólegur og yfirvegaður, lá á legubekk með riffilinn sér við hlið. Tvær byssukúlur stóðu á borði við hliðina á legubekknum.

Sigurbjörn var spurður hvað hann hefði gert og viðurkenndi hann fúslega að hafa framið manndrápið. En hvers vegna vildi hann ekki segja. Páll sagði Sigurbirni að hann yrði fluttur til Reykjavíkur til yfirheyrslu og fór Sigurbjörn þá að búa sig undir ferðalagið. Rétt áður en hann steig upp í bílinn beygði hann af og sagði við skólameistara Garðyrkjuskólans: „Viltu fyrirgefa mér?“ Klukkan fimm síðdegis keyrðu þeir Páll af stað til Reykjavíkur og var Sigurbjörn settur í klefa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum.

Hafði reynt sjálfsvíg með eitri skömmu áður

Við yfirheyrslur og rannsókn málsins kom fram að Sigurbjörn hafði verið mjög þunglyndur í hálft ár. Í eitt skipti hafði hann reynt að taka eigið líf með því að gleypa Lýsol, sterkt efni sem notað er í sápur. En þá tókst að koma honum undir læknishendur í tæka tíð. Sigurbjörn drakk einnig oft og ótæpilega.

Í byrjun nóvember árið 1956 fannst fólki eins og Sigurbjörn væri allt annar maður. Var allur hinn rólegasti og hafði tekið gleði sína á nýjan leik. Enginn sá hann bragða áfengi tvo mánuði fyrir sunnudaginn afdrifaríka en talið var að hann hafi fengið sér á dansleiknum um laugardagskvöldið.

Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppsspítala tók út ástand Sigurbjörns á sjö mánuðum og skilaði skýrslu um sakhæfi hans. Þar stóð:

„Almenn taugakerfisrannsókn er eðlileg, einkanlega skal tekið fram, að ekki eru neinir Keith Flachs hringir í augunum né önnur einkenni, sem bent gætu til svonefndra Hepato. Álit mitt á Sigurbirni Inga Þorvaldssyni er þetta: Hann er hvorki fáviti né geðveill í venjulegum skilningi, en haldinn tímabundinni drykkjusýki, dipsomani. Hann hefir vefrænan taugasjúkdóm. Við langa athugun á geðspítala, komu engin geðveikisheilkenni fram hjá honum, en fimm sinnum má telja, að um nokkrar geðlagssveiflur hafi verið að ræða svipaðar þeim, sem koma fram hjá periodiskt drykkjusjúkum mönnum, sveiflur sem ef hann hefði verið utan spítala, sennilega hefðu valdið því að hann hefði farið að neyta áfengis. Maðurinn virðist fyllilega vita hvað honum hefir orðið á og skilja viðbrögð þjóðfélagsins.“

Helgi taldi hann hafa drukkið óhóflega í 6 til 8 ár, reykt óhóflega í 8 til 10 ár, væri heilsulítill og fengið lifrarbólgu og liðagigt. Sigurbjörn væri ógiftur landbúnaðarverkamaður með ættlæga krabbameinstilhneigingu, illa menntaður, skuldugur, einrænn og fáskiptinn. Helgi taldi verknaðinn hafa verið framinn undir áhrifum og Sigurbjörn sennilega verið mjög drukkinn í þrjá eða fjóra daga fyrir hann. Var Sigurbjörn allur hinn rólegasti á meðan hann beið réttarhaldanna bak við lás og slá og samvinnuþýður við yfirvöld.

 

Dómurinn þyngdur

Réttað var yfir Sigurbirni í sakadómi Árnessýslu á Selfossi í september 1957 og alls komu fjórtán vitni fyrir réttinn auk sakbornings. Sigurbjörn játaði strax verknaðinn en neitaði því að hafa lagt á ráðin um að myrða Konkordíu. Þá ákvörðun hafi hann ekki tekið fyrr en hann var kominn inn í eldhúsið og þá í æði.

Líkur var hægt að leiða að því að ákvörðunin hafi verið tekin fyrr, þar sem Sigurbjörn hafði útvegað sér riffil og logið til um ástæður þess að hann vildi fá hann. En það þótti hins vegar ekki sannað að Sigurbjörn hafi ætlað að drepa Konkordíu á þeim tímapunkti.

Dómari taldi Sigurbjörn sakhæfan, í ljósi blóðrannsóknar hafi áfengismagn í blóði hans verið lítið og að mati vitna hafi hann ekki verið í neinni geðshræringu þegar hann framdi verknaðinn. Ástæða morðsins var talin megn afbrýðissemi. Mikil áfengisdrykkja og svefnleysi daganna á undan hafi valdið sljóleika hjá honum og fékk hann því aðeins tólf ára fangelsisdóm.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem tók það fyrir í mars ári síðar. Þar var dómurinn þyngdur umtalsvert, í sextán ár, og var hann á þeim tíma hinn þyngsti sem kveðinn hafði verið upp eftir almennu hegningarlögunum frá árinu 1940, og enn eru í notkun. Taldi rétturinn að undirréttur hefði ekki tekið nægilega vel til greina hvernig Sigurbjörn varð sér úti um byssuna og lygina sem hann beitti þar. Sigurbjörn lést árið 1995.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Óskar Ellert er látinn: „Það er einhver æðri máttur sem verndar mig“

Óskar Ellert er látinn: „Það er einhver æðri máttur sem verndar mig“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd dagsins: Helga Arnardóttir gengur með væntanlegt áramótabarn

Mynd dagsins: Helga Arnardóttir gengur með væntanlegt áramótabarn
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Barnið mitt er ekki einhverft“

„Barnið mitt er ekki einhverft“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifnar gallabuxur eru ekki sniðugar í sólinni – Sjáðu myndirnar

Rifnar gallabuxur eru ekki sniðugar í sólinni – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“