fbpx
Mánudagur 14.október 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Vínarbörnin sem aldrei komust til Íslands

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 1. júlí 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Sovétmenn sendu herlið sitt inn í Ungverjaland árið 1956 tóku Íslendingar við 52 flóttamönnum.

Síðan þá höfum við tekið við samtals yfir 500 flóttamönnum á vegum Sameinuðu þjóðanna frá hrjáðum svæðum heimsins. Þessi saga hefði getað byrjað miklu fyrr því að árið 1920 stóð til að Íslendingar tækju við 100 austurrískum flóttabörnum sem sultu heilu hungri á götum Vínarborgar.

Fyrri heimsstyrjöldin riðlaði alþjóðastjórnmálunum og einn stór leikandi, Austurríki-Ungverjaland, var tekinn út þegar ríkið leystist upp í mörg smærri og stór svæði voru innlimuð af nágrönnum.

Ein af meginástæðum fyrir þessu var bæði upprisa þjóðerniskenndar á fjölþjóðlegu svæði og ekki síður getuleysi stjórnvalda í Vín til að fæða borgarana í stríðinu. Hið nýja Austurríki var smáríki og ákaflega illa statt í þokkabót þar sem gengið hríðféll.

Hungursneyð brast á í höfuðborginni Vín og börnin fóru verst út úr henni.

Um einn fjórði af öllum börnum voru vannærð og mæður eyddu heilu og hálfu dögunum í biðröðum eftir matvælum, sem oft voru seld rándýru verði á svörtum markaði. Sumarið 1918 braust út svokallað kartöflustríð milli kvenna, barna og uppgjafarhermanna annars vegar og bænda í nágrenni við Vín hins vegar.

Heimurinn frétti af angist Vínarbarnanna og Íslendingar buðust til að hjálpa.

Prófessor Bang biður um aðstoð

Hinn 18. nóvember árið 1919 barst íslenska stjórnarráðinu skeyti frá Jóni Magnússyni forsætisráðherra, sem staddur var í Kaupmannahöfn. Í skeytinu stóð:

„Prófessor Bang frá Austurríki hefur komið til mín af hendi ríkisstjórnar og sveitarstjórnar í Wien með beiðni um að Íslendingar, eins og aðrar hlutlausar þjóðir, tækju börn frá Wien, alt að 100, til þess að forða þeim frá hungurdauða.“

Málið var tekið fyrir tveimur dögum síðar í bæjarstjórn Reykjavíkur og vel tekið í þá tillögu um að taka við flóttabörnunum. Var strax samþykkt að fela Knúti Zimsen borgarstjóra að skipa nefnd í samvinnu við landstjórn til að skipuleggja komu barnanna. Í kjölfarið var skipuð níu manna nefnd sem Knútur sat sjálfur í ásamt Thor Jensen kaupmanni, Ingibjörgu Bjarnason skólastjóra og fleirum. Þann 22. nóvember gaf sú nefnd út viljayfirlýsingu um að ganga í málið og bjarga börnunum 100 og eftirfarandi áskorun:

„Eru Reykvíkingar og aðrir nærsveitarmenn, þeir, er það kærleiksverk vilja vinna, að taka að sjer eitt eða fleiri af þessum munaðarlausu börnum, beðnir að gefa sig fram nú þegar við einhvern af oss og ekki seinna en 27. þessa mánaðar. Þeir, sem vilja taka barn, segi til hvort þeir óski að fá dreng eða stúlku og hve gamalt, svo og hvort þeir óski að taka barnið fyrir fullt og allt, eða um tíma, og þá hve lengi.“

Þá var einnig skorað á almenning að skjóta saman fé fyrir fararkostnaði barnanna, fatnaði og öðrum útgjöldum við flutning þeirra til landsins.

Vildu eignast börnin fyrir fullt og allt

Landsmenn brugðust fljótt við áskoruninni og um viku síðar voru komin boð um að taka við alls 150 börnum, flestum á aldrinum þriggja til átta ára. Skilyrði voru sett um að börnin mættu ekki hafa neina „næma“ sjúkdóma, svo sem berkla eða sárasótt eða fatlanir. Fjáröflunin gekk sæmilega og þann 6. desember var búið að skjóta saman um ellefu þúsund krónum.

En þá fréttist að börnin sem hingað áttu að koma væru flest á aldrinum tíu til fjórtán ára og ættu þau að snúa aftur til síns heima eftir tveggja ára dvöl á Íslandi. Reyndust þetta nokkur vonbrigði því að flestir vildu taka við yngri börnum og ættleiða þau fyrir fullt og allt.

Áleit nefndin því að erfiðara væri að koma börnunum fyrir. Hér kynnu fæstir þýska tungu og lengri tíma tæki að kenna svo gömlum börnum íslensku. Austurrísk stjórnvöld mátu það hins vegar svo að börnin væru svo veikluð af sulti að þau yngstu myndu jafnvel ekki lifa sjóferðina af.

Ekki voru allir jafn hrifnir af því að Íslendingar væru að taka við og styrkja erlend flóttabörn. Í Alþýðublaðið var skrifað:

„Það hefur komið til orða að taka hingað austurrísk börn, til þess að forða þeim frá hungurdauða, og er það óneitanlega fallegur hugsunarháttur; en geta þegnar hins íslenzka ríkis gert það með góðri samvizku, vitandi ungdóm síns eigin heimalands á glötunarbarmi.“

Í blaðið Austurland var skrifað:

„Ilt er til þess að vita, að neyðarópin skuli þurfa að fara mörg hundruð mílna veg, eftir símþráðum, til þess að þau nái til hjartanna.“

Flóttabörn fá mat í Wallensteinstrasse í Vín

Börnum hnuplað af járnbrautarstöð

Í janúar árið 1920 voru 400 börn komin til Danmerkur og fleiri á leiðinni en hluti af þeim átti að sigla til Íslands. Danskir fósturforeldrar stóðu á brautarstöðinni með nafnspjöld en þegar búið var að skipta öllum börnunum stóðu sumir væntanlegir foreldrar eftir með tómar hendur. Höfðu þá óprúttnir aðilar hnuplað mörgum börnunum af járnbrautarstöðinni en skiluðu þeim síðan aftur. Í blaðinu Fram segir:

„Þeir höfðu ekki staðist freistinguna þegar þeir sáu þessi fallegu börn. Og báðu áaflátanlega, að fá að halda þeim áfram.“

Börnin fengu matarböggla við komuna á járnbrautarstöðina en sum þeirra höfðu fallið í ómegin á leiðinni vegna hungurs. Þau voru einnig mörg í annarlegu andlegu ástandi vegna viðskilnaðarins við foreldrana heima í Vín sem ekki gátu brauðfætt þau. Danskur læknir fylgdi börnunum og sagði það hafa verið erfitt að horfa upp á sjálfsafneitun foreldranna.

Áætlað var að 50 austurrísk börn kæmu með skipinu Gullfossi um miðjan janúarmánuð og önnur 50 tveimur vikum síðar. Íslenska nefndin hafði sent skeyti til Vínar og fengið staðfestingu til baka. En síðan gerðist ekkert.

„Trúarbragðalegar tálmanir“

Austurrísk yfirvöld drógu það að senda börn til Íslands og kenndu meðal annars berklum um. Loks kom skeyti til Íslands þann 21. maí árið 1920 frá stjórnarráðsskrifstofunni í Kaupmannahöfn:

„Austurrísk nefnd, sett til að koma fyrir nauðlíðandi börnum, skýrir frá, að trúarbragðalegar og aðrar tálmanir séu því til fyrirstöðu, að ungum austurrískum börnum verði komið fyrir á Íslandi til stöðugrar dvalar eins og hugsað hefir verið.“

Var málið þá látið niður falla og allir sem höfðu boðist til að taka við barni leystir frá sínum skyldum. Kristján Jónsson, dómstjóri og formaður íslensku nefndarinnar, varð fyrir vonbrigðum en samskiptaörðugleikar varðandi skilyrði íslenskra fósturforeldra virðist hafa átt sinn þátt í að ekkert varð úr flutningnum. Fór Kristján fram á það við Jón Sveinbjörnsson, hjá stjórnarskrifstofunni í Kaupmannahöfn, að hann færi til Vínar og kæmi þeim peningum sem Íslendingar hefðu safnað til Vínarbarnanna.

Mál Vínarbarnanna var nokkuð til umræðu í dagblöðunum og fannst mörgum Íslendingar hafa verið gabbaðir og að nefndin hefði ekki staðið í stykkinu. Austurríkismenn hefðu tekið skilyrðunum um „næma“ sjúkdóma sem skilyrðum fyrir því að börnin yrðu að vera algerlega gallalaus. Haustið 1920 var enn mikil neyð í Vín og eins og segir í Vísi þá vildu austurrískar mæður enn þá senda börn sín hingað til lands.

En samskiptaleysi virðist hafa valdið því að engin flóttabörn komu til landsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Mynd dagsins: Útsjónarsemi Árna Johnsen – Til hvers að nota lyftuna?

Mynd dagsins: Útsjónarsemi Árna Johnsen – Til hvers að nota lyftuna?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry Styles gefur út nýja tónlist og tónlistarmyndband eftir 2 ára pásu – Löðrandi í olíu og ber að ofan

Harry Styles gefur út nýja tónlist og tónlistarmyndband eftir 2 ára pásu – Löðrandi í olíu og ber að ofan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Breaking Bad kvikmyndin kemur á Netflix á morgun

Breaking Bad kvikmyndin kemur á Netflix á morgun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Andri Snær ræðir loftslagsmál og bráðnun jökla á BBC

Andri Snær ræðir loftslagsmál og bráðnun jökla á BBC