fbpx
Mánudagur 27.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Íslendingur á tíræðisaldri flúði af skoskum flugvelli

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. október 2018 19:00

Lárus við heimkomuna Morgunblaðið 8. júlí 1949.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðvikudaginn 6. júlí árið 1949 var auglýst eftir 94 ára gömlum íslenskum manni, Lárusi Jóhannssyni, í breskum dagblöðum. Hann hafði komið með flugvél frá Íslandi til Prestwick í Skotlandi og verið neitað um landvistarleyfi. Ástæðan var sú að hann væri of gamall og enginn til að sjá um hann í Bretlandi. Lárus lét það hins vegar eins og vind um eyru þjóta og stakk af.

 

Flúði af vellinum

Hafnfirðingurinn Lárus hafði starfað sem predikari og trúboði og því ferðast víða um heim. Hann bjó hjá fólki við Austurgötu en lét það ekki vita að hann væri á leiðinni til útlanda, en það gerði hann reyndar sjaldnast. Mánudagsmorguninn 4. júlí keypti hann sér farseðil til Skotlands hjá Flugfélagi Íslands og flaug út degi seinna. Ætlaði hann að vera í landinu í tvær vikur.

Þegar hann lenti með Gullfaxa á Prestwick-flugvelli vildi útlendingaeftirlitið þar ekki hleypa honum inn í landið. Hann væri 94 ára gamall og gæti ekki nefnt neina aðstandendur í Bretlandi sem myndu sjá um hann meðan á dvöl hans stæði. Hann lét þó ekki segjast og náði að flýja af flugvellinum.

Þegar vinir Lárusar voru spurðir hvort þeir óttuðust um hann neituðu þeir því. Þeir sögðu að Lárus væri vel ern þó hálftíræður væri. Einnig ætti hann marga félaga í Skotlandi sem hann gæti leitað til enda tvisvar ferðast til landsins á árunum eftir stríð.

 

Aldrei séð svo gamlan mann

Flóttinn stóð ekki lengi yfir. Dagblöðin auglýstu eftir honum á miðvikudeginum og þá um kvöldið hafði lögreglan í Edinborg uppi á honum. Hafði þá leit staðið yfir í 18 klukkutíma. Eftir flóttann hafði hann farið til vina sinna í Glasgow og gist þar eina nótt. Var samstundis farið með hann á Prestwick og var hann settur um borð í fyrstu vél aftur heim til Íslands. Hafði lögreglan í Skotlandi þá verið í sambandi við íslenska lækna sem ráðlögðu honum að snúa aftur heim.

„Þetta gerir ekkert til. Ísland er besta landið og hér er best að vera,“ sagði Lárus við Morgunblaðið við komuna á Reykjavíkurflugvöll. „Þeir ætluðu alveg að verða vitlausir í útlendingaeftirlitinu í Skotlandi þegar þeir sáu hvað ég var gamall. Í Prestwick höfðu þeir víst aldrei séð svona gamlan mann og því síður að hann væri að ferðast,“ sagði Lárus brosandi.

Lárus var fæddur árið 1855 og lést tæpu ári eftir flugferðina afdrifaríku.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Hatrammar nágrannaerjur: „Farðu að kúka og skilaðu tíund af því sem Rebbi refur segir“

Hatrammar nágrannaerjur: „Farðu að kúka og skilaðu tíund af því sem Rebbi refur segir“
Fókus
Í gær

Ragna er bæjarlistamaður Kópavogs

Ragna er bæjarlistamaður Kópavogs