fbpx
Fimmtudagur 23.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Biskup sagði kirkju vanhelgaða vegna giftingar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 30. desember 2018 14:00

Falleg athöfn í Árbæ Morgunblaðið 17.ágúst 1967.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumarið 1967 varð mikil ólga innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar hjónavígsla að sið bahaía fór fram í Árbæjarkirkju. Sigurbjörn Einarsson biskup setti sig upp á móti athöfninni og Sigurður Pálsson vígslubiskup sagði að kirkjan væri vanhelguð.

 

Falleg en framandi athöfn

Þann 17. ágúst árið 1967 greindi Morgunblaðið frá því að hjón hefðu verið gefin saman að sið bahaía í Árbæjarkirkju. Voru þetta Svava Magnúsdóttir og Fabio Tagliavia frá Palermo í Ítalíu. Blaðamenn voru kallaðir til til að vera viðstaddir athöfnina og var Ásgeir Einarsson forstöðumaður til svara um þessi framandi trúarbrögð sem taldi þá átján einstaklinga á Íslandi.

Spurðu blaðamenn út í réttarstöðuna og þótti þeim með miklum ólíkindum að parið hefði fengið heimild fyrir þessu frá Þjóðkirkjunni. Ásgeir svaraði því að biskup Íslands hefði sýnt þessum trúarbrögðum mikinn skilning en þjóðkirkjur annarra landa hefðu minni samúð með þeim. Hefði biskup til dæmis veitt góða umsögn þegar bahaíar sóttu um löggildingu sem trúfélag.

Um 40 voru viðstaddir athöfnina. Fyrst var Fabio leiddur inn og síðan Svava. Þá lásu þrír tilkvaddir upp úr spámannaritum bahaía, Ásgeir fór með bæn og brúðhjónin fluttu vitnisburð hvort á sínu tungumálinu, íslensku og ítölsku. Lásu þau upp heitorðin og settu upp hringana í kjölfarið.  Falleg athöfn og öll eftir kúnstarinnar reglum.

En það voru ekki allir með bros á vör þennan dag. Fyrir utan stóð Lárus Sigurbjörnsson, kirkjuvörður í Árbæ. Hann sagði við blaðamenn að sóknarpresturinn hefði gefið leyfi og tilvonandi hjón sýnt alla tilskilda pappíra. Þrátt fyrir þetta hafi hann reynt að ná tali af biskupi til að láta vita en án árangurs. Lárus hafi því orðið að gefa grænt ljós á þetta en hafði miklar efasemdir enda voru bahaíar taldir skyldari múslimum en kristnum.

 

Kirkjan sögð vanhelguð

Degi eftir að giftingin fór fram fékk Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, að frétta af málinu. Kom þetta honum algerlega í opna skjöldu. Sagði hann að ef hann hefði vitað þetta fyrir fram hefði hann ekki leyft athöfninni að fara fram innan veggja kirkjunnar. Hann sagði:

„Bahaítrúflokkurinn er ekki kristinn trúflokkur og það fólk, sem í þennan flokk gengur, hefur ekki aðeins sagt skilið við þjóðkirkjuna í skipulagslegu tilliti, heldur sagt skilið við kristna trú. Það hefur fullkomið frelsi til þess að sjálfsögðu, en gerir sér væntanlega grein fyrir, hvað það er að gera.“

Enn fremur:

„Kirkja, sem er Kristi vígð, verður ekki léð til athafna á vegum trúarbragða, sem ekki viðurkenna Krist eins og kristin kirkja játar hann og boðar.“

Sigurður Pálsson, vígslubiskup í Skálholti, var svo miður sín þegar hann frétti af athöfninni að hann taldi Árbæjarkirkju vanhelgaða. Hann sagði:

„Skoðun mín á þessu miðast við það, hvernig vígslan er skilgreind en mín tilfinning er sú, að það ætti að endurvígja kirkjuna. Þetta mál ber að leggja undir úrskurð biskups Íslands, en ég teldi ástæðu til að stöðva allar helgiathafnir í kirkjunni á meðan sá úrskurður liggur ekki fyrir.“

Einnig voru til þeir prestar sem sáu ekkert að vígslunni og lýstu þeir sinni skoðun bæði í blaðaskrifum og úr predikunarstólnum. Gaf biskup þá út aðra yfirlýsingu og sagði Árbæjarkirkja yrði ekki endurvígð og athöfnin hefði ekki óhelgað húsið. Slíkt yrði aðeins gert ef eitthvað kæmi upp sem ógilti upprunalegu vígsluna og væri matsatriði í hvert skipti. Jafnframt ítrekaði hann að athöfnin hefði verið „slys“, „vangá“ og „hugsunarleysi“ sem mætti ekki endurtaka sig en ekki „syndsamlegt athæfi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Stebbi Hilmars kannar listamannalaun

Stebbi Hilmars kannar listamannalaun
Fókus
Í gær

Samsæriskenningar umkringja Hatara – Mútugreiðslur, stuldur og skemmdarverk

Samsæriskenningar umkringja Hatara – Mútugreiðslur, stuldur og skemmdarverk
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi barnastjarna opnar sig um Michael Jackson: „Það var einn hlutur sem hann gerði sem var frekar óviðeigandi“

Fyrrverandi barnastjarna opnar sig um Michael Jackson: „Það var einn hlutur sem hann gerði sem var frekar óviðeigandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kvartað yfir flugmiðamálinu: „Þetta er óneitanlega eitthvað sem fór fyrir brjóstið á mér“

Kvartað yfir flugmiðamálinu: „Þetta er óneitanlega eitthvað sem fór fyrir brjóstið á mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skagfirskur galdramaður

Skagfirskur galdramaður
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fremsti popplagahöfundur Íslands gerist flugmaður

Fremsti popplagahöfundur Íslands gerist flugmaður