fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Júlíus, frægasti api Noregs fyrr og síðar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 13. maí 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Annan dag jóla árið 1979 fæddist simpansinn Júlíus, frægasti api Noregs, í dýragarðinum í Kristiansand.

Skömmu eftir fæðinguna fundu dýragarðsverðirnir hann á gólfinu þar sem móðir hans, Sanne, hafði hafnað honum. Hann var þá með mikil meiðsli á öðrum handleggnum og fingri.

Í sjónvarpi og barnabók

Forstjóri dýragarðsins, Edvard Moseid, tók þá ákvörðun að leyfa Júlíusi að dveljast hjá fjölskyldu sinni um tíma en einnig fékk Júlíus að búa hjá dýralækninum William Glad.

Uppvöxturinn gekk vel og Júlíusi kom vel saman við börn Moseid og Glad. Hann klæddist mannafötum, tannburstaði sig, drakk safa úr pela og hélt upp á afmælið sitt með köku.

Að Júlíus byggi hjá mönnum spurðist fljótt út og brátt varð hann að stórstjörnu í Noregi.

Árið 1981 voru gefnir út sjónvarpsþættir um líf hans og einnig barnabók sem var þýdd á íslensku og margir þekkja. Þá var einnig samin barnavísa um apann krúttlega.

Fyrir flesta lýkur sögunni þarna, að minnsta kosti þá Íslendinga sem áttu bókina.

Júlíus óx nú samt úr grasi eins og aðrir apar og þegar það átti að láta hann aftur til hinna simpansanna gekk sú aðlögun mjög hægt og illa. Júlíus átti nefnilega við mikil hegðunarvandamál að stríða og lengi vel vildu hinir aparnir ekkert með hann hafa. Júlíus var öðruvísi og einangraður.

Hegðunarvandamál og sonarmissir

Árið 1996 var reynt að koma honum saman við apynjuna Miff, sem var þá ófrísk eftir annan apa. Það gekk hins vegar mjög illa og Júlíus barði bæði Miff og nýfæddan ungann.

Þetta harðræði orsakaði það að þau voru skilin að. Tvö skammlíf sambönd með Dixí og Jósefínu fylgdu í kjölfarið uns hann festi loks ráð sitt með Bíní árið 2005. Þetta sama ár dó leiðtogi apahópsins í Kristiansand og Júlíus steig þá upp og varð leiðtoginn.

Loksins virtist lífið ætla að ganga upp fyrir Júlíus. Hann eignaðist tvö afkvæmi með Bíní, soninn Línus og dótturina Ýr. En einn vordag árið 2012 hvarf hinn fimm ára gamli Línus. Dýragarðsvörðurinn fór inn á stórt svæði sem aparnir höfðu til umráða og fann hann drukknaðan í díki. Sorgin var augljós í apahópnum enda hafði Línus verið hugljúfi allra.

Júlíus er nú orðinn 38 ára gamall og leiðir enn þá apaflokkinn í Kristiansand. Edvard Moseid og börnin heimsækja hann stundum og hann þekkir þau ávallt. En hann hefur einnig átt við hegðunarvandamál að stríða undanfarið, til dæmis með því að kasta sér á gluggann sem dýragarðsgestirnir horfa í gegnum.

Hann er sólginn í gosdrykki, kökur og annað sætmeti og kann því að halda upp á lífið rétt eins og þegar hann var ungi og allur Noregur fylgdist með honum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af