Ég á það til að skella einstaka sinnum í köku eða kleinur með kaffinu. Hér áður fyrr þá miklaði ég það svo fyrir mér að steikja kleinur, ég hélt að það væri svo mikið bras. En það er sko aldeilis ekki mikið mál að skella í nokkrar kleinur. Mikið minna mál en margt annað. Ætli það taki ekki um það bil einn og hálfan tíma.
Ég hef prufað nokkrar uppskriftir og aðeins verið að prufa mig áfram til að finna uppskrift sem ég er sátt við og nú loksins held ég að ég sé búin að hnoða saman ágætis uppskrift, sem ég get deilt með ykkur.
Endilega prufið að skella í nokkrar kleinur, því að það er svo mikið einfaldara en margir halda.
Hér kemur uppskriftin ásamt nokkrum myndum sem ég tók í dag þegar ég var í kleinubakstri.
Kleinur að hætti Fríðu (u.þ.b. 85 stk.)
Uppskrift:
1200 gr hveiti
250 gr sykur
100 gr smjörlíki (við stofuhita)
2 stk egg
10 tsk lyftiduft
5 tsk kardimommudropar
4,5 dl mjólk
Aðferð:
Mér finnst gott að nota aðferðina sem amma notaði alltaf, en þá eru þurrefnin sett í “fjall” á borðinu og gerð hola í miðjuna. Eggin eru sett í holuna og hnoðað saman við þurrefnin. Mjólkin og kardemommudroparnir er síðan sett í holu á “fjallinu” og öllu hnoðað vel saman. Deiginu er síðan skipt í fjóra helminga, flatt út og skorið í tígla. Gat skorið í miðjuna á hverjum tígli og snúið upp á. Steikið kleinurnar í örfáar mínútur á báðum hliðum upp úr palmín feiti í potti.
Þegar ég tek kleinurnar úr pottinum, þá set ég þær á bökunarplötu sem ég hef sett bökunarpappír á og eldhúsrúllubréf, til að mesta feitin renni af þeim.
Einnig er hægt að hnoða deigið í hrærivél með K-inu. Þá eru öll hráefni sett í skálina og hnoðað vel áður en deiginu er skipt upp í fjóra hluta og flatt út.
Öll þurrefnin ásamt smjörlíkinu sett í „fjall“ á borðinu.
Hola gerð í miðjuna og eggin sett ofan í hana.
Skorið í tígla, með gat í miðjunni
og snúið upp á.
85 stk. kleinur tilbúnar.
Færslan er skrifuð af Fríðu B. Sandholt og birtist upphaflega á bloggsíðu hennar.
Einnig er hægt að fylgjast með Fríðu á Snapchat: fridabsandholt