Alltaf verið hávær
Magnús segist alltaf hafa látið í sér heyra í kynlífi, en að hann hafi líklega verið aðeins feimnari á unglingsárunum. „Þá mátti oftar en ekki reikna með foreldrum að minnsta kosti annars aðilans innan sömu fasteignar og svo voru nú útihátíðir og tjaldútilegur alltaf dálítið sér á parti vegna hljóðbærni, þó að þar gæti verið auðvelt að gleyma sér í ölvunarástandi. Ættarmót í tjaldútilegum bera svo með sér alveg sérstaka þagnarskyldu þar sem auðveldlega má draga rangar ályktanir á slíkum samkomum. Það eru náttúrlega ekki endilega allir skyldir á ættarmótum.“
Lífsmark æskilegt
Magnús kann við að gott lífsmark sé með báðum eða öllum aðilum í ástarleikjum. „Það er nú alltaf hálfóþægilegt að fá á tilfinninguna að maður sé staddur á útfararstofu frekar en í svefnherberginu hjá einhverri dömu og mér finnst miklu skemmtilegra að það heyrist í kynlífsfélaganum svo lengi sem styrkurinn er ekki orðinn það hár að skip myndu sveigja frá í þoku.“
Lostahljóð jákvæð
En hvað skyldi Magnúsi finnast um að fyrrverandi nágrannar hafi fylgst vandlega með hljóðunum frá híbýlum hans í Hafnarfirði? „Mér finnst betra að vita af þeim þótt stemningin þurfi ekki endilega að vera eins og þegar Frans páfi er í ræðustólnum á Péturstorginu. Líklega myndi maður setja viðmiðunarmörkin við það að valda nágrönnum og öðrum að minnsta kosti ekki mjög miklum óþægindum. Helst engum. Það truflar mig ekkert að hlusta á lostahljóð annarra, á meðan þau halda ekki vöku fyrir mér, sem hefur nú sennilega aldrei gerst nema á hótelum erlendis, og þá í mesta lagi einu sinni eða tvisvar. Maður veit þá að nágrannarnir eru á lífi og líkast til allt í lukkunnar velstandi hjá þeim, eins og maður óskar auðvitað nágrönnum og öðrum samborgurum alla jafna.“
Dýrsleg hljóð í tjaldi
Blaðakonu barst til eyrna önnur saga af karlmanni sem þekktur er meðal vina sinna fyrir ástarháreysti sem sögð eru ansi lík hljóðunum sem hann gefur frá sér þegar hann snæðir góða máltíð. „Við vinirnir fórum saman á útihátíð og gistum í tjöldum. Þegar næturhúmið lagðist yfir fór einn okkar að gera sér dælt við konu og bauð henni inn í tjald. Við lögðum okkur tveir til hvílu í næsta tjaldi, en varð nú ekki svefnsamt þegar atlotin byrjuðu. Vinurinn lét afskaplega vel í sér heyra, eiginlega alveg frá því leikar hófust. Svo var ákveðin stígandi í stunum og háværum andardrætti og hann varð allur dýrslegri eftir því sem leið á. Að lokum gólaði hann heil ósköp, og þóttumst við þá heyra að hápunktinum hefði verið náð. Síðan eru liðin mörg ár en við vinirnir notum vitaskuld hvert tækifæri til að stríða honum á þessu.“